Alls voru erlendir ríkisborgarar á Íslandi 45.518 við lok fyrsta ársfjórðungs og hafði þá fjölgað um 1.208 frá fyrsta janúar. Það er minni fjölgun en á fyrsta ársfjórðungi síðasta árs þegar 1.620 erlendir ríkisborgarar fluttu til landsins. Þetta kemur fram í nýjum tölum Þjóðskrár.
Það hefur því hægt á fjölgun erlendra ríkisborgara á Íslandi frá árunum 2017 og 2018 þegar metfjölgun var á erlendum ríkisborgurum búsettum á Íslandi. Á þeim tíma fjölgaði erlent ríkisfang um 46 prósent og voru þeir 44.310 við lok árs 2018. Pólverjar eru fjölmennastir erlendra ríkisborgara á Íslandi eða 19.564, næst fjölmennasti hópurinn er frá Litháen og fylgja Lettland, Rúmenía og Portúgal þar á eftir. Erlendir ríkisborgarar eru nú 12,7 prósent af heildaríbúafjölda landsins.
Erlendum starfsmönnum fjölgar
Hægari fjölgun erlendra íbúa á landinu helst í hendur við kólnun í hagkerfinu og færri lausum störfum en samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar hefur atvinnuleysi farið vaxandi á seinustu mánuðum. Hagstofan hefur framkvæmt vinnumarkaðsrannsóknir um langt skeið, en hún hóf þó einungis nýverið að gefa út tölur um laus störf. Samkvæmt fyrstu tölum hennar, sem náðu yfir fyrsta ársfjórðung þessa árs voru 3500 laus störf á landinu.
Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru við lok árs 2018 tæplega 34 þúsund erlendir ríkisborgar starfandi hér á landi og hafði þá fjölgað um 9500 frá ársbyrjun 2017 eða um rúmlega þrjú þúsund færri en fluttu til landsins á sama tímabili. Meðal ástæðna fyrir þessum mun á fjölda búsettra og starfandi erlendra ríkisborgara eru að inni í tölum yfir búsetta eru börn og einstaklingar sem eru komnir hingað til að stunda nám eða eru komnir á eftirlaun.
Flestir nýir skattgreiðendur erlendir
Kjarninn hefur bent á að meðaltal félagslegra greiðslna til innflytjenda hefur lækkað á undanförnum árum, á sama tíma og erlendum ríkisborgurum búsettum á Íslandi hefur fjölgað. Til félagslegra greiðslna teljast meðal annars greiðslur frá Tryggingastofnun, atvinnuleysisbætur, barnabætur og lífeyrisgreiðslur. Erlendir ríkisborgarar virðast því ekki sækja meiri greiðslur í félagslega kerfið þrátt fyrir fjölgun.
Á sama tíma þiggja innlendir að meðaltali mun hærri greiðslur úr félagslega kerfinu. Flestir nýir skattgreiðendur á Íslandi eru aftur á móti innflytjendur en þeim fjölgaði til að mynda um 28 prósent á milli áranna 2016 og 2017 og árið 2017 borguðu 44.850 erlendir ríkisborgarar skatta á Íslandi en það voru á þeim tíma rúm fimmtán prósent skattgreiðenda á Íslandi.