Heiða Björg Pálmadóttir hefur verið skipuð í embætti forstjóra Barnaverndarstofu. Hún hefur starfað sem settur forstjóri frá 1. mars 2018 eftir að Bragi Guðbrandsson fór í leyfi.
Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu segir að Heiða Björg hafi víðtæka reynslu á sviði barnaverndar. Hún hefur starfað sem yfirlögfræðingur Barnaverndarstofu frá ársbyrjun 2009 og verið settur forstjóri stofunnar í rúmt ár. Auk þess sat hún í barnaverndarnefnd Reykjavíkur frá 2006 til 2009.
Sex sóttu um starfið
Sex sóttu um að verða næsti forstjóri Barnaverndarstofu en umsóknarfrestur rann út í byrjun febrúar. Auk Heiðu Björgu sóttu um starfið Birna Guðmundsdóttir, Guðlaug María Júlíusdóttir, Katrín Jónsdóttir, Róbert Ragnarsson og Svala Ísfeld Ólafsdóttir.
Bragi Guðbrandsson, sem hafði gegnt starfinu árum saman, lét af starfi forstjóra í febrúar í fyrra eftir að hafa tekið sæti í Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna fyrir Íslands hönd og tekið að sér sérverkefni á vegum velferðarráðuneytisins.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, skipar forstjóra Barnaverndarstofu til fimm ára í senn að undangengnu mati sérstakrar hæfnisnefndar sem ráðherra setur á grundvelli laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
Heildarendurskoðun barnaverndarlaga
Hlutverk Barnaverndarstofu er að vinna að samhæfingu og eflingu barnaverndarstarfs í landinu og er félagsmálaráðherra til ráðgjafar um stefnumótun í málaflokknum, samkvæmt vef félagsmálaráðuneytisins. Jafnframt fer Barnaverndarstofa með leiðbeiningar um túlkun og framkvæmd barnaverndarlaga og fræðslu og ráðgjöf fyrir barnaverndarnefndir í landinu. Enn fremur hefur Barnaverndarstofa eftirlit með störfum barnaverndarnefnda.
Í lok febrúar á síðasta ári tilkynnti ráðuneytið að eftirlit með öllu barnaverndarstarfi í landinu yrði endurskoðað og ráðist yrði í heildarendurskoðun barnaverndarlaga. Þá verði settar skýrar formkröfur um samskiptahætti stjórnvalda sem gegna hlutverki á sviði barnaverndar.
Í tilkynningunni um frumvarpið kom fram að fyrirhugaðar breytingar á sviði barnaverndar séu að hluta til liður í viðbrögðum ráðuneytisins til að endurheimta traust í kjölfar kvartana frá formenn barnaverndarnefndanna vegna samskipta við Barnaverndarstofu og forstjóra hennar en þeim sé einnig ætlað að bæta stjórnsýslu málaflokksins og stuðla að þróun nýrra úrræða í barnavernd.