Héraðssaksóknari hefur tekið ákvörðun um að ákæra fjóra hljómsveitarmeðlimi Sigur Rósar vegna vanframtalinna tekna. Skil á skattframtölum liðsmanna hljómsveitarinnar fyrir árin 2010 til 2014 hafa verið skoðunar hjá yfirvöldum í nokkur ár. Í tilkynningu frá Sigur Rós segir að hljómsveitarmeðlimirnir harmi að málið þurfi að fara fyrir dóm en vonast á sama tíma til þess að málsástæður þeirra skýrist. Þá segir að þeir hafi ávallt haft fullan ásetning til að standa í réttum skilum við skattyfirvöld og stóðu í þeirri trú að það hefði verið gert.
Ekki sérfróðir í bókhaldi
Haft er eftir Bjarnfreði Ólafssyni, lögmanni hjá LOGOS lögmannsþjónustu, í tilkynningunni að hljómarsveitarmennir töldu að þessi máli væru í lagi og í höndum fagmanna.
„Hljómsveitarmeðlimir eru tónlistarmenn og ekki sérfróðir í bókhaldi og alþjóðlegum viðskiptum – hvað þá í framtalsgerð og skattskilum. Þess vegna réðu þeir viðurkennda sérfræðinga til að annast bókhald og öll samskipti við íslensk skattyfirvöld. En í ljós hefur komið að röngum framtölum var skilað til ríkisskattstjóra og/eða þeim skilað alltof seint. Á sama tíma töldu hljómsveitarmeðlimir að þessi mál væru í lagi og í höndum fagmanna. Það verður núna verkefni Héraðssaksóknara að færa sönnur fyrir því að hljómsveitarmeðlimir hafi sjálfir gerst sekir um stórfellda vanrækslu á framtalsskyldu sinni. Í ljósi málsatvika fæ ég ekki séð hvernig það verður hægt og þess vegna veldur það vonbrigðum að embætti Héraðssaksóknara hafi tekið ákvörðun um ákærur á hendur þeim,“ segir Bjarnfreður.
Ákærðir fyrir að greiða ekki tugi milljóna í skatt
Í umfjöllun RÚV um málið segir að fjórir núverandi og fyrrverandi liðsmenn hljómsveitarinnar séu ákærðir fyrir skattsvik. Þeir Georg Holm, Kjartan Sveinsson, Orri Páll Dýrason og Jón Þór Birgisson eru allir ákærðir fyrir að telja ekki fram tekjur eða arðgreiðslur.
Samkvæmt RÚV segir í ákærunni á hendur Jóni Þór Birgissyni, söngvara sveitarinnar, að honum sé gefið að sök að hafa komið sér undan greiðslu tekjuskatts upp á rúmar þrjátíu milljónir króna og fjármagnstekjuskatt upp á 13 milljónir. Endurskoðandi Sigur Rósar er jafnframt sagður ekki hafa staðið skil á skattframtölum Jóns Þórs gjaldárin 2014 og 2015. Með því er söngvarinn sagður hafa komist undan greiðslu tekjuskatts upp á 22,6 milljónir og fjármagnstekjuskatts upp á 10 milljónir.
Georg Holm, bassaleikari sveitarinnar, er ákærður fyrir að hafa ekki greitt tekjuskatt upp á 35 milljónir og fjármagnstekjuskatts upp á 9,5 milljónir. Kjartan Sveinsson, sem hætti í hljómsveitinni fyrir sex árum, er einnig ákærður. Hann er sagður hafa komist hjá því að greiða tekjuskatt upp á rúmar 18 milljónir vegna tekna hans.
Orri Páll Dýrason, sem hætti í Sigur Rós í október síðastliðnum, er ákærður fyrir að hafa komist hjá greiðslu tekjuskatts upp á 36 milljónir og fjármagnstekjuskatt upp á 9,5 milljónir.