Fjársýsla ríkisins greiddi fyrirtækinu Advania rúman milljarð vegna tölvukerfa í fyrra, þar af 635 milljónir vegna tölvukerfisins Orra og um 392 milljónir vegna annarra kerfa, án virðisaukaskatts. Advania var hlutskarpast í örútboði ríksins á hýsingu og rekstur á tölvukerfinu Orra árið 2015.
Samkvæmt samningnum átti Advania að fá greiddar 7.850.000 krónur, án virðisaukaskatts, á mánuði fyrir daglegan rekstur og hýsingu á Orra. Kostnaður ríksins átti með samningnum að lækka um 94 milljónir á ári, úr 198 milljónum króna á ári í tæpar 104 milljónir króna.
Kostnaðurinn vegna Orra átti að lækka í 104 milljónir króna
Kjarninn greindi frá því í ítarlegri fréttaskýringu í maí 2015 að Fjársýsla ríkisins hefði ákveðið að ganga til samninga við Advania í kjölfar örútboðs um daglegan rekstur og hýsingu tölvukerfisins Orra sem fór fram á vegum Ríkiskaupa. Tölvukerfið Orri er samheiti yfir ýmis kerfi ríkisins, til dæmis fjárhags- og mannauðskerfi og ýmis stuðningskerfi sem því fylgja. Alls nota um 190 stofnanir ríkisins kerfið og um 15 þúsund einstaklingar eru með vefaðgang að því. Um 19 þúsund manns fá reglulega launagreiðslur sem kerfið annast mánaðarlega.
Þrír aðilar buðu í verkefnið á sínum tíma. Síminn bauð hæst um 21 milljón króna, Opin Kerfi buðu 10,3 milljónir króna og Advania skilaði inn sex tilboðum. Fjársýslan tók tilboði Advania upp á 7.850.000 krónur án virðisaukaskatts á mánuði. Advania hafði áður séð um rekstur og hýsingu Orra og þegið fyrir það 16,5 milljónir króna á mánuði fyrir utan virðisaukaskatt. Því nam samningslækkunin 8.650.000 krónum á mánuði án virðisaukaskatts.
Á ársgrundvelli átti kostnaður ríkisins vegna hýsingar og reksturs Orra því að nærri helmingast, fara úr 198 milljónum á ári í tæpar 104 milljónir. Samningurinn var gerður til sex ára með heimild til framlengingar um allt að tvö ár.
Kostnaðurinn vegna Orra 635 milljónir í fyrra
Í svari Fjársýslu ríkisins við fyrirspurn Kjarnans kemur hins vegar fram að kostnaður ríkisins vegna reksturs og hýsingar tölvukerfisins Orra var 635 milljónir króna í fyrra, af því voru 191 milljónir króna vegna rekstrar-, viðhalds- og hýsingarsamninga og 163 milljónir króna vegna uppfærslu kerfisins og annað vegna ýmiss konar þjónustu og þróunar, meðal annars vegna breytinga á reikningsskilaaðferðum ríkisins.
Auk þess greiddi stofnunin Advania 392 milljónir króna vegna annarra kerfa árið 2018.
Tekjur Advania jukust um 60 prósent árið 2017
Advania varð til eftir hrun, nánar tiltekið árið 2012, þegar nokkur félög voru sameinuð í eitt stórt upplýsingafyrirtæki. Á meðal þeirra félaga sem sett voru inn í Advania voru EJS og SKÝRR, sem eitt sinn hét Skýrsluvélar ríkisins og var þá opinbert fyrirtæki. Fyrirtækið er að öllu leyti í eigu sænska félagsins AdvInvest og hefur verið það frá því í apríl 2015.
Árið 2017 námu tekjur Advania 2.804 milljónum sænskra króna og jukust þær um 60 prósent á milli ári. EBITDA fyrirtæksins jókst einnig um tæp 60 prósent á milli ári og fór úr 162 milljónum sænskra króna í 258 milljónir sænskra króna árið 2017.