Ísland, Liechtenstein og Noregur hafa öll bætt frammistöðu sína við innleiðingu EES tilskipana og reglugerða. Noregur stendur sig best og Ísland viðheldur sögulega bestu frammistöðu sinni við innleiðingu tilskipana en hallinn er nú 0,5 prósent.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sem send var út í gær.
Í henni segir jafnframt að þetta sé 43. frammistöðumat innra markaðssviðs Eftirlitsstofnunar EFTA en innleiðingarhallinn gefur til kynna hversu margar tilskipanir og reglugerðir EES ríkin hafa ekki innleitt á réttum tíma. „ESA birtir þessar tölur og minnir ríkin á að halda innleiðingarhallanum undir 1 prósenti. Sein eða röng innleiðing getur orðið til þess að fólk og fyrirtæki njóta ekki réttinda sinna á EES svæðinu,“ segir í tilkynningunni.
Nýja frammistöðumatið sýnir að Ísland hafi bætt frammistöðu sína við innleiðingu tilskipana og er hallinn nú 0,5 prósent eins og áður segir en fjórar tilskipanir hafa ekki verið innleiddar.
Gera athugasemdir við vaxandi innleiðingarhalla reglugerða
Hins vegar gerir ESA athugasemdir við vaxandi innleiðingarhalla reglugerða. Þær voru 25 en eru nú 35, sem er innleiðingarhalli upp á 1.1 prósent. Flestar reglugerðirnar eru á sviði fjármálaþjónustu og þurfa íslensk stjórnvöld að bregðast sérstaklega við þessu, samkvæmt ESA.
Liechtenstein hefur ekki innleitt fimm tilskipanir og er innleiðingarhallinn þar 0,6 prósent. Allar tilskipanirnar tengjast útgáfu ökuskírteina og hafa beðið innleiðingar í tvö ár eða lengur.
Noregur stendur sig enn best
Noregur stendur sig best með 0,1 prósent innleiðingarhalla. Aðeins ein tilskipun hefur ekki verið innleidd að fullu. Noregur hefur jafnframt staðið sig vel þegar kemur að innleiðingu á reglugerðum og eru aðeins þrjár útafstandandi.
Síðar á þessu ári mun ESA birta uppfært frammistöðumat þar sem borin verður saman frammistöða EFTA ríkjanna og annarra EES ríkja.