Skuldabréfaeigendur WOW air gætu þurft að samþykkja tugprósenta afskriftir af höfuðstól bréfanna til þess að kaup Indigo Partners í félaginu nái fram að ganga. Auk þess krefst bandaríska fjárfestingafélagið að endanlegur eignarhlutur Skúla Mogensen, forstjóra og stofnanda WOW air, í félaginu verði mun minni í kjölfar viðskiptanna en áður hefur verið rætt um. Flugfélagið fékk í síðustu viku frest til lok mánaðarins til að ná samkomulagið við Indigo Partners. Frá þessu er greint í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins, í dag.
Skuldabréfaeignendur WOW air fjárfestu fyrir 8,2 milljarða síðasta haust
Fyrir helgi var greint frá því að WOW air og bandaríska félagið Indigo Partners ákváðu að taka sér mánuð til viðbótar, til 29. mars, til að reyna að ná samkomulagi um fjárfestingu síðarnefnda félagsins í WOW air. Skúli Mogensen fundaði með bandaríska fjárfestingafélaginu síðasta fimmtudag, sem var dagurinn sem frestur sem skuldabréfaeigendur WOW air veittu félaginu til þess að ná samkomulagi við bandaríska félagið rann út. Samkvæmt umfjöllun Markaðarins voru á þeim fundi skilyrðin um niðurskrift á kröfum skuldabréfaeigandanna WOW air, sem fjárfestu fyrir samtals 60 milljónir evra eða um 8,2 milljarða króna í skuldabréfaútboði flugfélagsins síðasta haust lögð fram. Á meðal skuldabréfaeigandi er meðal annars bandaríska sjóðstýringarfyrirtæki Eaton Vance en sjóðurinn keypti skuldabréf í útboði WOW fyrir um 10 milljónir evra, eða sem nemur tæplega 1,4 milljarða króna
Á fundinum lögðu fulltrúar Indigo air auk þess fram þá kröfu um að Skúli afskrifi hluta af eignarhlut sínum en hann fjárfesti sjálfur fyrir 5,5 milljónir evra í skuldabréfaútboði WOW air í haust. Samkvæmt heimildum Markaðarins komu kröfurnar Skúla verulega á óvart og ollu honum miklum vonbrigðum. En greint hefur verið frá því að forsvarsmenn WOW air komust að samkomulagi við leigusala flugfélagsins en það var talin stór hindrun í samningaviðræðum flugfélagsins við Indigo partners.
Ennfremur gætu til viðbótar, við þær niðurskriftir sem skuldabréfaeigendur WOW air eru krafðir um, aðrir lánardrottnar og kröfuhafar flugfélagsins þurft að gefa eitthvað eftir af kröfum sínum á hendur félaginu, samkvæmt heimildarmönnum Markaðarins. En ef viðræður WOW air ganga ekki eftir og greiðsluþrot blasir við flugfélaginu þá þyrfti skuldabréfaeigandur að óbreyttu að tapa kröfum sínum að stórum hluta.
Greint var frá því á föstudaginn að Skúli hefði sett sig í samband við Icelandair í kjölfar fundarins til að kanna hvort möguleiki væri á því að taka upp þráðinn á nýjan leik en stjórn Icelandair tilkynnti sama dag að ganga ekki til viðræna við flugfélagið. Viðræður WOW air og Indigo hafa staðið yfir síðan í nóvember þegar ljóst var að Icelandair ætlaði sér ekki að kaupa WOW air. Horft hefur verið til þess að WOW geti fengið um 9 milljarða fjárfestingu frá Indigo, að uppfylltum skilyrðum. WOW air tapaði 33,6 milljónum dala, sem jafngildir um 4,2 milljarði króna, á fyrstu níu mánuðum ársins í fyrra.
Skilagreinar launagreiðenda í vanskilum bera 12,25 prósent dráttarvexti
Í gær var greint frá því að WOW air hefði ekki greitt mótframlag í lífeyris- og séreignasparnað í þrjá mánuði, bæði hvað varðar skylduiðgjald og séreignarsparnað, en samkvæmt upplýsingafulltrúa fyrirtækisins vonast félagið til þess að koma því í skil í þessum mánuði. Um er að ræða greiðslur vegna nóvember og desember síðasta árs auk janúar þessa árs en þær eru allar komnar fram yfir eindaga. WOW hefur átt í miklum lausafjárerfiðleikum og hefur ekki getað staðið skil á fyrrnefndum greiðslum vegna þessa.
Í Morgunblaðinu í dag er greint frá því að atvinnurekendum sé ekki mögulegt að aðgreina mótframlag sitt og iðgjaldagreiðslur launþega í uppgjöri sínu við lífeyrissjóði. Þannig geri samþykktir helstu lífeyrissjóða landsins ekki ráð fyrir því að launagreiðendum sé kleift að standa skil á iðgjaldagreiðslum þeim sem þeir draga af launum starfsmanna sinna á sama tíma og þeir draga að greiða lögbundið mótframlag sitt á sama tíma. Þannig byggjast kröfur lífeyrissjóða á hendur launagreiðendum á skilagreinum og enginn aðskilnaður við innheimtuna gerður á mótframlaginu og iðgjaldagreiðslum launþega.
Þegar dráttur verður á iðgjaldagreiðslum til lífeyrissjóða stofnast til vaxtakröfu sem miðast við dráttarvexti á hverjum tíma en dráttarvextir eru 12,25 prósent í dag, samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum. Jafnframt er kveðið á um í samþykktum helstu lífeyrissjóða að skilagreinar frá launagreiðendum teljist í vanskilum uns full greiðsla hennar, ásamt áföllnum vanskilavöxtum séu inntar af hendi. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins grípa lífeyrissjóðir til ákveðinna innheimtuaðgerða þegar lífeyrisiðgjöld eru komin í 90 daga vanskil. Það er m.a. gert þar sem Ábyrgðarsjóður launa ábyrgist kröfur lífeyrissjóða um lífeyrissjóðsiðgjöld til 18 mánaða. Ekkert þak er á þeirri ábyrgð og sjóðurinn gerir ekki greinarmun á vangoldnu mótframlagi atvinnurekanda og iðgjaldi launamanna.