Fimm prósent af þeim 82 flóttamönnum sem tóku þátt í þarfagreiningu Rauða krossins í Reykjavík eru í námi hér á landi, en 43 prósent eiga í erfiðleikum með að komast í nám. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Rauða krossins „Aðgengi flóttafólks að menntun á Íslandi“ sem fulltrúar samtakanna afhentu Lilju Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra, í síðustu viku.
Í skýrslunni er farið yfir möguleika og hindranir sem flóttafólk stendur frammi varðandi nám á framhaldsskóla- og háskólastigi á Íslandi.
Í frétt Rauða krossins um málið kemur fram að íslenskt menntakerfi skorti úrræði fyrir nemendur með flóttamannabakgrunn, úrræði sem myndu gera þeim kleift að ljúka námi á því sviði sem hugur þeirra stendur til.
Ýmsar hindranir á veginum
Enn fremur segir að skortur á tungumálaþjálfun sé ein þeirra hindrana sem flóttamenn standa frammi fyrir, auk skorts á tiltækum og aðgengilegum upplýsingum um menntunarmöguleika. Fjárhagslega þröng staða og erfiðleikar með að fá fyrra nám metið komi einnig í veg fyrir að flóttafólk geti menntað sig.
Þrátt fyrir að í lögum um framhaldsskóla sé kveðið á um móttökuáætlanir fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku, sýni könnun meðal framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu – í nágrenni þess – að margir þeirra hafi ekki gert ráðstafanir varðandi móttöku og stuðning við þessa nemendur.
Sigrún Erla Egilsdóttir og Pimm Westra, verkefnastjórar flóttamannamála hjá samtökunum segja að þau séu í daglegum samskiptum við margt ungt flóttafólk sem hefur mikinn áhuga á að halda áfram sínu námi. En þar sem menntun sé ekki aðgengileg þessu unga fólki hér á landi segjast mörg þeirra upplifa sig föst í aðstæðum sem þau vilja ekki vera í og við það að missa alla von. „Þetta skerta aðgengi flóttafólks að námi veldur því að íslenskt samfélag nýtir ekki til fulls mannauð þeirra og hæfileika.“
Hægt er að lesa skýrsluna hér.