Á síðustu tíu árum missti að jafnaði 101 barn foreldri sitt árlega. Alls létust 649 foreldrar barna á árunum 2009 til 2018, þar af voru 448 feður og 201 móðir. Þá létust flestir foreldrarnir af völdum illkynja æxlis eða tæplega 40 prósent. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar en þetta er í fyrsta sinn sem Hagstofan tekur saman tölur um fjölda barna sem lenda í þessari stöðu á ári hverju á Íslandi.
16 prósent foreldra létust af völdum sjálfsvígs
Á árunum 2009 til 2018 misstu 1001 börn foreldri á tímabilinu 2009 til 2010, alls 525 drengir og 482 stúlkur. Þá létust mun fleiri feður á tímabilinu eða alls 448 en 201 móðir. Flestir feðra sem létust voru eldri en 49 ára eða 38 prósent. Næstflestir voru milli 40 og 49 ára, eða um 31 prósent af heildarfjölda feðra. Flestar mæður sem létust voru á aldrinum 40 til 49 ára, alls 42 prósent en næststærsti hópurinn var á aldrinum 30 til 39 ára eða tæplega 28 prósent.
Algengast var að foreldrar létust af völdum illkynja æxlis eða alls 257 foreldrar. Næstalgengast var að foreldri létist vegna ytri orsaka áverka og eitrana, tæplega 34 prósent tilvika eða 218 manns. Hagstofan skoðaði sérstaklega tvo undirflokkar dauðsfalla af völdum ytri orsaka áverka og eitrana, annars vegar óhöpp og hins vegar sjálfsvíg og vísvitandi sjálfsskaði. Meirihluti foreldra sem létust af völdum ytri orsaka, létust af völdum sjálfsvígs og vísvitandi sjálfsskaða, alls 106. Það eru 48 prósent af heildarfjölda foreldra sem lést af völdum ytri orsaka og 16,3 prósent af heildarfjöldanum.
Þegar dánarorsakir eru skoðaðar eftir kyni og aldursflokkum má sjá að langalgengasta dánarorsök ungra mæðra og ungra feðra, þeirra sem eru 29 ára eða yngri, eru ytri orsakir. Alls létust 89 prósent feðra og 73 prósent á þessum aldri vegna ytri orsaka. Meðal foreldra sem voru eldri en 49 ára var algengasta dánarorsökin hins vegar illkynja æxli, 69 prósent mæðra og 50 prósent feðra á þessum aldri.
Mikilvægt að skapa lagalega umgjörð til að hlúa að þessum börnum
Í dag, mánudaginn 29. apríl, fer ráðstefnan „Hvað verður um mig“ þar sem fjallað verður um rétt barna, stöðu þeirra og þarfir við fráfall foreldris. Í tilkynningu frá Krabbameinsfélaginu segir að tölur Hagstofunanr sem fjallað er um hér að ofan gefa til kynna hversu mikilvægt sé að skapa lagalega umgjörð til að hlúa að þessum börnum og fjölskyldum þeirra.
„Það er stórt og óafturkræft áfall þegar foreldri barns fellur frá og hefur mikil áhrif á líf þess.
Það er sorgleg staðreynd að á hverju ári lenda börn í þessari stöðu og samfélagið allt þarf að
standa með þeim og sameinast um að tryggja velferð þeirra, eftir áfallið og eins lengi og þörf
krefur, á þann hátt að þeim vegni sem allra best eftir missinn,“ segir Halla Þorvaldsdóttir,
framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands.
Á ráðstefnunni verða kynntar verða rannsóknir um upplifun barna eftir fráfall foreldris og hvernig nýta megi þær upplýsingar til að skapa umgjörð fyrir fagfólk og þá sem standa að börnunum. Jafnframt verður greint frá rannsóknum á stöðu barna sem aðstandenda krabbameinssjúklinga en flest börn missa foreldri sitt vegna illkynja æxlis. Ráðstefnan fer fram klukkan 15 til 17:30 í húsi Íslenskrar erfðagreiningar að Sturlugötu 8 í Reykjavík en ráðstefnunni verður einnig streymt beint á heimasíðu Krabbameinsfélagsins.