Mikill vöxtur hefur verið í fiskeldi á Íslandi undanfarin ár og heildarframleiðslumagn hefur nær fjórfaldast á síðustu tíu árum. Þá hefur heildarútflutningsverðmæti eldisfisks nær sjöfaldast á sama tímabili, úr tæpum tveim milljörðum króna árið 2008 í 13,7 milljarða króna árið 2017. Alls námu tekjur fyrirtækja í fiskeldi rúmum 19 milljörðum árið 2017. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.
Framleiðslan fjórfaldast
Magn slátraðs eldisfisks hefur næstum fjórfaldast hér á landi á síðustu 10 árum og nam rúmum 19 þúsund tonnum árið 2018. Uppistaðan í fiskeldinu voru lax og bleikja, en árið 2018 voru framleidd 13,5 þúsund tonn af eldislaxi og tæp 5 þúsund tonn af bleikju.
Mest aukning hefur orðið í laxeldi á síðustu árum sem fer úr 292 tonnum árið 2008 í tæp 13,5 þúsund tonn árið 2018. Bleikjueldi hefur verið stöðugra yfir tímabilið en tæpum 5 þúsund tonnum var slátrað á síðasta ári samanborið við 3,1 þúsund tonn árið 2008. Eldi á regnbogasilungi jókst mikið á tímabilinu og náði hámarki árið 2017 þegar 4,6 þúsund tonnum var slátrað en árið 2018 nam framleiðslan einungis 295 tonnum.
Bleikja er alin í ferskvatni, en mikið er um að eldi laxaseiða og regnbogasilungsseiða sé í ferskvatni áður en fiskarnir eru settir í sjókvíar.
Ísland í fjórða sæti í framleiðslu eldislax
Á vef Hagstofunnar segir að mikil fjárfesting hafi verið í greininni á síðustu árum en þrátt fyrir það sé eiginfjárhlutfall sterkt, eða um 51 prósent árið 2017. Fjöldi launþega hjá fiskeldisfyrirtækjum hefur aukist mikið á síðustu árum og voru um 435 manns árið 2017. Tekjur fyrirtækja í fiskeldi námu 19,3 milljörðum árið 2017 og hafa ríflega tvöfaldast frá árinu 2015.
Samkvæmt Eurostat, Hagstofu Evrópusambandsins, var Ísland í fjórða sæti yfir Evrópulönd sem framleiða eldislax árið 2016 og hér var framleitt mest magn af bleikju. Samhliða aukinni framleiðslu hefur útflutningsverðmæti fiskeldisafurða aukist mikið og nam 13,1 milljarði árið 2018. Útflutningur á laxi árið 2017 var aðallega til Bandaríkjanna, Bretlands, Danmerkur, Hollands og Þýskalands. Bleikja hefur aðallega verið flutt út til Bandaríkjanna, Japan, Póllands og Þýskalands.
Skiptar skoðanir um frumvarp ráðherra um fiskeldi
Fiskeldi hefur verið mikið í umræðunni hér á landi á undanförnum mánuðum og þá sérstaklega umhverfáhrif af opnum sjókvíum. Mikil ólga skapaðist um málið þegar úrskurðarnefnd auðlinda- og umhverfismál felldi úr gildi ákvörðun Matvælastofnunar frá 22. desember 2017 um að veita Fjarðarlax ehf. rekstrarleyfi fyrir 10.700 tonna ársframleiðslu á laxi í opnum sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði í september í fyrra.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ,lagði fram frumvarp um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi á Alþingi í lok febrúar á þessu ári. Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að frumvarpið byggi á sáttmála ríkisstjórnarinnar og var við undirbúning þess byggt að verulegu leyti á skýrslu starfshóps um stefnumótun í fiskeldi sem skilaði tillögum sínum með skýrslu hinn 21. ágúst 2017.
Frumvarpsdrögin voru birt á samráðsgáttinni í desember síðastliðnum og alls bárust 31 umsögn um frumvarpið. Í umsögnunum má finna skiptar skoðanir um frumvarpið en Landssamband veiðifélaga hafa meðal annars gert alvarlegar athugasemdir við frumvarpið og segir það grafi undan áhættumati um erfðablöndun. Náttúruverndarsamtökin Icelandic Wildlife Fund hafa einnig gagnrýnt frumvarpið og segja það stríðsyfirlýsingu á hendur þeim sem vilji vernda lífríki.