Isavia og WOW air gerðu samkomulag um það í lok september 2018 um hvernig flugfélagið ætlaði að greiða upp vanskilaskuld sína við Keflavíkurflugvöll. Þá námu vanskil flugfélagsins við Isavia, rekstraraðila flugvallarins, um einum milljarði króna. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Í frétt blaðsins segir enn fremur að skuld WOW air við Isavia hafi staðið í 1.954 milljónum króna í lok febrúar 2019, mánuði áður en að félagið varð gjaldþrota. Samkomulagið sem gert var í fyrrahaust hafi snúist um að greiða vanskilaskuldina við Isavia upp í 13 afborgunum sem áttu að fara fram mánaðarlega frá og með nóvember 2018. WOW air greiddi samkvæmt samkomulaginu fram í mars, þegar 30 milljóna króna reikningur var ekki greiddur.
Það var á grundvelli þessa samkomulags sem Isavia gat haldið einni flugvél frá WOW air kyrrsettri á Keflavíkurflugvelli sem veð fyrir þeirri miklu skuld sem flugfélagið hafði safnað upp gagnvart Isavia. Sú vél var í eigu leigusala WOW air, ekki flugfélagsins sjálfs, og samkvæmt frétt Morgunblaðsins var eigandinn hvorki upplýstur um samkomulagið af Isavia né WOW air. Nú stefnir Isavia að því að bjóða upp þá vél á uppboði ef eigandi hennar, bandaríska flugvélaleigufyrirtækið Air Lease Corportion, greiðir ekki tæplega tveggja milljarða króna skuld WOW air við Isavia.
Skúli neitaði umfangi skuldarinnar
Í Morgunblaðinusegir enn fremur að skuld WOW air við Isavia hafi verið um tveir milljarðar króna í fyrrahaust og að um helmingur hennar hafi verið gjaldfallinn þegar samkomulagið var gert.
Það rímar við frétt sem Morgunblaðið sagði um skuld WOW air við Isavia í september í fyrra. Skúli Mogensen, stofnandi, eigandi og forstjóri WOW air, setti þá stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hann sagði að frétt Morgunblaðsins væri röng. Þar sagði m.a.: „„Ég get ekki orða bundist lengur að sjá hvernig sumir fjölmiðlar keppast um að tortryggja WOW air og það sem við höfum byggt upp undanfarin ár. Ég hreinlega trúi ekki að nokkur blaðamaður eða fjölmiðill sé svo skammsýnn að vilja vísvitandi skemma fyrir áframhaldandi uppbyggingu félagsins. Nýjasta „fréttin" er að við eigum að skulda Isavia yfir tvo milljarða. Þessu er slegið upp með stórri fyrirsögn í æsifréttastíl á forsíðu Morgunblaðsins í dag og er vitnað í nafnlausan heimildarmann. Við leggjum ekki í vana að tjá okkur um einstaka birgja eða þjónustusamninga en þetta er einfaldlega rangt.“
Forstjórinn og stjórnarformaðurinn farnir
Sviptingar hafa orðið innan Isavia undanfarið og samkvæmt heimildum Kjarnans má rekja þær að minnsta kosti að hluta til þeirrar stöðu sem fyrirtækið var komið í vegna WOW air. Umburðarlyndi Isavia gagnvart WOW air var harðlega gagnrýnt af ýmsum fyrir að vera andstætt eðlilegum samkeppnissjónarmiðum.
Í gær var greint frá því að Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, hefði sagt starfi sínu lausu. Hann hætti samstundis, en Björn Óli hafði stýrt Isavia í áratug.
Þá var skipt var um stjórnarformann í fyrirtækinu í síðasta mánuði þegar Orri Hauksson, forstjóri Símans, tók við af Ingimundi Sigurpálssyni.