Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun ekki tjá sig í dag um niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu á skipun Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra á fjórum dómurum við Landsrétt. Fréttablaðið greindi fyrst frá og staðfesti upplýsingafulltrúi ríkisstjórninnar við Kjarnann að hún hyggist ekki tjá sig í dag.
Katrín er nú stödd á kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York í Bandaríkjunum en hún átti fund með António Guterres aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í gær. Hún mun koma aftur til Íslands seint í nótt.
Sigríður greindi frá því í fréttum í hádeginu í dag að hún teldi dóm Mannréttindadómstóls Evrópu ekki vera tilefni til þess að segja af sér. Hún sagðist áfram njóta trausts hjá ríkisstjórninni allri og hefði því ekki í hyggju að segja af sér. Hún sagði dóminn bæði vera óvæntan og fordæmalausan og þá komi líka á óvart að dómurinn hefði klofnað í afstöðu sinni til málsins.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur ekki enn tjáð sig um dóminn og ekki heldur Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokksins.