Sérfræðingahópur, sem skipaður var af fjármálaráðherra, kynnti niðurstöður skýrslu um endurskoðun tekjuskatts og bótakerfa hjá einstaklingum og fjölskyldum á blaðamannafundi í gær. Hópnum var falið að skoða hvernig nýta megi þá fjármuni sem markaðir eru í fjármálaáætlun 2019 til 2023 til hagsbóta fyrir þá sem hafa lægri tekjur og leggja til útfærslur á breytingu á skattkerfinu.
Hópurinn lagði meðal annars til að persónuafsláttur verði lækkaður samhliða því að bæta við lægra skattþrepi. Hópnum var ekki falið að skoða hátekjuskattþrep samkvæmt formanni hópsins enda hafi hópurinn ekki haft umboð til að hækka skatta. Markmið hópsins hafi verið að minnka álögur og auka jöfnuð.
Lægra skattþrepið hefur áhrif á skattgreiðslur allra
Ein stærsta breytingin sem hópurinn lagði til er að skattleysismörk og persónuafsláttur og tekjumörk skattþrepa verði látin fylgja þróun breytinga á vísitölu neysluverðs og þróun framleiðni. Slík tenging myndi samkvæmt skýrslunni tryggja að tekjujöfnunareiginleikar skattkerfisins haldist yfir tíma, án þess að skerða hagstjórnaráhrif um of. Þannig væri hægt að hafa meiri prósentulækkun á fyrsta skattþrepi og hærri mörk þess þreps. Þetta á að verða til þess að skattbyrði þeirra tekjulægri vaxi hægar en skattbyrði tekjuhærri vaxi aftur á móti hraðar, samkvæmt skýrslunni.
Axel Hall, formaður sérfræðihópsins, segir að þessi tillaga sé ein mesta breyting á staðgreiðslukerfinu frá því að núverandi kerfi var tekið upp. „Þessi tillaga gerir það að verkum að hún viðheldur jöfnunarhlutverki skattkerfisins og kemur í veg fyrir að kerfið verði flatt yfir tíma, í því að skattbyrði allra komist á sama stig á mjög löngum tíma. Þannig að þessi tillaga bæði felur í sér að vera virkt hagstjórnartæki og að viðhalda lóðréttum jöfnuði yfir tíma,“ sagði Alex í samtali við fréttastofu Rúv í gær.
Ennfremur lagði hópurinn til nýtt neðra skatt þrep skattkerfsins sem ríkisstjórnin kynnti jafnframt í síðustu viku. Þrepið verður fjórum prósentustigum lægra en núverandi grunnprósenta kerfisins, eða 32.94 prósent. Axel segir að lægra skattþrepið hafi áhrif á skattgreiðslur allra, en það í krónutölum. Það þýðir að hlutfallslega vegur sú krónutala léttar eftir því sem tekjur verða hærri.
Ekki í þeirra umboði að hækka skatta
Sérfræðihópnum var ekki falið að skoða áhrif og útfærslu hátekjuskattþreps við endurskoðun skattkerfsins. „Okkur voru ekki lagðar línur um það og það gerði það einfaldlega að verkum að við horfum ekki til útfærslu þess,“ sagði Axel í samtali við Morgunblaðið.
Axel sagði að hópurinn hefði haft það að leiðarljósi að tillögurnar myndu skila ávinningi til þeirra sem hafa lágar tekjur með þeim fjármunum sem eru til ráðstöfunar án þess þó að öðrum væri íþyngt. Hann sagði jafnframt að það verði að horfa á tillögur hópsins í því ljós að það var ekki í þeirra umboði að hækka skatta.
ASÍ og BSRB hafa farið fram á að komið verði á hátekjuskatti og telja verkalýðsfélgöin að tillögur stjórnvalda að breytingum á skattkerfinu gangi ekki nægilega langt í átt að jöfnuði. ASÍ hefur lagt til að tekið verði upp fjögurra þrepa skattkerfi þar sem fjórða skattþrepið verði eins konar hátekjuskattur.
Samnýting skattþrepa sambúðaraðila verði aflögð
Í skýrslunni kemur fram að tillögur hópsins feli í sér að jöfnunin verði í ríkara mæli borin af þrepum kerfsins en áður í stað þess af persónuafslætti og skattleysismörkum. Jafnframt kemur fram að til þess að þrepið endurspegli lækkun grunnprósentu í þrepinu sem máli skiptir verði persónuafsláttur frystur á innleiðingartíma þrepsins og verðlagsuppfærsla persónuafsláttar kemur í gegnum nýs lægra skattþreps. Skattleysismörk haldist þannig föst að raunverði. Ennfremur verður samnýting sambúðaraðila á skattaþrepum aflögð en millifærsla persónuafsláttar verði óbreytt frá því sem nú er.
Hópurinn skoðaði einnig vaxtabótakerfið en fram kom í skýrslunni að kerfið væri í eðli sínu flókið og ógangsætt og leggur hópurinn því til að það verði einfaldað. Jafnframt voru lagðar fram tillögur um húsnæðistuðnings- og barnabótakerfið og samspil þeirra við skattkerfið þar sem greind voru áhrif stuðningskerfanna á ólíka hópa í samfélaginu. Hægt er að lesa um tillögur sérfræðihópsins hér.