Bára Huld Beck Zahra, Ali Rasouli og Milad

Móðir, faðir og barn komin í skjól

Auður Jónsdóttir og Bára Huld Beck hittu á ný viðmælendurna, Zöhru Rasouli, Ali og Milad, sem þær töluðu við um síðustu jól en nú horfir heldur betur til betri vegar.

Við heimsóttum fjölskylduna Zöhru Rasouli, Ali og Milad litla rétt fyrir jólin í fyrra. Þá bjuggu þau í lítilli íbúð við hraunflæmið í Hafnarfirði. Aðkoman minnti okkur á upplýstan hellisskúta, við keyrðum þangað í svarta myrkri og snjó og villtumst í hverfi fullu af atvinnuhúsnæði. Loks sáum við blokk og á neðstu hæð mátti sjá inn í ljósið í litlu íbúðinni. Við gengum beint inn í þrönga stofu þar sem þau höfðu, rétt eins og nú, borið hnetur og te á borð fyrir gesti sína. Þau voru hrædd, óviss um framtíð sína og umfram allt framtíð sonar síns, Milad.

Zöhru fannst hún bera ábyrgð á stöðu feðganna þar sem hún þurfti að flýja undan þvinguðu hjónabandi, því að þurfa að giftast eldri manni upp í skuld foreldra sinna. Þá höfðu þau verið á flótta í nokkur ár síðan Ali var sautján ára og Zahra nítján; ýmist í rútu, bíl eða lest í gegnum Íran, Tyrkland, Grikkland, Makedóníu, Serbíu, Ungverjaland, Austurríki, Þýskaland, Danmörku og Svíþjóð.

Loks komust þau til Noregs þar sem mál þeirra var tekið til efnismeðferðar. Þau fengu synjun en það er algengt í Noregi að Afgönum sé synjað um hæli. Raunar er synjunarhlutfall Afgana svo hátt þar að í skýrslu Amnesty International hefur það verið harðlega gagnrýnt.

Fjölskyldan fór þá frá Noregi til Danmerkur með báti og þaðan til Þýskalands en flaug síðan til Íslands frá Hamborg. Þegar við hittum hjónin í fyrra voru þau búin að dvelja í sex mánuði á Íslandi og vonuðust til þess að fá að búa hér áfram, örvæntingarfull í leit sinni að samastað fyrir fjölskylduna.

Atburðarásin hófst með símhringingu

Nú er ólíkt léttara yfir þeim, augsýnilega fargi af þeim létt. Þau hlutu alþjóðlega vernd þann 8. október síðastliðinn. Viku síðar fengu þau nýja íbúð í hlýlegu bakhúsi í Kópavogi í gegnum mæðginin Áslaugu Bergsteinsdóttur tónlistarkennara og son hennar, Sigurstein Másson, heimildargerðarmann og fyrrum fréttamann. Mæðginin búa í meginhúsinu, Sigursteinn á efri hæðinni og Áslaug á þeirri neðri. Áslaug er hjá þeim þegar okkur ber að garði og augsýnilega hefur myndast djúpur vinskapur á milli hennar og þeirra. Hún rifjar upp atburði ársins, síðan við hittum þau síðast, og segir okkur söguna af því hvernig leiðir þeirra lágu saman.

Þau hittust fyrir tilviljun í nóvember 2017 en atburðarásin hófst með símhringingu til Sigursteins þar sem leitað var eftir sal fyrir bardagaíþróttir sem Nasr Mohammed Rahim ætlaði að kenna hópi manna, þrjátíu eða fjörutíu talsins; margir Kúrdar og einhverjir frá Afganistan.

Feðgarnir Ali og Milad.
Bára Huld Beck

„Fallegt samfélag,“ segir Áslaug, ögn meyr þegar hún rifjar upp að sumir hafi komið með veitingar en þarna hafi verið æfingar öll þriðjudagskvöld – hjá bardagafélagi Sigursteins, eins og hún kallar það.

Eitt kvöld í nóvember

Nasr, eiginkona hans, Sobo Answ­ar Has­an, og börn þeirra, Leo og Leona, eru þekkt fjölskylda á Íslandi. Töluvert var fjallað um þegar þau voru flutt með flugi til Frankfurt snemma þann 30 nóvember árið 2017; Sobo þá ófrísk að dótturinni og Leo aðeins tveggja ára. Í fluginu voru þau aðskilin, móðirin fékk ekki að sitja nálægt feðgunum og hún grét þangað til farþegarnir ályktuðu að hún hefði verið sprautuð niður. Um tíma dvöldu þau í Þýskalandi og lýstu aðstæðunum eins og flóttamannabúðum, múruð inni af steinvegg. Síðar fengu þau íbúð en voru endanlega rekin frá Þýskalandi í september síðastliðnum. Þá flúði fjölskyldan til Frakklands og var í felum í skógi þar í landi til að byrja með.

Mynd sem gekk á samfélagsmiðlum af fjölskyldunni í skóginum í Frakklandi.„Í október skrifar Toshiki Toma (prestur innflytjenda á Íslandi og ljóðskáld) á Facebook að fjölskyldan hefði fengið skjól hjá manni,“ segir Áslaug þar sem við súpum á tei og brosum að fjörinu í Milad litla. „Sá var blörraður á mynd,“ heldur hún áfram en minnir að skjólshúsið hafi verið nálægt Nice. Sobo hafi eignast stúlku í mars, en meðgangan hafi verið hálfnuð þegar íslensk yfirvöld ráku hana héðan.

Áður en allt þetta gerðist var Nasr að kenna bardagaíþróttir í Kópavogi. Hann var þakklátur Sigursteini fyrir að hafa gert sér kleift að stunda þessa vinnu í nokkra mánuði og vildi þakka honum fyrir.

Eitt kvöldið, í nóvember í fyrra, kom því hópurinn heim til Sigursteins að snæða súpu og Ali Akhbar hafði komið með konu sína, Zöhru, og litla drenginn. Áslaug hafði búið súpuna til en svo þegar þau eru að fara er bankað upp á í íbúð Áslaugar og þau segja að unga konan, Zahra, vilji þakka fyrir súpuna. Áslaug brosir við minninguna þegar hún segir: „Enginn hefur áður nálgast mig, sagt hæ og takk fyrir súpuna, hún var svo góð. Og síðan faðmað mig! Síðan sneri Zahra sér við, hún var gengin nokkur skref frá mér þegar hún staðnæmdist, sneri við og steig í fangið á mér. Hún kúrði þar. Síðan spyr hún: See you?

Já, sagði ég.

Síðan höfum við verið saman. Það var bara tilviljun að þessi unga stúlka kom í fangið á mér. Af því að maðurinn hennar hafði verið að slást við son minn í Kung Fu! En ég hafði tekið eftir því uppi hjá syni mínum, þegar ég kom með pottinn, hvað henni leið illa. Ég var bara að kasta kveðju á hópinn.“

Spurningin vaknar hvort hún hafi starfað sem sjálfboðaliði fyrir Rauða krossinn.

„Nei,“ segir hún og hlær. „Ég er bara tónlistarkennari, kerling í Kópavogi. Ég hafði ekki kynnst öðrum í þessari stöðu – en hef kynnst nokkrum í gegnum þau. Við erum með bankarán hvílandi á húsinu og þurftum því að leigja út Airbnb. En ákváðum að taka íbúðina úr leigu, svo viku eftir jáið gátu þau Ali, Zahra og Milad flutt inn.“

Það var bara tilviljun að þessi unga stúlka kom í fangið á mér. Af því að maðurinn hennar hafði verið að slást við son minn í Kung Fu!
Áslaug og Zahra í góðu tómi.
Bára Huld Beck

Þau grétu öll þrjú

Áður en það gerðist reyndi þó enn frekar á fjölskylduna. Þann 26. febrúar síðastliðinn fengu þau endanlega höfnun hjá Útlendingastofnun. Það var áfall. Sigursteinn fylgdi þeim í Rauða krossinn og var það sérkennileg stund; enginn leið að vita hvort Zahra myndi lifa það af að vera send til baka.

„Kvöldið sem þau fengu endanlega höfnun dofnaði Zahra öll upp,“ segir Áslaug. „Hún missti máttinn í höndunum; hún átti enga orku aflögu, var vansvefta og alveg búin á því. Hún sá fyrir sér að deyja, sagði eina ráðið að gera það núna því þá ættu feðgarnir von. Hún væri vandamálið, þeir betur komnir án sín. Viku síðar fékk hún rosalegan krampa. Hún var að deyja.“

Hjá Rauða krossinum fékk Sigursteinn greinargerð frá Noregi. Í ljós kom að aldrei hafði verið talað við þau á Íslandi, þau höfðu ekki fengið viðtal, enginn hafði spurt: Af hverju eruð þið hér?

Rauði krossinn sendi kæru og farið var fram á að málið fengi efnislega meðferð. Málið fór til kærunefndar útlendingamála. Áslaug rifjar þetta upp: „Í kringum þetta ríkti mikill taugatitringur. En 26. mars fengu þau að vita að málið fengi efnislega skoðun. Þau komu öll grátandi út frá kærunefnd útlendingamála. Milad grét því foreldrarnir grétu. Þau voru svo glöð að fá tækifæri. Vissu ekki hvernig þetta myndu enda en vissu að þau myndu fá eitt samtal. Tækifæri.“

En síðan hófst biðin. Hvenær yrði talað við þau? Þau fengu að vita að það yrði eftir einhverja mánuði. Í lok september voru þau svo boðuð á fund og áttu að fá svar innan tveggja vikna, í mesta lagi þrjár. Þann 8. október barst loks já. Og fjölskyldan fékk að vita að þau gætu sótt um ríkisborgararétt eftir fimm ár.

„Það vill svo skemmtilega til að það er sérstakur réttindadagur barna hjá Sameinuðu þjóðunum,“ segir Áslaug og horfir með væntumþykju á Milad litla. „Þeir kunnu að velja daginn!“

Þau voru svo glöð að fá tækifæri. Vissu ekki hvernig þetta myndu enda en vissu að þau myndu fá eitt samtal. Tækifæri.
Milad litli.
Bára Huld Beck

Geta nú hugsað um framtíðina

En nú líður fjölskyldunni vel, segja þau, sammála um að margar tilfinningar takist á í sér. Það er allt öðruvísi að hitta þau í dag en fyrir ári þegar kvíðablandin óvissa markaði þau öll. Nú geta þau loksins gert plön fyrir framtíðina og upplifa mikinn létti.

„Nú getum við hugsað um framtíðina og nú ætlum við að læra íslensku. Áður var það öðruvísi en það var svo erfitt að sjá fyrir sér hvað myndi gerast,“ segir Zahra. Mest hlakka þau til að fara í nám og læra það sem þau hafa áhuga á.

Þau ætla bæði í íslenskunám en Zahra stefnir á að læra lyfjatækni og hún mun byrja í námi á næsta ári. Ali hyggur á iðnnám í Tækniskólanum.

„Hann er svo handlaginn, getur allt með höndunum,“ segir Áslaug og bætir því við að hann eigi framtíðina fyrir sér í því. Hún klykkir síðan út með að Ali sé líka mjög góður í fótbolta.

Ali brosir við þessi orð og kveðst langa að æfa fótbolta. „Við förum nokkrir, um tólf talsins, frá Afganistan og spilum saman. Ég að leita að liði til að spila með. Zahra fer ekki á leiki, fílar ekki fótbolta. En Milad dýrkar fótbolta!“

Nú leitar Ali sér að vinnu en hann gæti vel hugsað sér að vinna á leikskóla. Það myndi henta honum að vinna í leikskóla hálfan daginn; skólinn er til tólf svo hann gæti þá unnið frá eitt til fimm.

„Ég hef heyrt að það sé gott að læra málið við vinnu á leikskóla,“ segir hann og það er drengilega bjart yfir honum þegar hann brosir. „Þar er gott að spjalla við börnin og fólkið. Mér finnst skemmtilegt andrúmsloftið í leikskólunum.“ Milad elskar leikskólann sinn – sem er rétt hjá – segja þau. Hann lærir fljótt og er farinn að læra íslensku, auk þess sem hann talar persnesku og skilur smá ensku. Fullorðna fólkið sér mikinn mun á honum eftir að þau fluttu í nýja húsið. Hann hætti að vakna grátandi á nóttunni og nú veit hann fátt skemmtilegra að vera í fótbolta úti í garði.

Milad skemmtir sér endrum og sinnum við píanó-spil hjá Áslaugu. „Hann spilar … “ segir hún og þagnar stundarkorn. „Hann var eins og hálfs árs þegar við kynnumst og þið vitið hvernig börn eru nálægt píanói, þau hamra á lyklaborðið. En ekki þessi! Hann rennir flötum fingrum eftir nótnaborðið. Og spilar bara lítið og ljúft. Eins og lágstemmd dinnermúsík.“ 

Þeim þykir öllum gott að búa í Kópavogi, þar hafa þau eignast góða vini, segja hjónin. Og þau eiga mæðginin að. „Við verðum alltaf vinir,“ segir Áslaug.

Vilt þú vera með?

Frjálsir, hugrakkir fjölmiðlar eru ómetanlegir en ekki ókeypis. Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda og með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og við ætlum að standa vaktina áfram og bjóða almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Fyrir þá lesendur sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFólk