Útgáfufélag Stundarinnar og fjölmiðlafyrirtækið Reykjavík Media unnu fullnaðarsigur í hinu svokallaða lögbannsmáli Glitnis HoldCo, félags utan um eftirstandandi eignir hins fallna banka Glitnis, í Hæstarétti í dag. Í yfirlýsingu um dóm Hæstaréttar segjast aðstandendur Stundarinnar og Reykjavík Media vonast til þess að þessi dómur, og þeir sem hann staðfestir, standi sem sem bautasteinn til framtíðar með varðstöðu um upplýsingarétt almennings og frelsi fjölmiðla.
Haft fælingaráhrif á fólk sem hefur undir höndum upplýsingar eða gögn
Í yfirlýsingunni segir að 522 dögum eftir að lögbann var sett á umfjöllun Stundarinnar og Reykjavik Media um viðskipti Glitnis og þáverandi forsætisráðherra hafi nú fallið endanlegur dómur Hæstaréttar tjáningarfrelsinu og upplýsingarétti almennings í vil. Þá segir í yfirlýsingunni að lögbannsmálið í heild sinni hafi án efa haft fælingaráhrif á fólk í samfélaginu sem hefur undir höndunum upplýsingar eða gögn sem eigi mikið erindi til almennings sem það vilji koma til fjölmiðla í krafti réttlætiskenndar.
Vitnað er í dóm Hæstaréttar í yfirlýsingunni en þar segir að „Við mat á því hvort ganga skuli framar í tjáningarfrelsi stefndu eða friðhelgi þeirra aðila sem nefnd gögn lúta að verður að hafa í huga að þegar lögbannið var lagt á 16. október 2017 voru einungis 12 dagar í að kosið yrði til Alþingis og því sýnu brýnna en ella að upplýst fréttaumfjöllun yrði ekki skert meira en nauðsyn bar til, sbr. til hliðsjónar dóm Mannréttindadómstóls Evrópu 19. febrúar 1998 í máli Bowman gegn Bretlandi. Verður jafnframt að líta til þess að meginþungi fréttaumfjöllunar stefndu laut að viðskiptum þáverandi forsætisráðherra og aðila honum tengdum við Glitni banka hf. í aðdraganda falls íslensku viðskiptabankanna þriggja í október 2008. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að fréttaumfjöllun stefndu hafi breyst að þessu leyti eftir að lögbannið féll niður. Hefur hún eftir sem áður einkum beinst að viðskiptaumsvifum þáverandi forsætisráðherra og aðilum tengdum honum í aðdraganda og kjölfar falls bankanna haustið 2008 með sömu áherslum og verið hafa frá upphafi umfjöllunar stefndu.“
Jafnframt segir í dómnum að líta verði svo á að umfjöllun stefndu um viðskipti þáverandi forsætisráðherra sé liður í því uppgjöri og eigi sem slík erindi við almenning. Í yfirlýsingunni fjölmiðlanna tveggja segir að eftir sem stendur var brotið gegn upplýsingarétti almennings og þar með vegið að réttinum til frjálsra kosninga. „Aðstandendur Stundarinnar og Reykjavik Media vonast til þess að þessi dómur, og þeir sem hann staðfestir, standi sem bautasteinn til framtíðar með varðstöðu um upplýsingarétt almennings og frelsi fjölmiðla.“
Verulegur aðstöðumunur
Enn fremur segir í yfirlýsingunni að aðstöðumunurinn hafi verið verulegur en þrotabú Glitnis lagði mikil dómsmálsins gegn fjölmiðlunum tveimur. „Hann birtist í því að aðeins laun forstjóra Glitnis HoldCo ein og sér eru hærri en samanlögð velta Stundarinnar og Reykjavik Media, samkvæmt nýjustu aðgengilegu tölum. Ljóst er að stuðningur almennings skipti sköpum í málinu og málsvörninni. “
Þá segir að með lagatæknilegum flækjum hafi þrotabúinu tekist að tefja málið og reka það í gegnum öll dómstig á 522 dögum með tilheyrandi skaða fyrir blaðamennsku og rétt almennings til upplýsinga. En samkvæmt yfirlýsingunni nægir dæmdur málkostnaður ekki til þess að tryggja þá nauðsynlegu vörn sem þurfti til að forða ólögmætu lögbanni á sjálfsagða og mikilvæga samfélagsumræðu í þágu almannahagsmuna.
Jafnframt hafi þrotabú Glitnis reynt hvað eftir að annað að fá að taka skýrslu af blaðamönnum um heimildarmenn en á öllum dómstigum hafi því verið hafnað. Samkvæmt yfirlýsingunni er í dóm Hæstaréttar skýrt kveðið á um vernd heimildarmanna og það með mjög afgerandi hætti. Fjölmiðlarnir tveir hvetja því fólk sem hefur undir höndunum mikilvægar upplýsingar sem varði almenning að leita til þeirra.