Mikil óvissa ríkir nú um framtíð flugfélagsins WOW air en Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW air, reynir til þrautar að bjarga flugfélaginu eftir að það slitnaði upp úr viðræðum við Icelandair Group í gær. Samkvæmt tilkynningu WOW air frá því í gær vinnur félagið nú að því að ná samkomulagi við meirihluta lánardrottna sinna um að skuldum félagsins verði að stórum hluta umbreytt í hlutafé og að sömu aðilar tryggi félaginu fjármagn til rekstrarins uns það nái „sjálfbærum rekstri til framtíðar“.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins vinnur Arctica Finance nú að því að safna 5 milljörðum króna í viðbótarfjárfestingu til bjarga flugfélaginu frá þroti en WOW air skuldar nú um 24 milljarða króna. Í Morgunblaðinu í dag er greint frá því að tap WOW air hafi numið 22 milljörðum króna í fyrra.
Víða fundað um WOW í gær
Á fimmtudaginn í síðustu viku var greint frá því að slitnað hefði upp úr viðræðum WOW air og bandaríska fjárfestingarsjóðsins Indigo Partners um aðkomu Indigo að félaginu. Í gær barst Kauphöllinni síðan tilkynning um að Icelandair Group hefði slitið viðræðum sínum við WOW air um kaup á flugfélaginu að hluta til eða í heild. Umræddar viðræður voru stuttar en þær hófust á föstudag eftir að upp úr flosnaði milli WOW og Indigo Partners.
Á sjöunda tímanum í gær barst síðan tilkynning frá WOW air þar sem fram kom að meirihluti skuldabréfaeigenda félagsins og aðrir kröfuhafar ættu í viðræðum um samkomulag um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækisins. Samkvæmt því yrði núverandi skuldum WOW air umbreytt í hlutafé og rekstur félagsins fjármagnaður þannig að það næði sjálfbærum rekstri til framtíðar. Í tilkynningunni kom fram að frekari upplýsingum yrðu veittar í dag.
Samkvæmt umfjöllun Morgunblaðsins í dag er nú ráðgert að umbreyta skuldum flugfélagins í hlutafé sem væru 49 prósent hlutafjár og bjóða 51 prósent í félaginu til kaups. Þá myndu nýir aðilar í eigendahópnum njóta forgangs, meðal annars varðandi sölu bréfa í endurskipulögðu félagi.
Isavia skuldum breytt í langtímakröfu
Fréttablaðið greindi frá því í dag að Arctica Finance vinnur nú að því að safna 42 milljónum dollara, andvirði rúmlega 5 milljarða króna, til að bjarga WOW air. Flugfélagið skuldar nú um 200 milljónir dollara eða um 24 milljarða íslenskra króna. Þar á meðal skuldar félagið Isavia tvo milljarða en heimildir Morgunblaðsins herma að Isavia hafi nú komið til móts við erfiða stöðu WOW air og breytt kröfum vegna lendingargjalda, sem komnar voru yfir gjalddaga, í lán til tveggja ára. Nemur upphæð lánsins um 1,8 milljörðum króna og ber það 6 prósent vexti en lendingargjöld sem komin eru fram yfir gjalddaga bera alla jafna dráttarvexti, eða 10,25 prósent.
Ásamt skuldinni við Isavia er Arion banki stór lánardrottinn félagsins en samkvæmt Morgunblaðinu stendur lánið í tæpum 1,6 milljörðum króna. Aðrir stórir lánveitendur WOW air eru flugvéla- og hreyflaleigufyrirtæki. Stærsta skuldin er við Avolon eða jafnvirði 1,9 milljarða króna. Þá er einnig 1,6 milljarða skuld við flugvélaleigufélagið ALC sem á flestar þeirra þota sem WOW air notast við enn í dag.
WOW tapaði 22 milljörðum í fyrra
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins tapaði WOW air 22 milljörðum í fyrra. Þar af var EBITDA félagsins, afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta, neikvæð sem nam 10 milljörðum króna. Þar hafi munað gríðarlega um tap vegna sölu fjögurra nýlegra Airbus-þota til Air Canada undir lok síðasta árs. Þá segir jafnframt að eigið fé félagsins sé um þessar mundir neikvætt sem jafngildir rúmum 13,3 milljörðum króna. Það þýðir að eiginfjárhlutfall félagsins er neikvætt um 83 prósent.