Póst- og fjarskiptastofnun telur að lausafjárvandi Íslandspósts sé tilkomin vegna fækkunar einkaréttarbréfa annars vegar og hins vegar mikilla fjárfestinga fyrirtækisins á sama tíma. Stofnun segir að Íslandspóstur hafi ráðist í miklar fjárfestingar án þess að fjármögnun þeirra hafi verið tryggð. Íslandspóstur lét ekki opinberlega vita af vandanum fyrr en í síðari helming síðasta árs. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Forstjóri og stjórn Íslandspósts bera ábyrgð á þeim ákvörðunum
Í lögum um Póst- og fjarskiptastofnun er kveðið á um að stofnunin hafi eftirlit með starfsemi fjarskiptafyrirtækja og póstrekenda og þar með talið fjárhagsstöðu þeirra. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðneytið óskaði eftir því í desember að Póst- og fjarskiptastofnun gerði grein fyrir hvernig eftirlit stofnunarinnar með fjárhagsstöðu Íslandspóst hafi verið háttað. Í svarbréfi stofnunarinnar, sem barst ráðuneytinu í febrúar, segir aftur á móti að eftirlit stofnunarinnar takmarkist við þann hluta sem snýr að einkarétti og alþjónustu, þegar kemur að póstþjónustu. Jafnframt kemur fram í bréfinu að stofnunin hafi ekki heimildir til að grípa inn í með einhverjum hætti þær ákvarðanir sem félagið kann að hafa tekið. Forstjóri og stjórn Íslandspósts beri ábyrgð á þeim ákvörðunum.
Í bréfinu er einnig greint frá því að rekstrarreikningur Íslandspóst fyrir árið 2017 hafi ekki bent til þess að félagið stefndi í alvarlegan lausafjárvanda árið 2018. Samkvæmt árshlutareikningi í september í fyrra var veltufé frá rekstri 12 milljónir króna sem er um 500 milljónum lægra en á sama tíma árið áður. Að mati póst- og fjarskiptastofnun skýrist það af lækkun á hagnaði einkaréttarbréfa. Stofnunin segir að vandinn hafi ekki legið fyrir fyrr en síðla árs 2018.
Miklar fjárfestingar og hækkun launa í fyrra
Forsvarsmenn Íslandspósts hafa sagt að lausafjárvandi fyrirtækisins stafi meðal annars af samdrætti í bréfum innan einkaréttar, afgreiðslutregðu stjórnvalda í gjaldskrár hækkunum og fjölgun erlendra sendinga. Aftur á móti hefur verið fjallað um í fjölmiðlum á undanförnum mánuðum hvernig fjárfestingar Íslandspóst í dótturfélögum, offjárfestingar í byggingum og vanáætlaðar gjaldskrár samkeppnisrekstur gætu einnig átt í hlut.
Fréttablaðið greindi frá því í febrúar að á fundi stjórnar Íslandspóst í nóvember 2017 var ákveðið að stækka flutningamiðstöð fyrirtækisins en áætlaður kostnaður við framkvæmdina var 698 milljónir króna. Á sama tíma stóðu yfir framkvæmdir við byggingu nýs pósthúss á Selfossi en áætlað var að sú framkvæmd kostaði 608 milljónir króna. Í desember 2017 samþykkti stjórn Íslandspóst heimild til allt að 1,25 milljarða. Í apríl 2018 var síðan samþykkt heimild fyrir 1,75 milljarða láni. Samkvæmt ársreikningum Íslandspósts var það hugsað til að endurfjármagna lánin frá í desember árið áður og til að fjármagna 500 milljóna yfirdráttarlán. Á þeim tíma sem framkvæmdin var samþykkt stóð handbært fé í 215 milljónum króna eftir slæmt rekstrarár.
Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri ríkisfyrirtækisins Íslandspósts, hækkaði tvívegis í launum á árinu 2018. Fyrst hækkuðu laun hans í 1.992 þúsund krónur á mánuði fyrsta janúar 2018 og svo aftur um þrjú prósent 1. maí sama ár. Eftir það voru laun hans 2.052 þúsund krónur á mánuði. Laun Ingimundar hafa hækkað um tæp 43 prósent frá miðju ári 2017, þegar ákvörðun um laun hans var færð frá kjararáði til stjórnar Íslandspósts.
Stjórnsýsluúttekt á starfsemi Íslandspósts
Í september 2018 leitaði Íslandspóstur síðan á náðir ríkisins og fékk 500 milljónir króna að láni til að bregðast við lausafjárskorti eftir að viðskiptabanki þess, Landsbanki Íslands, hafði lokað á frekari lánveitingar. Nokkrum mánuðum síðar, í desember, samþykkti Alþingi að lána fyrirtækinu allt að milljarð til viðbótar.
Í umsögn Ríkisendurskoðunar, um auka fjárveitingu ríkisins til Íslandspósts, sagði að Ríkisendurskoðun teldi að það væri óheppilegt að ekki liggi nákvæmlega fyrir hvernig fyrirhugað sé að taka á rekstrarvanda Íslandspósts þannig að tilskilinn árangur náist áður en tekin er ákvörðun um framlög úr ríkissjóði til félagsins. Þá væri orsök fjárhagsvandans alls ógreind, ekki lægi fyrir hvort hann stafi af samkeppnisrekstri eða starfsemi innan einkaréttar. Fjárlaganefnd Alþingis samþykkti því í janúar á þessu ári beiðni til Ríkisendurskoðanda um að unnin yrði stjórnsýsluúttekt á starfsemi Íslandspósts.
Aðalfundur Íslandspósts á fimmtudaginn
Aðalfundur Íslandspósts hefur verið boðaður þann 15. mars næstkomandi í höfuðstöðvum fyrirtækisins. Fundurinn átti að fara fram þann 22. febrúar síðastliðinn en honum var frestað að beiðni Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra. Á aðalfundi verður birt ársskýrsla fyrirtækisins.