Alþingi hefur ekki auglýst á samfélagsmiðlum, eins og Facebook, Instagram, YouTube og Twitter og hefur ekki áform um að gera það. Auglýsingakostnaður Alþingis er fyrst fremst auglýsingar um laus störf á skrifstofu Alþingis og reglan hefur verið sú að birta þær auglýsingar í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu. Þetta kemur fram í svari Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis, við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni, þingmanni Pírata.
Engin áform um að auglýsa á samfélagsmiðlum
Björn Leví spurði, í fyrirspurn sinni, hvort Alþingi hafi haft einhver útgjöld af auglýsingum eða kostaðrar dreifingar á samfélagsmiðlum frá árinu 2015. Þingforseta svaraði að Alþingi auglýsti ekki á samfélagsmiðlum og hefur þingið því engan auglýsingakostnað sem tengist þeim miðlum. Hann sagði þó að á vef Alþingis og Twitter-síðu þess séu hins vegar reglulega tilkynningar um starfsemi Alþingis og viðburði á vegum þess. Svipað gildi um Hús Jóns Sigurðssonar í Kaupmannahöfn, en þar er efni miðlað á vef Jónshúss, Facebook, Instagram og Flickr.
Steingrímur sagði að auglýsingakostnaður Alþingis sé fyrst og fremst auglýsingar um laus störf á skrifstofu Alþingis og reglan verið sú að birta slíkar auglýsingar í þeim tveimur dagblöðum sem gefin eru út, Fréttablaðinu og Morgunblaðinu. Þá birtist einnig sömu auglýsingar á vefnum starfatorg.is, en þar er að finna upplýsingar um laus störf hjá ríkinu. Birting auglýsinga á starfatorgi er Alþingi að kostnaðarlausu.
Auk þess sé auglýst eftir umsóknum um dvöl í fræðimannsíbúðum í Jónshúsi og styrki til að rita meistaraprófsritgerð í dagblöðum og á vef Alþingis. Þá hafi einstaka sinnum verið birtar auglýsingar í Ríkisútvarpinu eins og í tengslum við opið hús á Alþingi 2018.
Björn Leví spurði þá einnig hvaða stefnu forseti Alþingis hefur hvað varðar auglýsingakaup á samfélagsmiðlum en samkvæmt Steingrími eru engin áform um að birta auglýsingar frá Alþingi á samfélagsmiðlum.
Tvö fjölmiðlafyrirtæki fá þriðjung af auglýsingafé ríkisins
Greint var frá því í Kjarnanum í nóvember í fyrra að ráðuneyti, ríkisstofnanir og fyrirtæki á vegum hins opinbera hefðu borgað tæpar 190 milljónir króna fyrir birtingu auglýsinga fyrstu tíu mánuði síðasta árs. Tvö fjölmiðlafyrirtæki, útgáfufélag Fréttablaðsins og Árvakur útgefandi Morgunblaðsins, fengu samtals tæplega þriðjung fjárins sem hið opinbera eyddi í auglýsingabirtingar.
Kostnaður hins opinbera vegna auglýsingabirtinga var 188 milljónir fyrstu tíu mánuði ársins 2018, þá var ekki talin með vinna við gerð og hönnun auglýsinga. Þar af fékk útgáfufélag Fréttablaðsins 37 milljónir króna greitt fyrir auglýsingabirtingar og Árvakur, útgefandi Morgunblaðsins og mbl.is, 21 milljón króna. Samanlagt var það rétt tæplega þriðjungur allra auglýsingakaupa ráðuneyta, ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja á tímabilinu.
Ríkisútvarpið fékk greiddar rúmar tólf milljónir og Sýn, sem á Stöð 2, ýmsar útvarpsstöðvar og vefinn Vísi, fékk fimm milljónir greiddar fyrir auglýsingabirtingar ríkisins.