Aðalfundur Íslandspósts hefur verið boðaður þann 15. mars næstkomandi í höfuðstöðvum fyrirtækisins. Fundurinn átti að fara fram þann 22. febrúar síðastliðinn en honum var frestað að beiðni Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra. Á aðalfundi verður birt ársskýrsla fyrirtækisins.
Milljarðafjárfestingar og launaskrið
Íslandspóstur er í eigu ríkisins en mikið hefur verið fjallað um erfiða fjárhagsstöðu fyrirtækisins á undanförnum mánuðum. Fyrir jól samþykkti Alþingi 1,5 milljarða neyðarlánsheimild til fyrirtækisins vegna bágrar fjárhagsstöðu félagsins. Íslandspóstur hefur ekki staðið undir sér undanfarin ár, meðal annars vegna mikils samdráttar í bréfasendingum og niðurgreiðslu erlendra póstsendinga. Dreifingardögum póstsins hefur verið fækkað og póstburðargjald hefur þrefaldast á tíu árum. Fjárfestingar fyrirtækisins hlaupa hins vegar á milljörðum og fyrirtækið hefur tapað hundruðum milljónum króna vegna lána til dótturfélaga Íslandspósts. Greint var frá því í desember í fyrra að Íslandspóstur hafi afskráð dótturfyrirtæki sitt ePóst án samþykkis Samkeppniseftirlitsins. Auk þess hefur verið fjallað um launauppbót starfsmanna Íslandspósts í upphafi árs í fyrra sem og tillögu stjórnar fyrirtækisins um tuttugu prósent launahækkun stjórnarmanna . Jafnframt má sjá af ársreikningum Íslandspósts frá árunum 2014 til 2017 að laun forstjóra hafa hækkað um tæp 43 prósent á tímabilinu.
Gagnrýnt hefur verið að íslenska ríkið hafi ákveðið að lána Íslandspóst stórfé þrátt fyrir að ekki liggi fyrir greining á því hvað valdi bágri fjárhagsstöðu fyrirtækisins. Í umsögn Ríkisendurskoðunar, um auka fjárveitingu ríkisins til Íslandspósts, kom meðal fram að embættið telji það óheppilegt að ekki liggi nákvæmlega fyrir hvernig fyrirhugað sé að taka á rekstrarvanda Íslandspósts þannig að tilskilinn árangur náist áður en tekin er ákvörðun um framlög úr ríkissjóði til félagsins. Þá sé orsök fjárhagsvandans alls ógreind, ekki liggi fyrir hvort hann stafi af samkeppnisrekstri eða starfsemi innan einkaréttar. Fjárlaganefnd Alþingis samþykkti því í janúar á þessu ári beiðni til ríkisendurskoðanda um að unnin yrði stjórnsýsluúttekt á starfsemi Íslandspósts.
Undanfarin ár hefur aðalfundur Íslandspósts verið haldinn síðasta föstudag febrúarmánaðar og var einnig stefnt að því í ár áður en tilkynnt var um skyndilega frestun án skýringa. Nú hefur hins vegar verið boðað til aðalfundur á ný, þann15. mars næstkomandi. Á fundinum verður ársskýrsla fyrirtækisins fyrir árið 2018 birt en hún hefur meðal annars að geyma upplýsinga um kaup og kjör stjórnenda.