Már Guðmundsson seðlabankastjóri mun sitja fyrir svörum á opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar næstkomandi fimmtudag. Á fundi nefndarinnar síðastliðinn miðvikudag ræddi umboðsmaður Alþingis um stjórnsýslu bankans á tímum gjaldeyrishafta og Samherjamálið svokallaða. Hann sagði meðal annars að málið gæfi tilefni til að huga betur að aðgreiningu verkefna hjá stofnunum sem er falið eftirlitshlutverk og vald til að beita viðurlögum. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Gaumgæfileg skoðun fjármagnshaftanna
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, var boðaður á fund stjórnsýslu- og eftirlitsnefndar síðasta miðvikudag en umfjöllunarefni fundarins var lög um gjaldeyrismál og stjórnsýslu Seðlabanka Íslands. Umboðsmaður Alþingis birti í lok janúar álit vegna kvörtunar einstaklings á afgreiðslu Seðlabanka Íslands á kröfu hans um að Seðlabankinn afturkallaði, að eigin frumkvæði, stjórnvaldsákvörðun vegna brota gegn reglum um gjaldeyrismál. Það er meðal annars niðurstaða umboðsmanns að við meðferð málsins hafi Seðlabankinn ekki tekið afstöðu til röksemda sem lutu að ummælum ríkissaksóknara um gildi laga og reglna um gjaldeyrismál, sem refsiheimilda, sem fram komu í afstöðu hans til sex mála frá 20. maí 2014.
Már Guðmundssonar, seðlabankastjóra, sendi Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, bréf þann 29. janúar síðastliðinn þar sem hann ræddi þá lærdóma sem að hans mati ber að draga af reynslunni um framkvæmd gjaldeyriseftirlits á vegum Seðlabanka Íslands. Í bréfinu segir að fjármagnshöftin hafi ekki virkað sem skyldi fyrst eftir að þau voru sett á en eftir að reglubreytingar voru gerðar og ráðist var í eftirlits- og rannsóknaraðgerðir hafi þau farið að virka eins og til var ætlast. „Má í því sambandi ekki gleyma því að aðgerðir Seðlabankans höfðu töluverð fælingaráhrif. Þetta mátti t.d. glögglega sjá eftir húsleitina hjá Samherja þó svo ekki hafi verið hugsað út í það fyrir fram, enda ekki lögmætt sjónarmið í þessu sambandi. Það að það tókst að stöðva streymi aflandskróna á álandsmarkað, bæta virkni skilaskyldu og senda skýr skilaboð um að Seðlabankanum var alvara með því að framfylgja höftunum bjó í haginn fyrir hið árangursríka uppgjör við erlenda kröfuhafa,“ segir í bréfi seðlabankastjóra .
Nokkrum dögum fyrir bréf seðlabankastjóri hafði bankaráð seðlabankans birt greinargerð sína til forsætisráðherra um forsendur fjármagnshaftanna, en tilefni hennar voru mál sem tengjast rannsókn bankans á útgerðarfyrirtækinu Samherja. Í greinargerðinni kom fram að eðlilegt sé að bankinn taki sögu fjármagnshaftanna, sem sett voru á í nóvember 2008 í kjölfar hruns bankanna, til gaumgæfilegrar skoðunar.
Ástæða til kanna nánar hlut starfsmanna gjaldeyriseftirlitsins
Á fyrrnefndum fundi nefndarinnar sagði umboðsmaður að honum væri misboðið fyrir hönd þeirra borgara sem eiga hlut að máli vegna Samherjamálsins svokallaða. Hann sagði það ekki samræmast hlutverki forsvarsmanna eftirlitsstofnana að lýsa opinberlega efasemdum um sakleysi manna eftir að mál þeirra hafi verið felld niður vegna galla á regluverki eða annarra formgalla.
Fyrir fundinn, þann 4. mars síðastliðinn, hafði umboðsmaður sent forsætisráðherra bréf þar sem hann fjallaði um bréf seðlabankastjóra til Katrínar. Í bréfi umboðsmanns kom að fram að hann teldi ástæðu til að kanna nánar hver hafi verið hlutur starfsmanna gjaldeyriseftirlits Seðlabankans í að upplýsa starfsmann Ríkisútvarpsins um fyrirhugaða húsleit en við íþyngjandi rannsóknarúrræði eins og húsleit ríkir þagnarskylda á starfsmönnum sem að henni koma, ekki aðeins vegna rannsóknarhagsmuna heldur einnig vegna réttar borgaranna til að teljast saklausir uns sekt þeirra er sönnuð. Hann sagði jafnframt að orðalag Más veki upp álitamál hvaða tilgangur hafi í raun búið að baki því að upplýsingar um húsleitina og birta og dreifa frétt um hana með þeim hætti sem gert var í þessu máli.
Málið grafalvarlegt
Umboðsmaður sagði jafnframt á fundinum að Samherjamálið og framkvæmd gjaldeyriseftirlitsins gefa tilefni til að huga betur að aðgreiningu verkefna hjá stofnunum sem er falið eftirlitshlutverk og vald til að beita viðurlögum. Slík verkefni fari ekki endilega vel saman við önnur verkefni viðkomandi stofnunar. Í bréfinu til Katrínar óskaði hann eftir upplýsingum frá ráðuneyti forsætisráðherra um hvort fyrirhugað sé að þau atriði sem fjallað er um í bréfinu komi til athugunar við boðaða athugun ráðuneytisins. „Þetta geri ég m.a. til að geta að fengnu svari ráðuneytisins tekið afstöðu til þess hvernig ég bregst við í tilefni af þeim upplýsingum sem mér hafa verið látnar í té undir þeirri vernd sem 18. gr. laga nr. 85/1997 hljóða um,“ segir hann.
Líkt og greint var frá hér fyrir ofan mun seðlabankastjóri sitja fyrir svörum á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í næstu viku. Helga Vala Helgadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sagði í samtali við Fréttablaðið í dag að málið hafi verið lengi hjá nefndinni og að fundur nefndarinnar með seðlabankastjóra hafi verið löngu ákveðinn. „Eins og málið lítur út á þessu stigi er það auðvitað grafalvarlegt. Við bíðum þó eftir svörum og skýringum frá fulltrúum Seðlabankans í næstu viku og eftir það ætti staðan að vera aðeins skýrari,“ sagði Helga Vala.