„Ég sé ekki alveg hvernig sérstök smithætta á að vera af því að fólk setji upp tjald eða safnist saman á Austurvelli.“ Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í svari við fyrirspurn Kjarnans vegna skrifa Björns Bjarnasonar, fyrrverandi ráðherra og þingmanns Sjálfstæðisflokksins.
Sóttvarnalæknir hefur meiri áhyggjur af hreinlætisaðstöðu víðs vegar um landið fyrir ferðamenn. Í svarinu segir Þórólfur að honum finnist þetta ekki eiga við um það að fólk safnist saman á Austurvelli. Hann segist jafnframt enga sérstaka skoðun hafa á orðum Björns, hann viti hreinlega ekki hvort þetta eigi að vera grín.
Björn skrifaði pistil, sem birtist á bloggsíðu hans í gær, sem nefnist Frysting eyðir ekki smithættu. Þar fjallar hann um viðtal Morgunblaðsins við Katrínu Andrésdóttur sem var í áraraðir héraðsdýralæknir á Suðurlandi um smitvarnir og innflutning á matvælum.
Spyr hvort gætt hafi verið allra nauðsynlegra hreinlætis- og öryggiskrafna
Björn hefur á orði í pistli sínum að í viðtalinu við Katrínu hafi komið fram að með fleiri ferðamönnum aukist hættan á því að smit og ónæmar bakteríur berist til landsins. Nauðsynlegt væri að huga að sjúkdómavörnum í því tilliti og gæta fyllsta hreinlætis.
Með pistlinum lætur Björn fylgja tvær myndir eftir Rúnar Gunnarsson af mótmælum flóttafólks og hælisleitenda á Austurvelli. „Þær vekja spurningar um hvort gætt hafi verið allra nauðsynlegra hreinlætis- og öryggiskrafna með aðkomu réttra stjórnvalda þegar borgarstjóri leyfði að Austurvelli yrði breytt í tjaldstæði og styttunni af Jóni Sigurðssyni breytt í snaga fyrir mótmælaspjöld,“ skrifar Björn.
Hann segir ennfremur að ákvörðun borgarstjóra og að forsætisnefnd alþingis láti sér þetta lynda ýti enn undir hnignandi virðingu borgarstjórnar og þingsins. „Áður fyrr þótti máli skipta að almenningur kæmi saman á Austurvelli til að láta í ljós vilja sinn til fagnaðar eða andmæla. Nú hefur allt yfirbragð þarna breyst á þann veg að engin leið er að átta sig á hvort eitthvað skipti máli sem tengist aðgerðum á Austurvelli eða ekki, risið hefur lækkað jafn og þétt. Myndirnar segja meira en mörg orð.“
Búin að taka niður tjaldið
Hælisleitendurnir eru nú búnir að taka niður tjaldið á Austurvelli. Elínborg Harpa Önundardóttir hjá No Borders-samtökunum segir í samtali við Fréttablaðið að ástæðan sé heilsuleysi hælisleitendanna, bæði andlegt og líkamlegt, og mikil útlendingaandúð sem þau hafi orðið vör við undanfarna viku.
„Það voru nokkrir byrjaðir að veikjast þannig að okkur leist ekkert á blikuna þó að þeir sjálfir vildu vera áfram. En svo var búið að vera mikið af fólki með útlendingaandúð á Austurvelli, sérstaklega í gær,“ segir Elínborg Harpa við Fréttablaðið. „Þetta er ekki bara á samfélagsmiðlum, það er lifandi fólk á Austurvelli sem kemur og er með dólg. Á hverjum degi.“
WORD! PLEASE SHARE IT IF YOU WANT THE NEGOTIATIONS TO START! “I have just stumbled upon Kristinn Jónsson´s status...
Posted by Refugees in Iceland on Monday, March 18, 2019