Upphafleg tregða íslenskra dómstóla til þess að fylgja dómum Mannréttindadómstólsins er á undanhaldi að mati Róberts Ragnars Spanó, dómara við Mannréttindadómstól Evrópu. Róbert fjallaði um hvernig íslenskir dómstólar taka mið af dómum Mannréttindadómstólsins við úrlausn um ákvæði mannréttindasáttmálans og stjórnarskrárinnar á hádegisverðarfundi í nóvember á síðasta ári. Í nýjasta tölublaði Lögmannablaðsins er að finna nokkurs konar endursögn á fyrirlestri Róberts.
Að mati Róberts hefur dómaframkvæmd íslenskra dómstóla þróast verulega frá lögfestingu mannréttindasáttmálans og stjórnarskrárbreytingunni 1995. Í fyrirlestri sínum sagði hann að svo virðist sem Hæstiréttur vísi nú ekki einungis almennt til framkvæmdar Mannréttindadómstólsins heldur styðjist rétturinn í ríkari mæli við þær aðferðir sem dómstólinn hefur lagt til grundvallar við túlkun viðkomandi ákvæða mannréttindasáttmálans. Þá hafi íslenskir dómstólar undanfarna áratugi leitast við að eiga samstarf við dómstólinn.
Vægi dóma MDE hefur aukist jafnt og þétt í íslenskri dómaframkvæmd
Ísland gekkst undir mannréttindasáttmálann að þjóðarétti árið 1953 en samkvæmt tvíeðliskenningu þjóðaréttar hafði hann því ekki bein lagaleg áhrif hér á landi í rúm 40 ár eða fram að lögfestingu árið 1994. Í kjölfar lögfestingarinnar var mannréttindakafla stjórnarskrárinnar breytt árið 1995 í samræmi við sáttmálann. Mannréttindadómstól Evrópu er síðan ætlað að tryggja að aðildarríki Evrópuráðsins virði þau réttindi sem kveðið er á um í sáttmálanum.
Dómar Mannréttindadómstólsins eru þó ekki bindandi að íslenskum landslögum og hafa þannig ekki bein og milliliðalaust réttaráhrif að íslenskum rétti. Samkvæmt athugasemdum með frumvarpi að stjórnskipunarlögunum 1995 var þó reiknað með að dómar Mannréttindadómstólsins myndu hafa leiðsagnargildi við skýringu mannréttindaákvæða. Róbert sagði í fyrirlestri sínum að dómarnir væru þannig einhvers konar forspá um þá lágmarksvernd sem staðfest hafi verið að þjóðarétti við túlkun ákvæða mannréttindasáttmálans en íslenskum dómstólum er þó að formi til heimilt að hafna þeim leiðbeiningum sem er að finna í dómum Mannréttindadómstólsins.
Róbert sagði að þrátt fyrir þetta væri ljóst, af réttaröryggissjónarmiðum og þjóðréttarskuldbindingum Íslands, að íslenskum dómstólum væri rétt að fylgja alla jafna þeirri leiðsögn sem leiðir af dómum Mannréttindadómstólsins. Enda væri ljóst að efni mannréttindasáttmálans yrði ekki ráðið með því einu að lesa ákvæði hans heldur væri auk þess nauðsynlegt að kanna hvernig Mannréttindadómstóllinn hafi túlkað viðeigandi ákvæði. Hann sagði jafnframt að þótt dómarnir hafi að formi til ekki bein réttaráhrif kæmi það ekki í veg fyrir að dómar dómstólsins hafi beina lagalega þýðingu við úrlausn mála fyrir íslenskum dómstólum í gegnum viðurkenndar lögskýringaraðferðir við túlkun mannréttindasáttmálans.
Ekki tekið nægilegt tillit til dóma MDE
Róbert sagði í fyrirlestri sínum að framan af hefði gætt nokkurrar tregðu íslenskra dómstóla við að líta til dóma Mannréttindadómstólsins en fyrir því hafi verið ýmsar ástæður, þar á meðal tvíeðliskenningin, fullveldissjónarmið, skortur á þekkingu lögmanna og dómara. Sú þróun hefði þó breyst og hin síðari ár hafi íslenskir dómstólar meðal annars byggt á samræmisskýringu milli stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmálans eins og hann hefur verið túlkaður af Mannréttindadómstólnum. Það megi meðal annars rekja til þess að ákvæði sáttmálans, sem hafa efnislega samstöðu með ákvæðum stjórnarskrárinnar, hafa nú verulegt vægi við túlkun stjórnarskrárinnar.
Á undanförnum árum hafi jafnframt Mannréttindadómstólinn lagt aukna áherslu á að landsdómstólar aðildarríkjanna rökstyðji niðurstöður sínar með vísan til þeirra meginsjónarmiða sem myndast hafa í framkvæmd dómstólsins. Ef dómstólinn telur að það sjónarmið skorti þá sé líklegra að dómstólinn dæmi á þann veg að dómar landsdómstóla uppfylli ekki þær lágmarkskröfur sem felist í sáttmálanum.
Að mati Róberts hefur því dómaframkvæmd íslenskra dómstóla þróast verulega frá lögfestingu mannréttindasáttmálans og stjórnarskrárbreytingunni 1995. Á síðustu árum hafi vægi dóma Mannréttindadómstólsins aukist verulega í dómaframkvæmd hér á landi og nú sé fordæmi dómstólsins í raun orðin eðlislík stöðu hefðbundinna fordæma íslenskra dómstóla, þótt hin formlega staða sé óbreytt. Róbert sagði að sjá megi þessa þróun í nýlegum dómum Hæstaréttar.
Nú hverfist dómar Hæstaréttar á því hvernig Mannréttindadómstóllinn hefur túlkað og beitt reglu sáttmálans
Í fyrirlestrinum sagðist Róbert ekki hafa svigrúm til þess að ræða heildstætt dómaþróunina á þeim tíma sem liðinn væri frá lögfestingu mannréttindasáttmálans fram til ársins 2018. Hann fjallaði þó um nokkur dómsmál til að rökstyðja mál sitt, þar á meðal fjallaði hann um dómaþróun í tveimur málaflokkum, annars vegar mál þar sem reynir á vernd tjáningarfrelsis og hins vegar mál þar sem reynir á bann við endurtekinni málsmeðferð til úrlausnar um refsiverða háttsemi.
Samkvæmt Róberti hafði lengi tíðkast í íslenskri dómaframkvæmd að leysa úr meiðyrðamálum eingöngu á grundvelli íslenskra kenninga og fordæma án tillits til dómaframkvæmdar Mannréttindadómstólsins og dómum Hæstaréttar var ekki skotið til dómstólsins nema með einstaka undantekningum. Hann sagði hins vegar að á þessu hafi orðið breyting á árunum 2009 til 2013 þegar fjölda meiðyrðamála var vísað til Mannréttindadómstólsins í kjölfar þess að íslenskir dómstólar höfðu dæmt blaðamenn til greiðslu miskabóta fyrir ærumeiðandi umfjöllun í fjölmiðlum. Þau mál voru leidd til lykta með átta dómum Mannréttindadómstólsins á árunum 2012 til 2017 en sex þeirra voru kærendum í vil þannig að íslenska ríkinu var gert að greiða blaðamönnunum bætur fyrir brot gegn 10. gr. Mannréttindasáttmálans um vernd tjáningarfrelsis.
Að mati Róbert er lærdómurinn af þessum áfellisdómum sá að íslenskir dómstólar hafi ekki nægjanlega lagt til grundvallar þau lögskýringarsjónarmið og aðferðir sem leiða af dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu.
Eftir að þessir dómar voru kveðnir upp var tveimur öðrum íslenskum dómum áfrýjað til Mannréttindadómstólnum. Í þeim málum komst dómstólinn að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hefði ekki brotið gegn 10. gr. mannréttindasáttmálans. Í niðurstöðunni kom fram að það væri vegna þess að Hæstiréttur hefði dæmt á grundvelli þeirra sjónarmiða sem leiddu af dómaframkvæmd Mannréttindadómsólsins. Því segir Róbert að sjá megi á þessum síðustu dómum Hæstaréttar að aðferðarfræðileg stefnubreyting hefur orðið þar sem forsendur dómsins hafi hverfst að öllu leyti um það hvernig Mannréttindadómstóllinn hefur túlkað og beitt reglu mannréttindasáttmálans.
Þar með hafi Hæstiréttur horfið frá þeirri tilhneigingu að líta fyrst og fremst til innlends réttar án þess að kanna gaumgæfilega framkvæmd Mannréttindadómstólsins. Nú sé ekki einungis vísað almennt til framkvæmdar Mannréttindadómstólsins heldur styðjist rétturinn í ríkari mæli við þær aðferðir sem dómstólinn hefur lagt til grundvallar við túlkun viðkomandi ákvæða mannréttindasáttmálans. Róbert benti jafnframt á að Landsréttur hafi einnig vísað til þessarar aðferðarfræði í dómum sínum frá því í september og október 2018. Því er að mati Róberts upphafleg tregða íslenskra dómstóla til þess að fylgja dómum Mannréttindadómstólsins á undanhaldi.