„Við erum auðvitað búin að leita til fjöldamargra sérfræðinga um túlkunina á dómnum. Þar eru ekki allir á eitt sáttir. Sem er umhugsunarefni fyrir íslensk stjórnvöld í viðbrögðum sínum við dómnum. Þannig að ég tel að það sé rétt mat að óska eftir því að málinu verði vísað til efri deildar.“
Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í vikunni þar sem þau ræddu ákvörðun stjórnvalda um að vísa niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu Í Landsréttarmálinu til yfirdeildar dómstólsins.
Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan:
Dómur Mannréttindadómstólsins féll þriðjudaginn 12. mars síðastliðinn. Í honum fengu bæði Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, og Alþingi á sig áfellisdóm fyrir það hvernig haldið var á skipan 15 dómara við Landsrétt í byrjun júní 2017. Sigríður fyrir að hafa brotið stjórnsýslulög með því að breyta listanum um tilnefnda dómara frá þeim lista sem hæfisnefnd hafði skilað af sér, og fært fjóra dómara af þeim lista en sett aðra fjóra inn á hann án þess að rannsaka og rökstyðja þá ákvörðun með nægjanlegum hætti. Alþingi fyrir að hafa kosið um skipan dómaranna allra í einu, í stað þess að kjósa um hvern fyrir sig. Sigríður sagði af sér embætti daginn eftir dóminn og óvissa ríkir um starfsemi millidómstigsins vegna dómsins.
„Þessi dómur, eins og frægt er orðið, hann er fordæmalaus og hann varðar grundvallarþátt í okkar réttarkerfi,“ sagði Katrín í þættinum. Auk þess sé minnihlutaálitið í honum mjög ólíkt niðurstöðu meirihlutans og það þurfi að fá meiri skýrleika í niðurstöðuna.
Hún gæti orðið sú að endurskoðun yrði hafnað og þá yrði það stjórnvalda að leysa úr þeirri stöðu sem þá myndi skapast. Niðurstaðan gæti líka verið sú að dómurinn yrði staðfestur, hugsanlega með nýjum rökstuðningi sem gæti hjálpað til við að skýra niðurstöðuna, sérstaklega um hvort að dómurinn nái einungis til þeirra fjögurra sem færðir voru inn á listann yfir 15 hæfustu umsækjendurna sem voru skipaðir eða hvort að allir dómararnir 15 sem skipaðir voru í Landsrétt séu ólöglega skipaðir. „Er aðalatriðið, eins og flestir lögfræðingar telja, brot á rannsóknarreglunni sem verið hefur dæmt í á vettvangi íslenskra dómstóla, eða vegur hlutur Alþingis og afgreiðsla þess það þungt að hugsanlega geti þetta átt við um alla 15?“
Í þriðja lagi sé mögulegt að efri deildin snúi málinu við.
„Ég get alveg fallist á það að dómurinn sé með þeim hætti að það sé eðlilegt að vísa honum áfram en hins vegar er það svo að íslensk stjórnvöld þurfa að vera viðbúin öllum þessum þremur niðurstöðum,“ sagði Katrín.
Það mun taka nokkrar vikur að fá úr því skorið hvort að málið verði tekið fyrir eða ekki. Verði það niðurstaðan að málið verði tekið fyrir þar, og að niðurstaða fáist ekki í það fyrr en eftir marga mánuði, þá metur Katrín það sem svo að mögulega þurfi að grípa til einhverra aðgerða, til dæmis með því að skipa dómara við Landsrétt tímabundið í stað þeirra fjögurra sem geta ekki dæmt. Þangað til munu hinir ellefu hins vegar þurfa að bera byrðar dómstólsins.