Hugsanlegt brotthvarf WOW air af flugmarkaði myndu leiða til niðurskurðar 1.450 til 4.350 starfa í ferðaþjónustugeiranum, sem flest eru staðsett á Suðurnesjum. Sömuleiðis er spáð 0,9 til 2,7 prósenta samdrætti í landsframleiðslu, samhliða gengisveikingu og aukinni verðbólgu. Þetta kemur fram í skýrslu ráðgjafafyrirtækisins Reykjavík Economics, en Fréttablaðið greindi fyrst frá.
Samkvæmt Fréttablaðinu var skýrslan unnin að beiðni WOW air, en tilgangur hennar var að meta efnahagsleg áhrif félagsins á íslenskan þjóðarbúskap. Niðurstöður skýrslunnar voru þær að afleidd áhrif mögulegs brotthvarfs flugfélagsins yrðu töluverð í ferðaþjónustugeiranum vegna færri flugfarþega til Íslands.
Ráðgjafafyrirtækið bendir á að líklegt sé að farþegum sem koma hingað með tengiflugi milli Evrópu og Ameríku muni fækka verulega, en ekki er öruggt að önnur flugfélög myndu taka við Atlantshafsflugum WOW air. Samkvæmt skýrslunni kæmi þessi fækkun niður á innviðum Keflavíkurflugvallar og 20 milljarða króna fjárfestingaráformum ISAVIA.
Allt að 2,7 prósenta samdráttur
Enn fremur segir Reykjavík Economics að fækkun ferðamannanna myndi leiða til samdráttar í efnahagslífi landsins, en samkvæmt sviðsmynd fyrirtækisins myndu 10 til 30 prósent af núverandi vinnsluvirði ferðaþjónustunnar tapast. Þá væri áætlaður samdráttur í landsframleiðslu á bilinu 0,9 til 2,7 prósent.
Einnig er búist við minni gjaldeyristekjum, veikara gengi og hærri verðbólgu fari svo að flugfélagið leggi starfsemi sína niður. Þar nefnir skýrslan að gjaldeyristekjur erlendra ferðamanna sem flugu með WOW air í fyrra hafi numið 89 milljörðum króna og að skatttekjur þeirra hafa numið um 12 milljörðum króna. Allar líkur væru á gengisveikingu og aukinni verðbólgu í kjölfar hennar, en skýrslan nefnir þó að líklegt yrði að Seðlabankinn reyni að stemma stigu við gengisfallinu.
Suðurnesin verst úti
Samkvæmt skýrsluhöfundum myndi brottfall flugfélagsins einnig hafa töluverð áhrif á vinnumarkaðinn. Fyrirtækið gerir ráð fyrir að 5 til 15 prósent allra þeirra sem starfa innan einkennandi atvinnugreina ferðaþjónustunnar myndu missa vinnuna sína, en það jafngildir 1.450 til 4.350 manns. „Það er umtalsvert atvinnuleysi á íslenskan mælikvarða og líklega yrðu Suðurnesin einna helst fyrir barðinu á því,“ segir í skýrslunni.
Kjarninn hefur áður fjallað um erfiðleika WOW air, en flugfélagið stendur nú í samningaviðræðum við Icelandair eftir að þeim var slitið við fjárfestingafélagið Indigo Partners. Viðræðurnar fara fram í samráði við stjórnvöld, sem segist fylgjast grannt með framvindunni. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði að ekkert hafi verið rætt um fjárhagslega ríkisins í viðtali við mbl.is í gær.
Stefnt er að því að viðræðum milli WOW air og Icelandair ljúki fyrir næstkomandi mánudag, 25. Mars. Steinn Logi Björnsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Icelandair, sagðist í Morgunútvarpinu á Rás 2 í gær telja gjalddaga á 150 milljóna króna vaxtagreiðslu á láni WOW á mánudag vera ástæðuna fyrir þeim stutta tíma sem gefinn er í viðræðunum.