„Það er augljóst í okkar huga að það er þetta sem skiptir mestu máli. Hver sé upplifun almennings, neytandans. Við höfum talað fyrir því lengi að stjórnvöld þurfi að koma að því með einhverjum hætti að styrkja þessa rödd. Við finnum þetta ójafnvægi svo í okkar starfi.“
Þetta sagði Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í vikunni.
Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan.
Páll segir að ójafnvægið birtist í því að á Íslandi séu mjög sterk hagsmunasamtök fyrirtækjamegin á meðan að neytendur eiga í mjög miklum erfiðleikum með að taka þátt í hagsmunabaráttunni fyrir sína hönd.
Það sé afleiðing slíkrar baráttu í okkar litla samfélagi sem verði oft persónuleg. „Annars staðar á Norðurlöndunum sjáum við stutt mun myndarlegra við neytendasamtök heldur en hér er gert.“
Hann segir að á kynningarfundi á niðurstöðu könnunarinnar hafi ýmsum aðilum verið boðið að leggja orð í belg en að forsvarsmenn neytenda hafi ekki verið þar á meðal.