„Við höfum spurt. Við erum komin með svar sem er kannski ekki alveg fullkomið[...]en sem er hægt að draga þó nokkrar ályktanir af. Það verður í þessari skýrslu. Hún er meira og minna bara á borðinu. Það þarf að klára örfá atriði. Það stendur á þessum karli sem hér er.“
Þetta segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri aðspurður hvort Seðlabanki Íslands hafi spurt Kaupþing um hvað hafi orðið um 500 milljón evra neyðarlánið sem bankinn fékk hjá Seðlabankanum 6. október 2008.
Már er gestur Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í kvöld klukkan 21:00. Þar ræðir Már meðal annars afnám hafta, aflandskrónueigendur, hið umdeilda gjaldeyriseftirlit Seðlabanka Íslands, stöðu efnahagsmála og kjaradeilur. Hægt er að sjá stiklu úr þætti kvöldsins hér að neðan.
Í svari Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra við fyrirspurn Jóns Steindórs Valdimarssonar, þingmanns Viðreisnar, um neyðarlánveitinguna, sem birt var á vef Alþingis 14. nóvember 2018, kom fram að hún ætlaði að óska eftir því að Seðlabanki Íslands myndi óska svara frá Kaupþingi ehf. um ráðstöfun umræddra fjármuna og að bankinn myndi greina frá niðurstöðum þeirra umleitana í skýrslu.
Már segir að skýrslan verði kláruð í nánustu framtíð. „Þetta liggur eins og mara á mér að klára þetta. Og ég vil bara klára þetta sem fyrst.“
Í bókinni Kaupthinking: Bankinn sem átti sig sjálfur, sem kom út í nóvember 2018, er aðdragandinn að veitingu neyðarlánsins rakinn ítarlega og ýmsar áður óbirtar upplýsingar birtar um þann aðdraganda. Þar voru einnig birtar nýjar upplýsingar um hvernig neyðarláninu var ráðstafað.
Á meðal þess sem þar er greint frá er að þann 21. apríl 2008 var samþykkt sérstök bankastjórnarsamþykkt, nr. 1167, um hver viðbrögð Seðlabanka Íslands við lausafjárvanda banka ætti að vera. Í reglunum var sérstaklega kveðið á um að skipa ætti starfshóp innan bankans til að takast á við slíkar aðstæður og gilda ætti ákveðið verklag ef aðstæður sem kölluðu á þrautarvaralán kæmu upp. Verklaginu var skipt í alls sex þætti. Í samþykktinni var líka fjallað um við hvaða skilyrði lán til þrautavara kæmu til greina og í henni var settur fram ákveðinn gátlisti vegna mögulegra aðgerða Seðlabankans við slíkar aðstæður.
Þegar Kaupþing fékk 500 milljónir evra lánaðar 6. október 2008, sama dag og neyðarlög voru sett á Íslandi, var ekki farið eftir þeirri bankastjórnarsamþykkt. Þá er ekki til nein lánabeiðni frá Kaupþingi í Seðlabankanum og fyrir liggur að Kaupþingi var frjálst að ráðstafa láninu að vild.