Kristrún Tinna Gunnarsdóttir hagfræðingur hefur verið ráðin forstöðumaður á skrifstofu bankastjóra í Íslandsbanka. Í tilkynningu frá bankanum segir að hún muni sinna verkefnum tengdum innleiðingu á stefnu Íslandsbanka sem unnin hefur verið að af starfsmönnum og ytri ráðgjöfum undanfarna mánuði.
Kristrún sat í starfshópnum sem vann að Hvítbókinni um framtíðarsýn fjármálakerfið
Kristrún Tinna hefur á undanförnum árum starfað hjá alþjóðaráðgjafafyrirtækinu Oliver Wyman sem yfirverkefnastjóri og áður sem sérfræðingur í fyrirtækjaráðgjöf hjá Beringer Finance í Stokkhólmi. Auk þess sat hún í starfshóp fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem vann Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið.
Í viðtali við sjónvarpsþáttinn 21 í janúar síðastliðnum ræddi Kristrún Tinna ýmsa anga Hvítbókarinnar og þar á meðal þær kannanir sem starfshópurinn lét gera um viðhorf almennings til fjármálakerfisins. Í niðurstöðum rannsóknarinnar kom fram að þau þrjú orð sem flestum Íslendingum dettur í hug til að lýsa bankakerfinu á Íslandi eru háir vextir/dýrt/okur, glæpastarfsemi/spilling og græðgi. Hún sagði í viðtalinu að það hafi komið sér á óvart hversu sterk neikvæð orð Íslendingar notuðu til að lýsa skoðun sinni á bankakerfinu. „Það er mjög erfitt að reka banka þar sem það er svona ofboðslega mikið vantraust þannig að ég held að það undirstriki hvað það er mikilvægt að eiga samtal um þetta.“
Hún sagði það jafnframt vera bæði vera höndum ríkisins og bankanna sjálfra að gera breytingar sem stuðli að breytingum sem bæti kjör og lækki vexti. „Bankarnir hafa verið í miklum hagræðingaraðgerðum og það er klárlega svigrúm að mínu mati til þess að gera enn betur. En við erum ekki að tala um eitthvað einskiptisverkefni sem byrjar og endar og er svo lokið og við erum bara komin með skilvirkt kerfi. Þetta er þróun sem er að eiga sér stað alls staðar í heiminum og flestir stærstu bankar Evrópu hafa það efst á forgangslista sínum að draga úr kostnaði. Ég held að við þurfum klárlega að vinna að því hér á Íslandi líka,“ sagði Kristrún Tinna.
Bankaumhverfið að breytast mikið
Í tilkynningu frá Íslandsbanka segist Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, fagna því að fá Kristrúnu til liðs við bankann til að halda áfram með stefnumótun bankans. „Ljóst er að bankaumhverfið eins og við þekkjum það í dag er að breytast mikið og við ætlum svo sannarlega að taka þátt í þeim breytingum. Samkeppnin er sífellt að aukast með tilkomu fjölmargra innlendra og erlenda fjártæknifyrirtækja og við erum vel í stakk búin fyrir spennandi tíma. Reynsla Kristrúnar í stefnumótun og þekking frá vinnu í Hvítbók á eftir að nýtast okkur vel í áframhaldandi vinnu.“