„Ætli það sé ekki meira pólitísk ákvörðun og pólitískt rök frekar en lögfræðileg sem liggja þarna að baki,“ sagði Sigríður Rut Júlíusdóttir, lögmaður á Rétti, um þann vilja margra að áfrýja niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu til efri deildar dómstólsins.
Hún segist þó ekki ætla í sjálfu sér ekkert að gagnrýna það neitt harkalega að fólk vilji áfrýja þessu þangað. Fyrir því séu rök.
Sigríður Rut var gestur Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í liðinni viku.
Hægt er að sjá stiklu úr þætti kvöldsins hér að neðan.
Sigríður Rut sagði í þættinum að nú sé kannski kominn sá tímapunktur fyrir Íslendinga að fara betur ofan í það hvernig við viljum skipa dómara og eftir hvaða kerfi það sé gert. „Fyrir mitt leyti er ég ekkert alls ósátt við kerfið eins og það var sett upp hefði því verið fylgt. Ég vil miklu frekar að hæfisreglur ráð dómaravali heldur en eitthvað annað.“
Hún nefnir Bandaríkin sem dæmi þar sem slembival forsetans ræður því hverjir eru tilnefndir til dómarastarfa. „Ég vil bara sjá hæfasta einstaklinginn og ég vil bara vera sannfærð um að hæfustu einstaklingarnir séu valdir til að gegna stöðum dómara í hvert sinn. Mér er alveg sama hvar í pólitíkinni þessir dómarar eru. Mér er alveg sama hvort þeir séu hægri menn eða vinstri menn. Ég vil bara að þeir séu hæfir.“
„Ég er ekki sammála þessum rökum og þessum málflutningi,“ sagði Sigríður Rut. Hún benti á að þessi gagnrýni virðist einungis heyrast frá hægri. „Það finnst mér svolítið einkennilegt vegna þess að Mannréttindadómstóllinn öðrum fremur verndar frelsi einstaklingsins.[...]Það er verið að vernda frelsi einstaklingsins fyrir ofríki ríkisvaldsins. Ég hélt að það væri yfirskrift Sjálfstæðisflokksins og kemur mér verulega á óvart sú orðræða sem mér finnst ýmsum embættismönnum þjóðarinnar til vansa að viðhafa. Og ég deili ekki þeim áhyggjum að hér sé eitthvað um framsal á fullveldi í þessu skyni, hér er verið að vernda mannréttindi. Ekkert annað.“