Indigo Partners hefur slitið viðræðum sínum við WOW air. Þetta kemur fram í tilkynningu sem flugfélagið birti á fjárfestasíðu sinni í kvöld.
Þar kemur einnig fram að viðræður séu hafnar milli WOW air og Icelandair Group og að stefnt sé að því að þeim viðræðum ljúki fyrir næstkomandi mánudag, 25. mars.
Lestu meira
Ríkisstjórn Íslands sendi frá sér tilkynningu vegna málsins í kvöld. Þar sagði: „Stjórnvöld hafa síðasta árið fylgst með erfiðleikum í alþjóðlegum flugrekstri og samkeppnisstöðu íslenskra flugfélaga í því ljósi. Eigendur WOW air hafa um nokkurra mánaða skeið leitað leiða til að tryggja rekstur félagsins og hafa átt viðræður við fjárfesta, flugrekendur og aðra haghafa. Hingað til hafa þær viðræður ekki skilað þeim árangri sem eigandi félagsins stefndi að. Ríkisstjórnin mun áfram fylgjast grannt með framvindunni og bindur vonir við að viðræður félaganna muni skila farsælli niðurstöðu.“
Fréttablaðið greindi frá því í gær að WOW air hefði óskað eftir ríkisábyrgð á lánafyrirgreiðslu frá Arion banka til að tryggja reksturinn til skemmri tíma. Rætt hafi verið óformlega um hugmyndir flugfélagsins en afar ósennilegt er talið að stjórnvöld muni ljá máls á þeim, að því er fram kom í frétt Fréttablaðsins.
Þetta er ekki í fyrsta sinn frá því að rússíbanareið WOW air hófst fyrir alvöru síðsumars í fyrra að félagið fer í samningsviðræður við Icelandair. Fyrstu helgina í nóvember var vandi WOW air orðinn þannig að ekki var við unað. Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW air, leitaði þá til Icelandair og bað þá um að kaupa WOW air. Kaupsamningur, með fjölmörgum fyrirvörum, var undirritaður 5. nóvember. Uppgefið kaupverð, sem átti að greiða með hlutum í Icelandair, var um tveir milljarðar króna miðað gengi Icelandair þegar tilkynnt var um kaupin. Það gat þó lækkað ef áreiðanleikakönnun sýndi aðra stöðu en gengið var út frá, sem varð niðurstaðan.
29. nóvember 2018 var birt tilkynning um að Icelandair væri hætt við kaupin. Greiningar og áreiðanleikakannanir sem Icelandair hafði látið framkvæma vegna fyrirhugaðra kaupa á WOW air höfðu einfaldlega leitt í ljós að viðskiptin stóðust ekki þær forsendur sem gerðar voru við undirritun kaupsamningsins.
Helstu forsendur kaupsamnings Icelandair WOW air voru þær að samkomulag myndi nást við leigusala WOW air, að staðfesting myndi fást á því að forgangsréttur flugmanna myndi ekki eiga við um flugmenn WOW air og að samkomulag myndi nást við skuldabréfaeigendur WOW air. Ekkert af þessu var leitt til lykta áður en að ákveðið var að hætta við kaupin. Þá var sérstakur fyrirvari um niðurstöðu áreiðanleikakönnunar, sem Deloitte og Logs framkvæmdu. Það grunnmat liggur fyrir en er trúnaðarmál en í kynningunni segir að „fyrstu niðurstöður gáfu til kynna meiri fjárþörf en gert var ráð fyrir auk annarra atriða.“
Sama dag og Icelandair hætti við kaupin þá var tilkynnt um að bandaríska félagið Indigo Partners hefði náð samkomulagi um fjárfestingu í WOW air. Þær viðræður hafa staðið yfir síðan með ýmsum sveiflum, en er nú formlega lokið.