Alþjóðlegur baráttudagur verkamanna er haldinn hátíðlegur í meira en þrjátíu sveitarfélögum um land allt í dag. Dagskrá 1. maí hátíðarhaldanna í Reykjavík hefst með kröfugöngu frá Hlemmi klukkan 13:30. Gengið verður niður Laugaveginn, Bankastræti, Austurstræti og niður á Ingólfstorg. Útifundur hefst síðan á Ingólfstorgi klukkan 14:10 en yfirskrift fundarins í ár er „Jöfnum kjörin- samfélag fyrir alla.“
Fyrsta kröfugangan 1. maí 1923
Fyrsti maí er haldinn hátíðlegur sem alþjóðlegur dagur verkmanna víða um heim en dagurinn er opinber frídagur í meira en 80 löndum í Evrópu, Ameríku og Asíu. Upphaf dagsins má rekja til 4. maí 1886 þegar mannfjöldi safnaðist saman í Chicago í Bandaríkjunum til stuðnings verkfalli sem hafði hafist 1. maí til að krefjast átta stunda vinnudags. Bandaríska verkalýðssambandið, The American Federation of Labo, ákvað síðar að 1. maí yrði helgaður baráttunni fyrir styttri vinnudegi.
Á hundrað ára afmæli frönsku byltingarinnar hélt Annað Alþjóðasambandið, sem var alþjóðlegt samband verkalýðs- og sósíalistaflokka, sitt fyrsta þingi í París árið 1889. Á þinginu var ákveðið að taka upp baráttu bandarísku verkalýðshreyfingarinnar og gera kröfuna um átta stunda vinnudag að helstu kröfu verkafólks á alþjóðlegum baráttudegi, 1. maí. Í framhaldi af því var svo skorað á verkalýðssamtök um allan heim að standa fyrir því að verkafólk legði niður vinnu á þessum degi, 1. maí, til að bera fram kröfur sínar
Hér á landi var fyrsta kröfugangan gengin þann fyrsta maí 1923 en það var virkur dagur og þurfti því fólk að taka sér frí úr vinnu ef það vildi taka þátt. Á vef ASÍ segir að kröfur verkalýðsins það ár voru meðal annars krafan um að „þurftarlaun“ ættu að vera skattlaus, krafist var réttlátrar kjördæmaskipunar, banni við helgidagavinnu og næturvinnu og atvinnubætur greiddar gegn atvinnuleysi. Fyrsti maí var gerður löggiltur frídagur á Íslandi árið 1966.
Jöfnum kjörin- samfélag fyrir alla
ASÍ, BSRB, BHM og KÍ standa að baráttufundi á Ingólfstorgi í dag en yfirskrift fundarins er Jöfnum kjörin – samfélag fyrir alla. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar og Sonja Þorbergsdóttir, formaður BSRB, munu halda ræður.
Á fundunum munu tónlistarkonan GDRN og Bubbi Morthens sjá um tónlistaratriði. Þess má geta að Bubbi Morthens tók lagið á baráttufundi á Lækjartorgi fyrir 39 árum, þann 1. maí 1980, sama ár fyrsta platan hans Ísbjarnarblús kom út. Bróðir hans Þorlákur Kristinsson var einn framsögumanna kröfufundarins.