Afkomuskiptasamningur stjórnvalda og Kaupþings hefur nú virkjast í fyrsta sinn og fær íslenska ríkið því rúmlega sex milljarða króna í sinn hlut vegna sölu Kaupþings á rúmlega 15 prósent hlut í Arion banka í byrjun apríl. Afkomuskiptasamningurinn var meðal stöðugleikaskilyrða sem slitabúið þurfti að undirgangast við samþykkt nauðasamninga í árslok 2015. Frá þessu er greint í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins, í dag.
Ríkið fengið 90 milljarða vegna eignarhluta Kaupþings í Arion banka
Greint var frá því í byrjun apríl að stærsti eigandi Arion banka, Kaupþing ehf., hafi selt 15 prósenta hlut í Arion banka fyrir 20,5 milljarða. Meðal þeirra sem keyptu hlut var fjárfestingafélagið Stoðir sem nú er stærsti íslenski einkafjárfestirinn í bankanum, þá keypti bandaríski vogunarsjóðurinn Taconic Capital 5 prósent hlut og á nú 16 prósent í bankanum. Auk þess eru Íslandsbanki og Lífeyrissjóður starfsmanna nú orðnir hluthafar í bankanum.
Stór hluti sölunnar rennur til íslenska ríkisins eða um sex milljarðar króna vegna afkomuskiptasamningsins. Samkvæmt afkomuskiptasamningnum fær íslenska ríkið þriðjung af öllu söluandvirði Kaupþings á eignarhlutum félagsins í Arion banka milli 100 og 140 milljarða króna en helminginn á milli 140 og 160 milljarða króna. Þá fær ríkissjóður þrjá fjórðu í sinn hlut af söluandvirði umfram 160 milljarða króna.
Samkvæmt Markaðinum hefur ríkissjóður þá fengið í heildina um 90 milljarða króna í tenglum við söluferli Kaupþings á eignarhlutum sínum í Arion banka,sem hófst í mars 2019. Auk þess hefur félagið greitt um 8,3 milljarða króna í vexti vegna 84 milljarða króna veðskuldabréfs sem Kaupþing gaf út til ríkisins í ársbyrjun 2016. Skuldabréfið, sem var með veði í hlutabréfum í Arion banka og var hluti af stöðugleikaframlagi Kaupþings, var greitt upp að fullu í fyrra.
Arion banki lækkar útgefið hlutafé sitt um 9,3 prósent
Kjarninn greindi frá því í gær að skráð hlutafé Arion banka verður lækkað um 186 milljón hluti frá og með deginum í dag Um er að ræða 9,3 prósent af útgefnu hlutafé í bankanum sem er í eigu hans sjálfs sem stendur. Virði þess hlutar, miðað við gengi bréfa í Arion banka í dag, er um 14,2 milljarðar króna. Eftir breytinguna mun útgefið hlutafé í Arion banka ekki lengur vera tvær milljónir hlutir heldur 1.814 milljónir hlutir. Það þýðir að hlutfallsleg eign annarra hluthafa eykst.
Eftir breytinguna mun Kaupþing ehf., sem í dag á 18,14 prósent hlut í bankanum, til dæmis eiga 20 prósent hlut og Taconic Capital, næst stærsti eigandinn, sjá hlutfallslega eign sína fara úr 14,5 prósentum í 16 prósent. Stoðir, stærsti innlendi fjárfestirinn í Arion banka sem bætti verulegum eignarhlut við sig í síðustu viku, fer úr 4,2 prósent eignarhlut í 4,6 prósent.