Boeing vissi af því að viðvörunarbúnaður í 737 Max vélum fyritæksins væri ekki að virka eins og hann ætti að gera, en tilkynnti flugfélögum sem notuðust við vélarnar ekki frá því og heldur ekki flugmálayfirvöldum í Bandaríkjunum eða annars staðar.
Gallinn var metinn minniháttar og ekki talinn ógna flugöryggi. Yfirmenn verkfræðideildar félagsins, sem hafði yfirumsjón með framleiðslu á hugbúnaði fyrir vélarnar, hafa nú nær allir verið reknir og skipulagi verið breytt þannig, að öll uppfærsla á búnaði vélanna fer fram undir vökulu auga innra eftirlits og yfirstjórnar félagsins.
Þetta kemur fram í ítarlegri tilkynningu sem Boeing sendi frá sér í dag, þar sem greint er frá því að félagið hafi vitað af galla í vélunum, skömmu eftir að það hóf að afhenda vélar til viðskiptavina.
Max vél Lion Air í Indónesíu hrapaði síðan til jarðar skömmu eftir flugtak, 29. október í fyrra, og létust allir um borð, samtals 189. Í kjölfarið á því var farið að skoða málin enn betur.
Hinn 10. mars síðastliðinn hrapaði síðan önnur Max vél, hjá Ethiopian Airlines, með þeim afleiðingum að allir um borð létust, samtals 157. Í þessum tveimur létust því 346.
Notkun á Max vélunum var bönnuð á alþjóðavísu eftir þetta, og hafa vélarnar verið kyrrsettar síðan.
Rannsóknir standa enn yfir á slysunum, en í frumniðurstöðum yfirvalda í Indónesíu, hefur komið fram að flugmennirnir hafi reynt að fylgja þeim ferlum sem þeir áttu að gera, en það hafi ekki gengið.
Samkvæmt frumniðurstöðum beinist rannsóknin að hugbúnaði í Boeing vélunum - þeim sama og Boeing hefur nú viðurkennt að hafi verið gallaður - en félagið telur þó að hann hafi ekki átt að ógna öryggi farþega og vélanna, með réttum viðbrögðum flugmanna.
Spjótin beinast að hinu svonefnda MCAS-kerfi sem á að koma í veg fyrir ofris, og það sama á við um rannsókn yfirvalda í Eþíópíu á slysinu þar. Líkt og í Indónesíu þá toguðust vélarnar til jarðar.
Bandaríska alríkislögreglan FBI rannsakar nú málið, og það sama á við um teymi rannsakenda frá bandaríska dómsmálaráðuneytinu.
Miklir hagsmunir eru undir fyrir Boeing og þau flugfélög sem notast við Max vélar. Boeing vinnur nú að því að tryggja öryggi vélanna og sannfæra flugmálayfirvöld um að þær séu traustsins verðar. Ekki er ljóst enn hversu langur tími mun líða, þar til það gerist. Hinn 23. maí næstkomandi fer fram fundur frá fulltrúum helstu flugmálayfirvalda í heiminum, þar sem staðan á Max vélunum verður til umræðu, en Boeing er sagt vera að undirbúa sig fyrir þann fund og freista þess að fá leyfi fyrir notkun á vélunum skömmu eftir það, að því er fram hefur komið í ítarlegri umfjöllun Seattle Times um málið. Boeing er stærsti vinnuveitandi Seattle-svæðisins með um 80 þúsund starfsmenn í starfsstöð félagsins í Renton.
Eitt þeirra félaga sem hefur þurft að glíma við erfiðleika vegna kyrrsetningu á Max vélunum er Icelandair. Þrjár vélar félagsins hafa verið kyrrsettar, og aðrar leigðar í staðinn. Þá á félagið von á sex öðrum vélum í flotann, en vegna óvissu um hvenær kyrrsetningu verður aflétt er óvíst hvenær það verður. Sætaframboð Icelandair dregst saman um tvö prósent í sumar vegna kyrrsetningar á vélunum.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, hefur sagt að félagið hafi komið þeim skilaboðum til Boeing að fá skaðann af kyrrsetningunni á Max vélunum bættan.
Lokaniðurstöður rannsókna á því hvað olli flugslysunum í Indónesíu og Eþíópíu liggja hins vegar ekki fyrir, og er ekki ljóst hvenær það verður. Þær munu vafalaust hafa mikið um það að segja, í hvaða farveg möguleg bótamál á hendur Boeing fara.
Boeing er stærsta útflutningsfyrirtækja Bandaríkjanna og hefur verið starfandi í 103 ár. Markaðsvirði þess nemur um 220 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 27 þúsund milljörðum króna.