Skipulagsstofnun hefur fallist á tillögu að matsáætlun með athugasemdum vegna fyrirhugaðra endurbóta á kísilverksmiðjunni í Helguvík í Reykjanesbæ. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stofnuninni.
Um er að ræða heildarframleiðslu allt að 100.000 tonnum af kísli á ári í allt að fjórum ljósbogaofnum, stækkun og endurbótum á núverandi mannvirkjum kísilverksmiðjunnar til að uppfylla skilyrði Umhverfisstofnunar. Í ákvörðun Skipulagsstofnunar um tillögu að matsáætlun er fjallað um heilsu, samráð, samfélag, ásýnd, valkosti, mengun, veður, fráveitu, grunnvatn og vöktun.
Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar kemur fram að í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum hafi stofnunin farið yfir tillögu Stakksbergs ehf. að matsáætlun ásamt þeim umsögnum og athugasemdum sem borist hafa stofnuninni og viðbrögðum framkvæmdaaðila við þeim. Skipulagsstofnun hafi ennfremur fallist á tillögu framkvæmdaaðila að matsáætlun með eftirfarandi athugasemdum:
- Í frummatsskýrslu þarf að gera grein fyrir hvernig staðið hefur verið að samráði við íbúa við vinnslu umhverfismatsins, umfram samráð á matsáætlunarstigi.
- Í frummatsskýrslu þarf að gera grein fyrir þeim hitafrávikum sem hljótast af því að kælimiðli er veitt til sjávar. Sýna þarf hversu mikill hitamunur verður þar sem hann er mestur og hversu stórt svæði verður fyrir áhrifum.
- Í frummatsskýrslu þarf að gera grein fyrir vatnsnotkun kísilverksmiðjunnar og áhrifum hennar á grunnvatn á svæðinu. Gera þarf grein fyrir því hvernig vatns verður aflað til verksmiðjunnar og hvort verksmiðjan verði með eigin vatnsöflun eða fái vatn úr starfandi vatnsveitum. Þá þarf að gera grein fyrir þeim kosti við kælingu að nota ekki grunnvatn.
- Í frummatsskýrslu þarf að byggja spá um dreifingu mengunarefna á þeim veðurgögnum sem Veðurstofa Íslands telur að endurspegli veður á svæðinu á seinni árum. Nauðsynlegt er í frummatsskýrslu að gera grein fyrir mögulegri hámarksmengun við verstu veðurskilyrði svo sem þegar hæglætisvindur stendur frá verksmiðju yfir nálæga íbúðarbyggð og í rakamettuðu lofti.
- Í frummatsskýrslu þarf að gera grein hvaða snefilefni fylgja hráefnum, einkum þungmálmar, arsen og önnur mengandi efni, eftir því sem við á. Gera þarf grein fyrir hvort og þá hvernig þau geta borist út í umhverfið og hvaða viðmiðunarmörk eru um styrk efnanna í hráefnum. Í frummatsskýrslu þarf auk þess að koma fram hver eru bakgrunnsgildi helstu þungmálma, arsens og þrávirkra lífrænna efna til að unnt sé að gera grein fyrir grunngildum vöktunar og álagsþoli svæðisins miðað við önnur svæði á Íslandi. Þá þarf að gera grein fyrir þeim kostum og annmörkum sem neyðarskorsteinn hefur á loftgæði umhverfis verksmiðjuna.
- Í frummatsskýrslu þarf að gera grein fyrir og leggja mat á hver áhrif breytilegs afls ofna eru á loftgæði umhverfis verksmiðjuna líkt og Umhverfisstofnun bendir á. Þá þarf jafnframt að greina frá því hvernig brugðist verður við þegar ofnar eru ekki á fullu álagi og mestar líkur eru á lyktamengun.
- Í frummatsskýrslu þarf að gera grein fyrir því hvaða áhrif áætlaðar tæknilegar úrbætur hafa á loftgæði og styrk sem berst út í umhverfið. Ennfremur hvaða áhrif breytingar á reykhreinsivirki, útblæstri og meðhöndlun ryks hafa á efnasamsetningu útblásturs og dreifingu hans á ársgrundvelli og til lengri tíma líkt og Veðurstofa Íslands bendir á.
- Í frummatsskýrslu þarf að gera grein fyrir og leggja mat á áhrif kísilversins á heilsu þar sem megin áhersla verði lögð á afleidd áhrif á heilsu af loftgæðum einkum af völdum mengunarefna og lyktar frá verksmiðjunni. Nauðsynlegt er að setja fram tillögu að vöktun á áhrifum starfsemi kísilversins á heilsu á rekstrartíma.
- Í frummatsskýrslu þarf að leggja mat á áhrif kísilverksmiðjunnar á samfélagsþætti á borð við vinnumarkað og íbúaþróun á Suðurnesjum. Þar verði sérstaklega fjallað um fjölda og tegund starfa sem kísilverið skapar með tilliti til vinnumarkaðarins á Suðurnesjum.
- Í frummatsskýrslu þarf að sýna hvernig ásýnd verksmiðjunnar verður frá sömu stöðum og gert var í fyrra mati á umhverfisáhrifum en einnig þarf að velja fleiri sjónarhorn sem sýna ásýndarbreytingar, einkum frá þeim stöðum sem eru upplýsandi fyrir íbúa í nálægu þéttbýli, líkt og Reykjanesbær bendir á í umsögn sinni.
- Í frummatsskýrslu þarf að fjalla um mismunandi kosti fyrirkomulags mengunarvarna og losunar og um uppsetningu skorsteina. Þá þarf að fjalla um þann kost að ræsa verksmiðjuna ekki aftur (núllkost). Einnig þarf að gera grein fyrir áfangaskiptingu við uppbyggingu verksmiðjunnar og gera grein fyrir þeim valkostum sem felast í mismunandi framleiðslumagni (stærð/umfangi).
Framkvæmdaaðili vinnur nú frummatsskýrslu
Nú þegar Skipulagsstofnun hefur fallist á tillögu að matsáætlun er næsta skref í ferlinu að framkvæmdaaðili vinnur frummatsskýrslu og skilar henni inn til Skipulagsstofnunar þegar hún er tilbúin og þarf hún að vera í samræmi við matsáætlun.
Í frummatsskýrslu setur framkvæmdaaðili fram mat sitt á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar í samræmi við matsáætlun og sendir Skipulagsstofnun skýrsluna. Stofnunin fer yfir skýrsluna og metur hvort hún sé í samræmi við matsáætlun og ákvæði laga og reglugerðar. Frummatsskýrsla er svo kynnt á vef stofnunarinnar og í fjölmiðlum ásamt því að leitað er til umsagnaraðila, en kynningartími er alls 6 vikur, á þeim tíma gefst almenningi kostur að kynna sér framkvæmdina og koma athugasemdum sínum á framfæri.