Ekki tókst að kjósa lögmæta stjórn í Eimskip á aðalfundi félagsins sem fram fór í gær. Í tilkynningu til Kauphallar Íslands, þar sem fjallað er um niðurstöður aðalfundarins, segir að gengið hafi verið til kosninga í aðalstjórn Eimskips en að niðurstaðan hafi verið sú að „ekki tókst að kjósa lögmæta stjórn og því úrskurðaði fundarstjóri að fresta fundinum til framhaldsaðalfundar sem haldinn verður innan mánaðar.“
Viðmælendur Kjarnans úr hópi hluthafa segja að ástæðan hafi verið þrátefli vegna niðurstöðu kosninga milli þeirra sex einstaklinga sem sóttust eftir fimm aðalstjórnarsætum.
Fjórir karlar og tvær konur
Tvær konur, Guðrún Blöndal og Hrund Rúdólfsdóttir, buðu sig fram og voru því í reynd sjálfkjörnar vegna laga um kynjakvóta í stjórnum félaga sem eru með fleiri en 50 starfsmenn sem segja að hlutfall hvors kyns í stjórn sé ekki undir 40 prósent.
Samkvæmt upplýsingum Kjarnans fór stjórnarkjörið þannig að allir stærstu hluthafar félagsins settu atkvæði sín á karlanna fjóra sem voru í framboði, enda ljóst að konurnar tvær voru sjálfkjörnar hvernig sem fer. Niðurstaðan var sú að Lárus fékk flest atkvæði og Vilhjálmur næst flest. Baldvin, sem hefur verið stjórnarformaður Eimskips frá því í september í fyrra, lenti í þriðja sæti og Óskar í því fjórða. Hann neitaði hins vegar að víkja og því var ekki hægt að kjósa löglega stjórn sem uppfyllti skilyrði laga um kynjakvóta. Því þarf að halda framhaldsaðalfund innan mánaðar til að reyna aftur.
Samherji hefði verið með tögl og hagldir
Viðmælendur Kjarnans sem áttu fulltrúa á fundinum segja að það hafi verið upplifun margra að Samherji væri að gera tilraun til þess að ná meirihluta í stjórninni á grundvelli 27,1 prósent eignarhluta félagsins. Lífeyrissjóðirnir hafi hins vegar spyrnt á móti því og haft betur.
Samherji keypti um fjórðungshlut í Eimskip í fyrrasumar og í september 2018 var haldinn hluthafafundur til að kjósa nýja stjórn. Á þeim fundi tók Baldvin Þorsteinsson við stjórnartaumunum og Guðrún Blöndal var kjörin ný í stjórn. Þótt Guðrún byði sig fram sem óháður stjórnarmaður þá naut hún stuðnings Samherja í starfið í haust.
Á aðalfundinum í gær, hefði Óskar verið kjörinn til stjórnarstarfa ásamt Baldvini, væri Samherji því að bæta við sig stjórnarmanni að mati ýmissa stórra hluthafa. Þá væri Samherji með meirihluta stjórnarmanna, varamenn í stjórn og forstjóra félagsins, en í janúar síðastliðnum var Vilhelm Már Þorsteinsson, frændi stjórnarformannsins og eigenda Samherja, ráðinn í starf forstjóra Eimskips.