Heildarlaun Guðmundar Inga Ásmundssonar, forstjóra Landsnets, voru 29.856.000 krónur árið 2018 eða að meðaltali 2.488.000 krónur á mánuði. Samkvæmt ársskýrslu Landsnets fyrir árið 2017 þá voru heildarlaunin 21.762.000 eða að meðaltali 1.813.500 krónur á mánuði. Þetta þýðir að launin hækkuðu um 37,2 prósent milli ára.
Í svarbréfi sem formaður stjórnar Landsnets sendi Bjarna Benediktssyni fjármála- og efnahagsráðherra og birt var í dag á vef Stjórnarráðsins kemur fram að minnst einu sinni á ári eða oftar séu gerðar launagreiningar til að fylgjast með hvernig laun eru að þróast á markaði. Þannig fáist góðar upplýsingar um laun á samkeppnismarkaði og yrti viðmið fyrir allar starfsstéttir hjá Landsneti.
Fjármála- og efnahagsráðherra sagðist mjög óhress með þær launahækkanir sem átt hafa sér stað hjá hluta forstjóra ríkisfyrirtækja í fjölmiðlum þann 13. febrúar síðastliðinn. Hann var sammála þeirri gagnrýni sem sett hefur verið fram um að þær séu taktlausar. „Það er ekki annað að sjá en að þau tilmæli sem send voru á sínum tíma, í upphafi árs 2017, hafi verið höfð að engu,“ sagði hann.
Í bréfi stjórnarformannsins til Bjarna kemur fram að við mat á viðmiðum fyrir laun forstjóra Landsnets sé viðmið meðal annars fundið út frá samanburði við sambærileg fyrirtæki á íslenskum markaði þ.e. orkufyrirtæki og svipuð opinber fyrirtæki án bankanna. Einnig hafi verið hafður til hliðsjónar framreikningur á launum forstjóra úr frá launavísitölu. „Loks má nefna að við matið var jafnframt skoðað innra viðmið þ.e. hlutfallslegur munur á launum forstjóra og miðgildi launa allra starfsmanna LN,“ segir í bréfinu.
Stjórn Landsnets bar ábyrgð á samningum um launakjör forstjóra Landsnets til 1. maí 2010, þegar ákvörðun um laun forstjóra voru fært til kjararáðs. Laun forstjórans lækkuðu nokkuð eftir það en fylgdu síðan almennum launahækkunum. Samkvæmt formanni stjórnar gerði launalækkunin það að verkum að launin fylgdu ekki launavísitölu. Ábyrgð um laun hans voru síðan aftur færð undir stjórn Landsnets þann 1. júlí 2017.
Í bréfi stjórnarformanns segir að í síðustu launagreiningu sem gerð var í ágúst 2018 hafi laun forstjórans verið borin saman við miðgildi launa allra starfsmanna hjá Landsneti og fundið út launahlutfall. Það hafi verið 2,27 á síðasta ári en samkvæmt Landsneti er það lágt á íslenskan mælikvarða.
„Stjórn Landsnets er meðvituð um ábyrgð sína á að laun forstjóra séu í sem bestu samræmi við umfang og ábyrgð starfsins og séu samkeppnishæf. Og við höfum byggt ákvarðanir okkar á launakjörum forstjóra á eins hlutlægan hátt og nokkur kostur er.
Starfsemi Landsnets er flókin og viðamikil. Krafa um rekstraröryggi og stöðugleika kallar á að stjórn skapi forstjóra laun og önnur starfskjör sem eru til þess fallin að hann samsami sig fyrirtækinu og hlutverki þess og sýni því þá tryggð sem nauðsynleg er,“ segir í bréfi stjórnarformanns til Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra.