Starfshópur félags- og barnamálaráðherra, sem unnið hefur að tillögum til að styðja við húsnæðiskaup ungs fólks og tekjulágs fólks, kynnti í dag tillögur sínar á fundi Íbúðalánsjóðs. Starfshópurinn leggur meðal annars til tvær nýjar tegundir húsnæðislána á vegum ríkisins, startlán og eiginfjárlán.
Startlán er hugsað fyrir tekjulága sem ekki ráða við greiðslubyrði lána sem bjóðast á markaði og fyrir þá sem eiga ekki fyrir fyrstu útborgun. Með startlánum myndi ríkið veita lán til viðbótar láni frá banka eða lífeyrissjóði. Þá væru lægri vextir á startlánum en almennt bjóðast á viðbótarlánum og lægri kröfur um eigið fé og greiðslubyrði. Eiginfjárlánin eru síðan hugsuð sem lán fyrir þá sem ekki ráða við startlán. Með eiginfjárláni veitir ríkið lán sem geta numið 15 til 30 prósent af kaupverði og eru án afborgana.
Verðtryggð lán aflögð og tvö ný ríkislán kynnt í staðinn
Líkt og fram kom á sameiginlegum kynningarfundi ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins á miðvikudaginn þá munu 40 ára verðtryggð lán verða aflögð frá og með næstu áramótum. Jafnframt var tilkynnt að til að auðvelda tekjulágum hópum að eignast fasteign myndi stjórnvöld kynna nýjar tegundir húsnæðislána.
Frosti Sigurjónsson, formaður fyrrnefnds starfshóps, kynnti tillögur hópsins á fundi í höfuðstöðvum Íbúðalánasjóðs í morgun. Alls lagði starfshópurinn til fjórtán tillögur sem til að auðvelda ungu fólki og tekjulágum að komast inn á húsnæðismarkaðinn. Þær miða meðal annars að því að auðvelda fyrrnefndum hópum að safna fyrir útborgun í íbúð og létta hjá þeim afborgunarbyrði lána. Tekið var fram á fundinum að um er að ræða fyrstu drög að tillögum en með fyrirvörum um nánari útfærslu, greiningu á kostnaði og áhrifum.
Húsnæðislán sem ekki hafa sést á Íslandi
Tillögurnar fela meðal annars í sér tvær nýjar tegundir húsnæðislána sem ekki hafa sést á Íslandi áður, startlán og eiginfjárlán. Startlánin eru lán að norskri fyrirmynd en með startlánum myndi ríkið veita viðbótarlán með háum veðhlutföllum og hagstæðum vöxtum til afmarkaðra hópa sem eiga sérstaklega erfitt með að eignast húsnæði. Ríkið veitir startlán til viðbótar láni frá banka eða lífeyrissjóði og lokar þannig bilinu upp að 90 prósent veðhlutfalli. Lánið á því að bjóða upp á lægri kröfu um eigið fé og lægri greiðslubyrði.
Eiginfjárlán eru lán að breskri fyrirmynd og eru hugsuð fyrir þann hóp sem ekki ræður við greiðslubyrði startlána. Með eiginfjárláni myndi ríkið veita lán sem geta numið 15 til 30 prósent af kaupverði og eru án afborgana. Þá mun höfuðstóll eiginfjárlána taka breytingum með markaðsvirði íbúðarinnar og ríkinu endurgreitt lánið við sölu íbúðar eða eftir 25 ár. Lántaki má einnig greiða lánið upp fyrr á matsverði eða í áföngum og hefur til þess hvata vegna þess að eftir fimm ár reiknast hóflegir vextir á lánið.
Bæði lánin eiga að vera háð því að um hagkvæmt húsnæði sé að ræða. Auk þess leggur hópurinn til að hægt sé að nota lánin til að skapa aukinn hvata til byggingar nýs og hagkvæms húsnæðis.
Lagt til að fresta megi afborgunum af námslánum
Starfshópurinn lagði einnig fram fleiri tillögur, meðal annars tillögu um að tekjulágir geti fullnýtt skattfrjálsan húsnæðissparnað. Að skilyrði um fyrstu kaup verði rýmkuð, að fresta megi afborgunum af námslánum LÍN um fimm ár, að vaxtabótum verði beint að tekjulægri hópum og að afsláttur af stimpilgjaldi við fyrstu kaup verði 200 þúsund krónur.
Samkvæmt skýrslu starfshópsins er þröskuldur ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkað enn of hár, þrátt fyrir aukinn kaupmátt og sögulega lága raunvexti. Íbúðaverð hefur hækkað umfram ráðstöfunartekjur sem gerir fólki erfiðara að safna fyrir kaupum á íbúð. Samkævmt könnun Íbúðalánsjóðs vilja langflestir leigjendur búa í eigin húsnæð en vísbendingar eru um að það sé óyfirstíganlegur þröskuldur fyrir marga leigjendur að safna eigin fé til íbúðarkaupa, meðal annars vegna mikillar hækkunar leiguverðs.
„Húsnæðismálin eru stórt velferðarmál. Sveiflur á húsnæðismarkaði undanfarinna ára hafa leitt til þess að hópur fólks hefur setið eftir og býr við minna húsnæðisöryggi en aðrir og þá sérstaklega ungt fólk og tekjulægri einstaklingar. Af þeirri ástæðu setti ég þessa vinnu af stað. Tillögurnar ríma vel við niðurstöður kjarasamninga. Ég ber þá von í brjósti að þær muni hafa mikla þýðingu fyrir þá hópa sem á þurfa að halda,“ sagði Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, þegar tillögur starfshópsins voru kynntar.