Bára Huld Beck

Lífsháski við Alþingi

Auður Jónsdóttir rithöfundur og Bára Huld Beck blaðamaður Kjarnans slógust í för með flóttamönnum í mótmælum sem krefjast sanngjarnar málsmeðferðar og þess að Dyflinnarreglugerðin verði lögð niður. Þær tóku menn tali á þessum kalda Reykjavíkurdegi en rákust líka á dularfullan mann með rauðan trefil.

Úti var frost­stilla þegar mót­mæla­ganga flótta­fólks lagði af stað frá Hall­gríms­kirkju niður Skóla­vörðu­stíg­inn. Nokkrir ferða­menn stöldr­uðu við og mund­uðu mynda­vélar sínar en fáir Íslend­ingar virt­ust vera á ferli, ein­hverjir kaup­menn kíktu þó út í gætt­ina við að heyra mót­mæla­köll og trumbu­slátt. Ann­ars virt­ist gangan ekki vekja mikla for­vitni hjá land­an­um, nema jú, kona með barna­vagn staldr­aði við og virti hana fyrir sér.

Í göng­unni voru umtals­vert fleiri karlar en kon­ur, þær mátti jafn­vel telja á fingrum ann­arrar hand­ar.

Við gengum áleiðis með mót­mæl­endum sem var aug­sýni­lega mikið niðri fyrir þrátt fyrir fálátar und­ir­tektir og raunar furðu litla athygli miðað við hvernig gangan stakk í stúf við reyk­víska borg­ar­mynd­ina á mið­viku­dags­eft­ir­mið­degi í febr­ú­ar.

Neðst í Banka­stræti stað­næmd­umst við á ljósum ásamt erlendum karl­manni sem við gátum okkur til að væri ein­hver staðar frá Bret­landseyj­um, kelt­nesk hint í hreim hans; með horn­spang­ar­gler­augu og kask­eiti í síðum frakka með stór­an, rauðan tref­il.

Mað­ur­inn rak augu í skilti eins mót­mæl­and­ans með áletr­un­inni Niður með landa­mæri – vék sér að sam­ferða­manni okkar og spurði: What does landa­mæri mean? 

Sam­ferð­maður okkar svar­aði: It means borders. The sign says: No borders.

Þá sagði mað­ur­inn: That's a beauti­ful dream. Hann tók sér kúnstpásu og muldr­aði síð­an: They're always build­ing walls. But no wall stands for­ever.

Gangan stað­næmd­ist á Aust­ur­velli; á að giska sjö­tíu manns, and­spænis lög­reglu­mönnum sem stóðu vörð fyrir framan Alþingi – tóma bygg­ing­una því þing­menn eru nú í kjör­dæma­vik­unni á fart­inni út um land allt. Mót­mæl­endur hróp­uðu: Stop deporta­tions! No borders! No nations!

Mótmælendur
Bára Huld Beck

Við horfðum á hóp­inn sem, eins og áður sagði, sam­an­stóð að mestu leyti af ungum karl­mönn­um. Bláköld stað­reynd að ein­hleypir karl­menn í leit að alþjóð­legri vernd eiga ekki mik­inn séns, ekki einu sinni ungir strák­ar. Samúð almenn­ings nær sjaldn­ast til þeirra þegar hann tekur stök mál í hendur sínar og reynir að knýja þau áfram til end­ur­skoð­un­ar.

Nöt­ur­leg stað­reynd – líf þeirra.

Í ræðu­höld­unum var ekki seinna vænna að taka ein­hverja menn­ina tali. Við hittum vin okk­ar, Ali Rasouli, sem við höfum áður tekið við­tal við og býr nú til fram­búðar í Kópa­vogi ásamt eig­in­konu og syni. Hann sagði mik­il­vægt að Íslend­ingar sýndu flótta­fólk­inu stuðn­ing og kynnti okkur fyrir tveimur vinum sínum frá Afganistan, þeim Mohammad Mohammadi og Ali Yag­hobi.

Mótmælendur á Austurvelli
Bára Huld Beck

Ungir félagar frá Afganistan

Mohammad Mohammadi hefur verið á Íslandi í næstum því sex mán­uði. Hann hefur fengið eitt nei­kvætt svar frá Útlend­inga­stofnun vegna Dyfl­inn­ar­reglu­gerð­ar­inn­ar. Hann kom frá Sví­þjóð en þar dvaldi hann í þrjú ár. Þar fékk hann í þrí­gang nei­kvæð svör. „Ég fæ alltaf nei­kvæð svör, í hvert ein­asta skipt­ið,“ sagði hann.

Mohammad er upp­runinn frá Afganistan en hann yfir­gaf heima­landið þegar hann ein­ungis var átta ára gam­all, fyrir tíu árum síð­an. Á þessu tíma­bili hefur hann verið í Tyrk­landi, Þýska­landi, Íran og núna síð­ast í Sví­þjóð.

„Allt mitt líf hefur verið svona,“ bætti Mohammad við en for­eldrar hans búa í Íran og kvaðst hann ekki geta búið þar vegna þess að ungir menn með þennan upp­runa – eins og hann sjálfur – væru ofsóttir þar í landi. Þar væri engin fram­tíð fyrir hann og lífið óbæri­legt. Hann gæti heldur ekki snúið til baka til Afganistan þar sem hann er Haz­ari en þjóð­flokk­ur­inn er ofsóttur í Afganist­an.

Ég fæ alltaf neikvæð svör, í hvert einasta skiptið.
Ali Yaghobi og Mohammad Mohammadi
Bára Huld Beck

Hann sagð­ist hafa verið einn á flótta frá því hann var átta ára gam­all og þegar við spurðum hann út í fram­tíð­ina hafði hann fá svör. „Ég hef engin plön, það er síð­asti séns­inn minn að vera hér,“ útskýrði hann.

Vinur Mohammad, Ali Yag­hobi, kom einnig frá Sví­þjóð sam­ferða hon­um. Hann hafði svip­aða sögu að segja, fjöl­skylda hans dvelst nú í Íran. Ali hefur ekki enn fengið svar frá Útlend­inga­stofnun og hann hefur ekki hug­mynd um hvernig mál hans muni fara.

Þeir búa báðir á Ásbrú – ásamt öðrum karl­mönnum – en þeir lýstu aðstæðum þar frekar bág­um. Þeim líður eins og föngum þar, langt frá öllum öðrum og án þess að hafa eitt­hvað fyrir stafni á dag­inn. Það eina sem þeir gera er að vakna, borða, bíða og leggj­ast aftur í rekkju. Svona líða dag­arn­ir, vik­urnar og mán­uð­irn­ir. „Ör­ygg­is­verð­irnir líta á okkur sem fanga,“ sagði Mohammad en báðum finnst þeir vera ein­angr­aðir og án upp­lýs­inga.

Mohammad telur hættu­legt fyrir þá að fara til Afganist­ans vegna upp­runa þeirra. „Það yrði ráð­ist á okkur á hverjum degi. Það er vel hægt að sjá á frétta­flutn­ingi frá Afganistan að ráð­ist er á Haz­ara dag hvern. Við munum aldrei eiga aft­ur­kvæmt, sér­stak­lega vegna þess að við höfum dvalið í Evr­ópu og telj­umst þá vera síðri múslim­ar. Okkur yrði aldrei tekið vel þar.“

Póli­tískur aktí­visti frá Suður Kamerún

Annar flótta­maður varð á vegi okkar en hann kallar sig Check Elvis og er frá Suður Kamerún í Afr­íku. Hann hefur verið á flótta síðan í nóv­em­ber 2016. Hann ark­aði á Aust­ur­völl til að mót­mæla brott­vís­unum og Dyfl­inn­ar­reglu­gerð­inni. Hann álítur að kerfið sé ekki mann­eskju­legt og að flótta­fólk hafi ekki rými til að útskýra nægi­lega vel þær ástæður sem liggja að baki því að það flúði til Íslands.

Hann benti á að gall­inn við Dyfl­inn­ar­reglu­gerð­ina væri sá að strembið sé að koma til Íslands án þess að koma við í öðru landi í Evr­ópu, þannig að auð­velt væri fyrir stjórn­völd að neita flótta­mönnum og senda þá í síð­asta landið sem þeir dvöldu í. Hann sagði að gríð­ar­lega mörgum væri einmitt neitað vegna þessa.

Check Elvis
Bára Huld Beck

Elvis hefur enn ekki fengið svar og er ekki bjart­sýnn. Hann hefur dvalið á Íslandi í um fjóra mán­uði núna en hann kom hingað til lands frá Ítal­íu.

Hann kvaðst vera póli­tískur aktí­visti, því hefði honum ekki verið stætt á að vera í heima­land­inu og væri í mik­illi hættu ef hann snéri aft­ur. Margir af félögum hans hefðu verið drepnir eða hand­sam­aðir og fang­els­að­ir. Mikil ólga væri í land­inu um þessar mund­ir. Hann sagð­ist hafa sofið á göt­unni á Ítalíu og því ekki getað dvalið þar. Ekk­ert bíði hans þar ef hann verði sendur aft­ur.

„Þegar ég er einn í her­berg­inu mínu á fæ ég hrylli­legar myndir upp í hug­ann af morðum sem ég hef orðið vitni að. Ég upp­lifi að rétt­læt­inu hafi ekki verið full­nægt fyrir mig. Það eru þjóð­ar­morð í gangi í heima­landi mín­u,“ sagði hann.

Fjöl­skylda hans dvelur nú í skógi en hún hefur flúið her­inn og stjórn­völd í Suður Kamer­ún. Hann hefur engar leiðir til að hafa sam­band við þau og veit ekki nákvæm­lega hvar þau eru stödd núna. „Ég vona auð­vitað að þau séu örugg og að það verði í lagi með þau.“

Lögreglumenn gæta Alþingishússins
Bára Huld Beck

Þetta er póli­tísk ákvörðun

Þegar Check Elvis kvaddi okkur og hélt áfram út í óviss­una voru allir horfn­ir. Við röltum út Aust­ur­völl­inn en stað­næmd­umst þegar við rák­umst á Helgu Völu Helga­dótt­ur, þing­konu og mann­rétt­inda­lög­fræð­ing.  

Hvaða ferð er á þér? spurðum við.

Hún svar­aði eitt­hvað á þá leið að hún hefði verið við­stödd mót­mælin til að sýna stuðn­ing sinn.

Viltu segja okkur eitt­hvað um það? spurði önnur okk­ar.

Helga Vala Helgadóttir Mynd: Bára Huld BeckJá, já, sam­þykkti Helga Vala. „Mér finnst að við höfum ekki hugað nægi­lega vel að mann­úð­ar­þætt­inum þegar kemur að mót­töku umsækj­enda um vernd. Á sama tíma og við flytjum inn bílfarma af fólki til að vinna hér, vegna þess að við erum ekki nógu mörg, þá neitum við þeim um að vinna sem bíða hér mán­uðum og árum saman eftir úrlausn sinna mála. Við neitum þeim að sjá fyrir sér,“ sagði hún og benti á að svo­leiðis hefði þetta ekki alltaf verið á Íslandi. „Það er póli­tísk ákvörðun að gera þetta þannig.“

Hér áður fyrr gat fólk sótt um að fá útgefið bráða­birgða­dval­ar­leyfi og -kenni­tölu. „Þá fór fólk af öllum stuðn­ingi – sem og hús­næð­is­stuðn­ingi. En þetta er bannað í dag,“ sagði hún. Henni finnst þetta fyr­ir­komu­lag kjána­legt. „Mér finnst við fara illa með fólk. Sumir skilja enga mann­úð, skilja bara pen­inga. Þá vil ég segja við það fólk: Þarna erum við að fara illa með pen­inga. Vegna þess að við erum að banna fólki að vinna sem getur bjargað sér – og vill leggja til sam­fé­lags­ins. Við erum að koma í veg fyrir það.“

Mér finnst við fara illa með fólk. Sumir skilja enga mannúð, skilja bara peninga. Þá vil ég segja við það fólk: Þarna erum við að fara illa með peninga.
„We love the people of Iceland“
Bára Huld Beck

Við kvöddum því næst Helgu Völu og gengum sem leið lá fram­hjá Kaffi Par­ís. Þá sáum við að mað­ur­inn með rauða trefl­inn og skiln­ing­inn á því að allir múrar hverfi á end­anum var sestur þar við glugg­ann and­spænis Sjón, rit­höf­undi og for­manni Íslands­deildar PEN-­sam­tak­anna.  

Þeir slauf­uð­ust saman á svo und­ar­lega skáld­legan hátt að okkur dauð­lang­aði að vita deili á mann­in­um. Svo Sjón – ef þú lest þessa grein – viltu þá segja okkur hver mað­ur­inn er?

Hvert er allt þetta fólk sem rekur upp á strendur Íslands og hverju skyldi það búa yfir?

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar