Forsvarsmenn WOW air og ráðgjafar flugfélagsins funduðu um endurskipulagningu félagsins í gærkvöldi. Markaðurinn, fylgirit Fréttablaðsins, hefur drög að kynningu á endurskipulagningu félagsins undir höndunum en samkvæmt henni er gert ráð fyrir miklum viðsnúning í rekstri flugfélagsins á næstu árum. Meðal annars er gert ráð fyrir að lausafjárstaða félagsins verði jákvæð um 1,1 milljarð króna um mitt næsta ár en í dag er hún neikvæð um rúmlega 1,3 milljarða króna og búist er við að hún versni enn frekar.
Eigendur skuldabréfa muni eignast 23 prósent í félaginu
Upp úr hádegi í gær sendi WOW air frá sér tilkynningu um að félagið hefði náð samkomulagi við meirihluta skuldabréfaeigenda um fjárhagslega endurskipulagningu þess. Nú vinnur félagið að því að ná samkomulagi við aðra kröfuhafa, eins og flugvélaleigufélög, en umfram allt er verið að reyna að vinna eins hratt og kostur er, að því að fá meira fjármagn inn í félagið, enda er það á ystu nöf og bráðvantar peninga til að geta haldið áfram rekstri og staðið við skuldbindingar, þar á meðal launaútkeyrslu fyrir næstu mánaðamót.
Að því sem fram kemur í kynningunni sem Markaðurinn hefur undir höndunum miða áform stjórnenda WOW air að því að breyta skuldum þess við skuldabréfaeigendur og aðra lánardrottna upp á samanlagt 120,4 milljónir dala, jafnvirði um 14,6 milljarða króna, í hlutafé og gefa í kjölfarið út ný forgangshlutabréf fyrir 40 milljónir dala, sem jafngildir 4,8 milljörðum króna, til þess að fullfjármagna rekstur flugfélagsins.
Fjárfestirinn sem leggur flugfélaginu til 40 milljónir dala í nýtt hlutafé muni þá eignast 51 prósents hlut í félaginu sem og forgangsrétt að arðgreiðslum og öðrum útgreiðslum félagsins, samkvæmt kynningunni. Meðal þeirra sem horft er til þess að fá aftur að borðinu er bandaríska félagið Indigo Partners, þar sem hinn 81 árs gamli Bill Franke er aðaleigandi og stjórnandi, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Í kynningunni segir að eigendur skuldabréfa WOW air, sem samþykktu í gær að breyta kröfum sínum á hendur félaginu í hlutafé, munu eignast 23 prósenta hlut í félaginu og aðrir lánardrottnar 26 prósenta hlut. En í áætlun flugfélagsins er gert ráð fyrir að allir lánardrottnarnir, þar á meðal Arion banki og Isavia, samþykki að breyta kröfum sínum í hlutafé.
Gangi áform WOW air eftir gera forsvarsmenn félagsins ráð fyrir að lausafjárstaða félagsins verði jákvæð um 1,1 milljarð króna um mitt næsta ár. Í lok árs 2021 er svo gert ráð fyrir að lausafjárstaðan verði jákvæð um 9,6 milljarða króna og rekstrarhagnaður sama ár verði 8,7 milljarðar. Í ár er gert ráð fyrir 900 milljóna króna tapi á rekstri flugfélagsins.
Lán Títans breytt í hlutabréf en félagið missti yfirráð yfir WOW air í gær
Í kynningunni segir að auk þess muni víkjandi láni sem eignarhaldsfélagið Títan, sem er í fullu í eigu Skúla Mogensen, veitti flugfélaginu verði breytt í hlutabréf sem verða án atkvæðisréttar. Lánið stendur í um 6,3 milljónum dala, jafnvirði 760 milljóna króna.
Í gær fjallaði Kjarninn um að þegar tilkynnt var um að samkomulagi hefði náðst um skuldabréfaeigendur myndu eignast hlut í félaginu, voru kröfuhafar í reynd að taka yfir WOW air. Við þessa ákvörðun skuldabréfaeigenda hafi Títan í raun misst yfirráð yfir félaginu, en samkvæmt umfjöllun mbl.is um málið þá verður Skúli áfram hluthafi í félaginu, þar sem hann keypti um 11 prósent af skuldabréfaflokknum sjálfur.