Í kjölfar þess að líbýski stríðsherrann Khalifa Haftar og herlið hans hafa sótt fastar að Trípólí, höfuðborg Líbýu, hafa þau hundruð þúsund flóttamanna sem stödd eru í landinu orðið að verkfæri í höndum alþjóðlega viðurkenndrar ríkisstjórnar landsins, sem beita þeim nú fyrir sér í tilraun til tryggja sér aukinn stuðning Evrópuríkja.
Ríkisstjórn Fayez al-Sarraj hefur spilað inn á vaxandi útlendingaandúð og þjóðernispopúlisma í Evrópu með því að vara við að verði ekkert að gert muni átta hundruð þúsund flóttamenn flæða frá landinu og yfir til Evrópu. Í þeim hópi væru ekki eingöngu fólk sem vildi komast til Evrópu í von um betra líf heldur einnig meðlimir hins svokallaða Íslamska ríkis sem hefðu verið hraktir frá borginni Sirte fyrir þremur árum.
Það er ekki að ástæðulausu að ríkisstjórnin hefur brugðið á þetta ráð. Undanfarin ár hafa popúlískir flokkar sem ala á ótta og andúð í garð innflytjenda styrkt stöðu sína í Evrópu. Eitt skýrasta dæmið um það er þegar núverandi ríkisstjórn á Ítalíu tók við völdum árið 2018. Ítalska ríkisstjórnin, með Norðurbandalag Matteo Salvini innanborðs, hefur barist gegn því að flóttamenn komist til Ítalíu frá ríkjum Norður-Afríku með því að meina skipum sem bjargað hafa flóttamönnum, sem lagt hafa af stað yfir hafið, að leggjast að bryggju í ítölskum höfnum. Það hefur valdið því að þessi sömu skip hafa verið föst á hafi úti í allt að tvær vikur í leit að landi sem tilbúið er að taka við flóttamönnunum – sem virðist verða sífellt erfiðara.
Gæti þýtt færri flóttamenn
Þessar tölur al-Sarraj um fjölda flóttamanna eru síður en svo óumdeildar. Matteo Villa, sem starfar fyrir Italian Institute for Political Studies, segir að orð forsætisráðherrans séu eingöngu örvæntingarfull tilraun til að vekja ótta hjá vestrænum, og ekki síst ítölskum stjórnvöldum og tryggja sér þannig stuðning þeirra. „Það eru ekki einu sinni átta hundruð þúsund flóttamenn í Líbýu,” segir hann og Læknar án landamæra telja ómögulegt að áætla hversu margir flóttamenn muni leggja af stað frá Líbýu til Evrópu í von um betra líf.
En orð al-Sarraj dugðu til að ná eyrum ítalskra stjórnvalda. Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, sagði á fundi með stuðningsmönnum ríkisstjórnar al-Sarraj, að koma þyrfti í veg fyrir krísu sem gæti stórskaðað Ítalíu og Evrópusambandið. Það gæti jafnvel komið líbýsku þjóðinni til góða.
Aftur á móti bendir Villa á að óstöðugleiki hafi hingað til valdið því að færri flóttamenn hafi lagt af stað yfir hafið. Aðalástæða þess sé að þeir sem skipuleggja smygl á fólki séu oftar en ekki skæruliðar og þegar bardagar brjótast út séu þeir þátttakendur í þeim.
Fólk í vanda fær ekki hjálp
Líkt og Ítalía hafa önnur Evrópuríki reynt að koma sér hjá því að taka á flóttamannavandanum. Á undanförnum árum hefur Evrópusambandið dælt tugum milljóna evra til líbýsku landhelgisgæslunnar og á sama tíma hefur ábyrgð á björgun flóttamanna leynt og ljóst verið komið yfir á alþjóðleg hjálparsamtök. Landhelgisgæsla Líbýu segist á undanförnum árum hafa stöðvað um það bil fimmtán þúsund flóttamenn undan ströndum landsins.
Það er því kannski ekki skrýtið að flóttamenn sem sitja í flóttamannabúðum í Líbýu veigri sér við að leggja af stað yfir hafið. Ekki einungis er ferðin frá ströndum Norður-Afríku gríðarlega hættuleg heldur á það líka á hættu að vera handsamað af líbýskum stjórnvöldum. Craig Kenzie sem starfar fyrir Læknar án landamæra segir að samtökin hafi sérstakar áhyggjur af þeim sem leggja af stað yfir hafið núna því skortur sé á björgunarsveitum. „Ef fólk lendir í vanda á leið sinni er líklegt að ekki verði hægt að koma þeim til bjargar,“ segir hann.
Samkvæmt tölum landamæragæslu Evrópu, Frontex, hafa innan við fimm hundruð flóttamenn komist frá Alsír, Túnis og Líbýu yfir til Evrópu á þessu ári. Á sama tíma greina alþjóðleg samtök frá því að 409 hafi látið lífið á för sinni frá þessum löndum.
Alið á ótta
Segja má að al-Sarraj fylgi með ummælum sínum um flóttamannavandann sem Evrópa gæti staðið frammi fyrir, að vissu leyti í fótspor Ahmed Ouyahia, þáverandi forsætisráðherra Alsír. Ouyahia sagði við upphaf mótmælanna þar í landi að stríðið í Sýrlandi hefði einnig hafist með friðsömum mótmælum. Þó að aðstæðurnar séu vissulega ólíkar og að orðum Ouyahia hafi verið beint að alsírskum almenningi, fremur en Evrópubúum, er ljóst að valdhafar í norður Afríku reyna í auknum mæli að spila á ótta og tilfinningar fólks í þeirri von að treysta völd sín.
Þessi orð al-Sarraj koma einnig í kjölfar þess að ríkisstjórn hans hefur hægt og rólega misst stuðning á alþjóðlegum vettvangi. Stuðningur ýmissa arabaríkja, Bandaríkjanna og í síauknum mæli Rússlands og Frakklands við Khalifa Haftar og hersveitir hans hefur enda aukist undanfarin misseri. Þó að staðan í landinu sé að mörgu leyti óljós, sérstaklega í ljósi þess að gífurlegt magn rangra upplýsinga berst frá báðum fylkingum, má það þó teljast ljóst að sókn Haftar að Trípólí kemur í kjölfar þess að hann hefur tryggt sér nægilegan alþjóðlegan stuðning til að reyna að ná borginni á sitt vald.
Staðan er tvísýn
Frönsk stjórnvöld – en Frakkland er það Evrópuríki sem stendur næst Haftar og hers hans – segjast ekki hafa vitað af fyrirætlunum Haftars um að ráðast að Trípólí. En ríkisstjórn al-Sarraj tilkynnti samt sem áður nýverið að hún hefði klippt á öll samskipti við Frakkland vegna stuðnings og tengsla landsins við Khalifa Haftar.
Kenningar um að Frakkar hafi bein afskipti af átökunum fengu svo meðbyr nýverið þegar hópur vopnaðra franskra ríkisborgara var handtekinn þegar þeir reyndu að komast yfir landamærin til Túnis. Auk vopna fundust á hópnum samskiptatæki sem sögð eru tengd við hersveitir Haftar. Samkvæmt nafnlausum heimildarmanni úr túníska stjórnkerfinu, sem Al Jazeera vitnar til, er hópurinn á vegum frönsku leyniþjónustunnar. Því neita Frakkar og segja að mennirnir, sem höfðu diplómatísk vegabréf, séu verðir úr franska sendiráðinu og að för þeirra yfir landamærin hafi verið hluti af hefðbundnum flutningum starfsmanna sendiráðsins.
Staða landsins er með öðrum orðum tvísýn; þar sem Sádí-Arabía, Jórdanía, Egyptaland, Frakkland, Rússland og Bandaríkin styðja, leynt eða ljóst, hersveitir Khalifa Haftar og Bretland, Ítalía og fleiri ríki styðja ríkisstjórn al-Sarraj. Staðan sem upp er komin eykur enn á óvissuna sem flóttamennirnir, sem flúið hafa yfir Sahara eyðimörkina í leit sinni að betra lífi í Evrópu, hafa þurft að lifa við.
Þrælasalar helsta ógnin
Það er lýsandi fyrir því hversu vonlaus staða flóttamannanna er að þrátt fyrir að vera staddir í flóttamannabúðum við fremstu víglínu og þrátt fyrir að frásagnir berist af því að þeir hafi verið neyddir til að taka afstöðu í átökunum og að taka þátt í þeim þá segja þeir styrjöldina ekki vera þeirra helsta áhyggjuefni.
Sína helstu ógn segja þeir snúa að þrælasölum og smyglurum. Þeir kúgi þá, hækki uppsett verð fyrir flutningana og setji það ekki fyrir sig að beita handrukkunum og nauðgunum geti fólk ekki greitt þeim. Jafnvel þeir sem geta greitt smyglurunum eru ekki bjartsýnir á að komast yfir hafið. „Ég held það sé ekki hægt að komast til Evrópu,“ sagði unglingur staddur í Abu Salim-búðunum við blaðamann Al Jazeera.
Þeirra helsta von er að lifa við öryggi, en bjartsýnin minnkar með hverjum deginum og að komast yfir Miðjarðarhafið er þeirra eina von um að losna úr greipum þrælasölum og smyglurum. En eins og Craig Kenzie hjá Læknum án landamæra bendir á þá er það ekki glæpur að leita að öryggi en á meðan ekki er meira lagt í björgunaraðgerðir á Miðjarðarhafinu er ólíklegt að þeim verði að ósk sinni.