Skúli Mogensen, stofnandi og forstjóri WOW air, leitaðist eftir því síðustu helgi að ríkissjóður veitti flugfélaginu ríkisábyrgð fyrir láni til þess að tryggja rekstur félagsins til skemmri tíma. Beiðni Skúla var beint að fjármála- og efnahagsráðuneytinu en samkvæmt heimildum Viðskiptamoggans mun ráðuneytið ekki hafa orðið við að þeirri beiðni.
Lánveitandi WOW air setti ríkisábyrgð sem skilyrði
WOW air hefur undanfarið átt í miklum lausafjárerfiðleikum. Fyrirtækið hefur ekki greitt mótframlag í lífeyris- og séreignarsparnað í þrjá mánuði. Auk þess skuldar flugfélagið Isavia ógreidd lendingargjöld yfir margra mánaða skeið. Isavia neitar þó að tjá sig um málefni einstakra viðskiptavina og því er ekki vitað hve há skuldin. Þá herma heimildir Markaðarins að WOW air hafi undanfarið þurft að hafa ávallt eina flugvél úr flota félagsins tiltæka á Keflavíkurflugvelli vegna skilmála Isaiva. Þá geti Isavia kyrrsett vélina ef flugfélagið lendir í greiðsluerfiðleikum.
Samkvæmt heimildum Viðskiptamoggans hefur lánveitandi WOW air sett ríkisábyrgð sem skilyrði fyrir lánafyrirgreiðslu þar sem ekki er talið að nægjanleg veð sé að hafa í rekstrarfjármunum félagsins sjálf. Fjármála- og efnahagsráðuneytið varð ekki við beiðni flugfélagsins um ríkisábyrgð en í ljósi þess að staða WOW air er metin fallvölt þá fylgjast stjórnvöld náið með stöðunni.
Líkt og greint hefur verið frá leitaði Skúli Mogensen til forsvarsmanna Icelandair Group í lok síðasta mánaðar en stjórn Icelandair Group ákvað þá að ganga ekki til viðræðna við lággjaldaflugfélagið að sinni. Í umfjöllun Markaðarins í dag kemur aftur á móti fram að óformlegar þreifingar hafi verið á milli fulltrúa WOW air og Icelandair Group undanfarna daga um aðkomu síðarnefnda félagsins að því fyrrnefnda.
Ef skuldabréfaeigendurnir samþykkja skilmálana þá fær Skúli frest til aprílloka
Óvissa ríkir um framgang viðræðna WOW air og Indigo Partners en í lok febrúar gáfu félögin tvö sér mánaðarfrest til viðbótar til að klára viðræðurnar. Þann 9. mars sendi WOW air síðan frá sér tilkynningu til skuldabréfaeigenda sinna um nýja skilmála sem Indigo Partners hefur farið fram á að þeir samþykki til að aðkoma þeirra að WOW air geti gengið eftir. Í tilkynningunni kom fram að Indigo hefur hug á að fjárfesta allt að 90 milljónir dala, um ellefu milljarða króna, í WOW air. Jafnframt vilja forsvarsmenn Indigo að eigendur skuldabréfaflokks, sem var gefinn út í september í fyrra, samþykki margþættar breytingar á skilmálum hans sem feli í sér að endurheimtur þeirra verða bundnar rekstrarframmistöðu fyrirtækisins á næstu árum. Þannig geti endurheimtur þeirra orðið 50 til 100 prósent af upphaflegu virði bréfanna. Indigo krafðist jafnframt fleiri breytinga á skilmálum.
Samkvæmt hinum nýju skilmálum gæti hlutur Skúla Mogensen, stofnanda og eina eiganda WOW air, orðið á bilinu 0 til 100 prósent allt eftir því hvernig félaginu reiðir af á komandi árum. Fjárfesting Indigo mun fela í sér, að hann eignist hlutabréf í félaginu en veiti því einnig lán með breytirétti sem síðari geti orðið stofn að hlutafé í félaginu.
Ef skuldabréfaeigendurnir samþykkja breytingarnar hefur WOW air frest til 29. apríl til þess að ná samkomulagi við Indigo Partners.