Eigendur skuldabréfa WOW air hafa samþykkt að breyta skuldabréfum sínum í hlutafé og þá eru formlegar viðræður hafnar við fjárfesta um mögulega aðkomu að rekstri félagsins.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá WOW air sem send var fjölmiðlum í dag.
„Þetta er mikilvægt skref í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins og stöðugleika WOW Air til lengri tíma litið,“ segir í tilkynningunni.
Félagið þarf nauðsynlega á fjárfestingu að halda, sem allra fyrst, en rætt hefur verið um að félagið þurfi minnst um 40 milljónir Bandaríkjadala, eða um 5 milljarða króna, til að styrkja efnahag sinn, í það minnsta til skamms tíma.
Eins og komið hefur fram í fréttum síðastliðinna daga, þá reynir Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW air, nú allt til að bjarga félaginu frá gjaldþroti, en staða félagsins er erfið.
Í fréttaskýringu á vef Kjarnans í gær, segir að kapp sé lagt á það að styrkja fjárhagsstöðu félagsins með því að grynnka á skuldum – með því að umbreyta þeim í hlutafé – og fá inn meira fjármagn til rekstrarins.
Þetta er hins vegar kapp við tímann, þar sem fjárhagsstaðan er erfið og mánaðarmót framundan, sem kosta félagið mörg hundruð milljónir króna, þar sem greiða þarf laun og standa við aðrar skuldbindingar.
Félagið tapaði 22 milljörðum króna í fyrra, samkvæmt upplýsingum sem Morgunblaðið birti í gær.