Bára Huld Beck Zahra, Ali Rasouli og Milad
Bára Huld Beck

Móðir, faðir og barn komin í skjól

Auður Jónsdóttir og Bára Huld Beck hittu á ný viðmælendurna, Zöhru Rasouli, Ali og Milad, sem þær töluðu við um síðustu jól en nú horfir heldur betur til betri vegar.

Við heim­sóttum fjöl­skyld­una Zöhru Rasouli, Ali og Milad litla rétt fyrir jólin í fyrra. Þá bjuggu þau í lít­illi íbúð við hraun­flæmið í Hafn­ar­firði. Aðkoman minnti okkur á upp­lýstan hell­is­skúta, við keyrðum þangað í svarta myrkri og snjó og villt­umst í hverfi fullu af atvinnu­hús­næði. Loks sáum við blokk og á neðstu hæð mátti sjá inn í ljósið í litlu íbúð­inni. Við gengum beint inn í þrönga stofu þar sem þau höfðu, rétt eins og nú, borið hnetur og te á borð fyrir gesti sína. Þau voru hrædd, óviss um fram­tíð sína og umfram allt fram­tíð sonar síns, Milad.

Zöhru fannst hún bera ábyrgð á stöðu feðganna þar sem hún þurfti að flýja undan þving­uðu hjóna­bandi, því að þurfa að gift­ast eldri manni upp í skuld for­eldra sinna. Þá höfðu þau verið á flótta í nokkur ár síðan Ali var sautján ára og Zahra nítján; ýmist í rútu, bíl eða lest í gegnum Íran, Tyrk­land, Grikk­land, Makedón­íu, Serbíu, Ung­verja­land, Aust­ur­ríki, Þýska­land, Dan­mörku og Sví­þjóð.

Loks komust þau til Nor­egs þar sem mál þeirra var tekið til efn­is­með­ferð­ar. Þau fengu synjun en það er algengt í Nor­egi að Afgönum sé synjað um hæli. Raunar er synj­un­ar­hlut­fall Afgana svo hátt þar að í skýrslu Amnesty International hefur það verið harð­lega gagn­rýnt.

Fjöl­skyldan fór þá frá Nor­egi til Dan­merkur með báti og þaðan til Þýska­lands en flaug síðan til Íslands frá Ham­borg. Þegar við hittum hjónin í fyrra voru þau búin að dvelja í sex mán­uði á Íslandi og von­uð­ust til þess að fá að búa hér áfram, örvænt­ing­ar­full í leit sinni að sama­stað fyrir fjöl­skyld­una.

Atburða­rásin hófst með sím­hring­ingu

Nú er ólíkt létt­ara yfir þeim, aug­sýni­lega fargi af þeim létt. Þau hlutu alþjóð­lega vernd þann 8. októ­ber síð­ast­lið­inn. Viku síðar fengu þau nýja íbúð í hlý­legu bak­húsi í Kópa­vogi í gegnum mæðginin Áslaugu Berg­steins­dóttur tón­list­ar­kenn­ara og son henn­ar, Sig­ur­stein Más­son, heim­ild­ar­gerð­ar­mann og fyrrum frétta­mann. Mæðginin búa í meg­in­hús­inu, Sig­ur­steinn á efri hæð­inni og Áslaug á þeirri neðri. Áslaug er hjá þeim þegar okkur ber að garði og aug­sýni­lega hefur mynd­ast djúpur vin­skapur á milli hennar og þeirra. Hún rifjar upp atburði árs­ins, síðan við hittum þau síð­ast, og segir okkur sög­una af því hvernig leiðir þeirra lágu sam­an.

Þau hitt­ust fyrir til­viljun í nóv­em­ber 2017 en atburða­rásin hófst með sím­hring­ingu til Sig­ur­steins þar sem leitað var eftir sal fyrir bar­daga­í­þróttir sem Nasr Mohammed Rahim ætl­aði að kenna hópi manna, þrjá­tíu eða fjöru­tíu tals­ins; margir Kúrdar og ein­hverjir frá Afganist­an.

Feðgarnir Ali og Milad.
Bára Huld Beck

„Fal­legt sam­fé­lag,“ segir Áslaug, ögn meyr þegar hún rifjar upp að sumir hafi komið með veit­ingar en þarna hafi verið æfingar öll þriðju­dags­kvöld – hjá bar­daga­fé­lagi Sig­ur­steins, eins og hún kallar það.

Eitt kvöld í nóv­em­ber

Nasr, eig­in­kona hans, Sobo Answ­ar Has­an, og börn þeirra, Leo og Leona, eru þekkt fjöl­skylda á Íslandi. Tölu­vert var fjallað um þegar þau voru flutt með flugi til Frank­furt snemma þann 30 nóv­em­ber árið 2017; Sobo þá ófrísk að dótt­ur­inni og Leo aðeins tveggja ára. Í flug­inu voru þau aðskil­in, móð­irin fékk ekki að sitja nálægt feðg­unum og hún grét þangað til far­þeg­arnir álykt­uðu að hún hefði verið sprautuð nið­ur. Um tíma dvöldu þau í Þýska­landi og lýstu aðstæð­unum eins og flótta­manna­búð­um, múruð inni af stein­vegg. Síðar fengu þau íbúð en voru end­an­lega rekin frá Þýska­landi í sept­em­ber síð­ast­liðn­um. Þá flúði fjöl­skyldan til Frakk­lands og var í felum í skógi þar í landi til að byrja með.

Mynd sem gekk á samfélagsmiðlum af fjölskyldunni í skóginum í Frakklandi.„Í októ­ber skrifar Tos­hiki Toma (prestur inn­flytj­enda á Íslandi og ljóð­skáld) á Face­book að fjöl­skyldan hefði fengið skjól hjá mann­i,“ segir Áslaug þar sem við súpum á tei og brosum að fjör­inu í Milad litla. „Sá var blörr­aður á mynd,“ heldur hún áfram en minnir að skjóls­húsið hafi verið nálægt Nice. Sobo hafi eign­ast stúlku í mars, en með­gangan hafi verið hálfnuð þegar íslensk yfir­völd ráku hana héð­an.

Áður en allt þetta gerð­ist var Nasr að kenna bar­daga­í­þróttir í Kópa­vogi. Hann var þakk­látur Sig­ur­steini fyrir að hafa gert sér kleift að stunda þessa vinnu í nokkra mán­uði og vildi þakka honum fyr­ir.

Eitt kvöld­ið, í nóv­em­ber í fyrra, kom því hóp­ur­inn heim til Sig­ur­steins að snæða súpu og Ali Akhbar hafði komið með konu sína, Zöhru, og litla dreng­inn. Áslaug hafði búið súp­una til en svo þegar þau eru að fara er bankað upp á í íbúð Áslaugar og þau segja að unga kon­an, Zahra, vilji þakka fyrir súp­una. Ás­laug brosir við minn­ing­una þegar hún seg­ir: „Eng­inn hefur áður nálg­ast mig, sagt hæ og takk fyrir súp­una, hún var svo góð. Og síðan faðmað mig! Síðan sneri Zahra sér við, hún var gengin nokkur skref frá mér þegar hún stað­næmd­ist, sneri við og steig í fangið á mér. Hún kúrði þar. Síðan spyr hún: See you?

Já, sagði ég.

Síðan höfum við verið sam­an. Það var bara til­viljun að þessi unga stúlka kom í fangið á mér. Af því að mað­ur­inn hennar hafði verið að slást við son minn í Kung Fu! En ég hafði tekið eftir því uppi hjá syni mín­um, þegar ég kom með pott­inn, hvað henni leið illa. Ég var bara að kasta kveðju á hóp­inn.“

Spurn­ingin vaknar hvort hún hafi starfað sem sjálf­boða­liði fyrir Rauða kross­inn.

„Nei,“ segir hún og hlær. „Ég er bara tón­list­ar­kenn­ari, kerl­ing í Kópa­vogi. Ég hafði ekki kynnst öðrum í þess­ari stöðu – en hef kynnst nokkrum í gegnum þau. Við erum með banka­rán hvílandi á hús­inu og þurftum því að leigja út Air­bnb. En ákváðum að taka íbúð­ina úr leigu, svo viku eftir jáið gátu þau Ali, Zahra og Milad flutt inn.“

Það var bara tilviljun að þessi unga stúlka kom í fangið á mér. Af því að maðurinn hennar hafði verið að slást við son minn í Kung Fu!
Áslaug og Zahra í góðu tómi.
Bára Huld Beck

Þau grétu öll þrjú

Áður en það gerð­ist reyndi þó enn frekar á fjöl­skyld­una. Þann 26. febr­úar síð­ast­lið­inn fengu þau end­an­lega höfnun hjá Útlend­inga­stofn­un. Það var áfall. Sig­ur­steinn fylgdi þeim í Rauða kross­inn og var það sér­kenni­leg stund; eng­inn leið að vita hvort Zahra myndi lifa það af að vera send til baka.

„Kvöldið sem þau fengu end­an­lega höfnun dofn­aði Zahra öll upp,“ segir Áslaug. „Hún missti mátt­inn í hönd­un­um; hún átti enga orku aflögu, var vansvefta og alveg búin á því. Hún sá fyrir sér að deyja, sagði eina ráðið að gera það núna því þá ættu feðgarnir von. Hún væri vanda­mál­ið, þeir betur komnir án sín. Viku síðar fékk hún rosa­legan krampa. Hún var að deyja.“

Hjá Rauða kross­inum fékk Sig­ur­steinn grein­ar­gerð frá Nor­egi. Í ljós kom að aldrei hafði verið talað við þau á Íslandi, þau höfðu ekki fengið við­tal, eng­inn hafði spurt: Af hverju eruð þið hér?

Rauði kross­inn sendi kæru og farið var fram á að málið fengi efn­is­lega með­ferð. Málið fór til kæru­nefndar útlend­inga­mála. Áslaug rifjar þetta upp: „Í kringum þetta ríkti mik­ill taugatitr­ing­ur. En 26. mars fengu þau að vita að málið fengi efn­is­lega skoð­un. Þau komu öll grát­andi út frá kæru­nefnd útlend­inga­mála. Milad grét því for­eldr­arnir grétu. Þau voru svo glöð að fá tæki­færi. Vissu ekki hvernig þetta myndu enda en vissu að þau myndu fá eitt sam­tal. Tæki­færi.“

En síðan hófst bið­in. Hvenær yrði talað við þau? Þau fengu að vita að það yrði eftir ein­hverja mán­uði. Í lok sept­em­ber voru þau svo boðuð á fund og áttu að fá svar innan tveggja vikna, í mesta lagi þrjár. Þann 8. októ­ber barst loks já. Og fjöl­skyldan fékk að vita að þau gætu sótt um rík­is­borg­ara­rétt eftir fimm ár.

„Það vill svo skemmti­lega til að það er sér­stakur rétt­inda­dagur barna hjá Sam­ein­uðu þjóð­un­um,“ seg­ir Ás­laug og horfir með vænt­um­þykju á Milad litla. „Þeir kunnu að velja dag­inn!“

Þau voru svo glöð að fá tækifæri. Vissu ekki hvernig þetta myndu enda en vissu að þau myndu fá eitt samtal. Tækifæri.
Milad litli.
Bára Huld Beck

Geta nú hugsað um fram­tíð­ina

En nú líður fjöl­skyld­unni vel, segja þau, sam­mála um að margar til­finn­ingar tak­ist á í sér. Það er allt öðru­vísi að hitta þau í dag en fyrir ári þegar kvíða­blandin óvissa mark­aði þau öll. Nú geta þau loks­ins gert plön fyrir fram­tíð­ina og upp­lifa mik­inn létti.

„Nú getum við hugsað um fram­tíð­ina og nú ætlum við að læra íslensku. Áður var það öðru­vísi en það var svo erfitt að sjá fyrir sér hvað myndi ger­ast,“ segir Zahra. Mest hlakka þau til að fara í nám og læra það sem þau hafa áhuga á.

Þau ætla bæði í íslensku­nám en Zahra stefnir á að læra lyfja­tækni og hún mun byrja í námi á næsta ári. Ali hyggur á iðn­nám í Tækni­skól­an­um.

„Hann er svo hand­lag­inn, getur allt með hönd­un­um,“ segir Áslaug og bætir því við að hann eigi fram­tíð­ina fyrir sér í því. Hún klykkir síðan út með að Ali sé líka mjög góður í fót­bolta.

Ali brosir við þessi orð og kveðst langa að æfa fót­bolta. „Við förum nokkrir, um tólf tals­ins, frá Afganistan og spilum sam­an. Ég að leita að liði til að spila með. Zahra fer ekki á leiki, fílar ekki fót­bolta. En Milad dýrkar fót­bolta!“

Nú leitar Ali sér að vinnu en hann gæti vel hugsað sér að vinna á leik­skóla. Það myndi henta honum að vinna í leik­skóla hálfan dag­inn; skól­inn er til tólf svo hann gæti þá unnið frá eitt til fimm.

„Ég hef heyrt að það sé gott að læra málið við vinnu á leik­skóla,“ segir hann og það er drengi­lega bjart yfir honum þegar hann bros­ir. „Þar er gott að spjalla við börnin og fólk­ið. Mér finnst skemmti­legt and­rúms­loftið í leik­skól­un­um.“ Milad elskar leik­skól­ann sinn – sem er rétt hjá – segja þau. Hann lærir fljótt og er far­inn að læra íslensku, auk þess sem hann talar pers­nesku og skilur smá ensku. Full­orðna fólkið sér mik­inn mun á honum eftir að þau fluttu í nýja hús­ið. Hann hætti að vakna grát­andi á nótt­unni og nú veit hann fátt skemmti­legra að vera í fót­bolta úti í garði.

Milad skemmtir sér endrum og sinnum við píanó­-­spil hjá Áslaugu. „Hann spilar … “ segir hún og þagnar stund­ar­korn. „Hann var eins og hálfs árs þegar við kynn­umst og þið vitið hvernig börn eru nálægt píanói, þau hamra á lykla­borð­ið. En ekki þessi! Hann rennir flötum fingrum eftir nótna­borð­ið. Og spilar bara lítið og ljúft. Eins og lág­stemmd dinn­ermús­ík­.“ 

Þeim þykir öllum gott að búa í Kópa­vogi, þar hafa þau eign­ast góða vini, segja hjón­in. Og þau eiga mæðginin að. „Við verðum alltaf vin­ir,“ segir Áslaug.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFólk