Náttúruverndarsamtökin Jarðarvinir hafa óskað eftir því að lögreglustjórinn á Vesturlandi taki til tafarlausrar rannsóknar og eftir atvikum sæki forsvarsmenn Hvals hf. til saka þar sem þeir telja veiðileyfi félagsins hafi fallið niður eftir veiðihlé félagsins á árunum 2016 og 2017. Lögreglustjóri Vesturlands hefur nú þegar til rannsóknar tvær aðrar kærur um meint brot Hvals hf.
Veiðileyfi falla úr gildi ef ekki er veitt í 12 mánuði
Í bréfi lögmanns Jarðarvina til lögreglustjóra Vesturlands, sem dagsett er þann 29.apríl síðastliðinn, er greint frá því að í 1.mgr. 4.gr laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða segir að veiðileyfi í atvinnuskyni falli niður hafi fiskiskip ekki verið haldið til fiskveiði í atvinnuskyni í tólf mánuði. Í bréfinu segir að þar sem Hvalur hf. hafi ekki haldið til langreyðaveiða á árunum 2016 og 2017, eða í meira en tólf mánuði, hafi veiðileyfi Hvals hf. fyrir árin 2012 til 2018 fallið niður. Samkvæmt bréfinu var ekki nýtt leyfi til hvalveiða gefið út til Hvals hf. eftir veiðihléið 2016 til 2017 og því hafi allir veiðar Hvals hf. eftir það verið ólöglegar og refsiverðar samkvæmt 1.gr og 10.gr laga um hvalveiðar.
Í lögum um hvalveiðar segir að brot varði allt að sex mánaða fangelsi, upptöku á veiðitækjum skips, byssum, skotlínum, skotfærum svo og öllum afla skipsins. Einnig er talað um að kyrrsetja skuli skip sem staðið er að meintum ólöglegum veiðum þegar það kemur til hafnar og er ekki heimilt að láta það laust fyrr en dómur hefur verið kveðinn upp í máli ákæruvalds gegn skipstjóra skipsins eða máli hans lokið á annan hátt.
Veiddu langreyði fyrir 2.4 milljarða í fyrra
Samkvæmt fréttatilkynningu frá Jarðarvinum mun Hvalur hf. hafa veitt 144 langreyða og 2 blendinga árið 2018. Söluverðmæti hverrar langreyðar eru 16,4 milljónir króna samkvæmt skýrslu Háskóla Íslands frá janúar síðastliðnum. Á þeim grundvelli, væri söluverðmæti afla Hvals hf. árið 2018, miðað við 144 dýr, nær 2.4 milljörðum króna. Jarðvinir halda því hins vegar fram að að veiðileyfi Hvals hf. hafi verið fallið úr gildi árið 2018.
Lögmaður Jarðarvina krest þess að hin opinbera rannsókn og eftir atvikum saksókn nái einnig til ofangreindra atvika en auk þessarar kæru hefur lögreglustjórinn á Vesturlandi tvær aðrar kærur á hendur Hvals hf. til rannsóknar.Ríkissaksóknari felldi úr gildi ákvörðun lögreglustjóra um að hætta rannsókn
Jarðarvinir kærðu Hval hf. í ágúst í fyrra fyrir brot á reglugerð um hvalveiðar. Kæran var í þremur liðum og sneri að veiðum Hvals hf. á blendingshval, skutulbyssunum sem notaðar eru við veiðarnar og loks að vinnslu og verkun afurða. Ríkissaksóknari sendi kæruna til meðferðar hjá lögreglunni á Vesturlandi, sem tilkynnti í desember að rannsókninni hefði verið hætt. Jarðarvinir kærðu þá ákvörðun lögreglustjóra .
Ríkissaksóknari tók kæruna fyrir, staðfesti ákvörðun lögreglu um að hætta rannsókn á skutulbyssum og blendingsveiðum en síðastnefnda brotið skal rannsaka áfram, segir í ákvörðun ríkissaksóknara. Samkvæmt kærunni fór Hvalur hf. ekki að reglum um að um að vinnsla afurða skuli fara fram á yfirbyggðum skurðarfleti og þykir ríkissaksóknara fyllsta ástæða til að afla frekari gagna um þetta atriði. Jafnframt beinir ríkissaksóknari því til lögreglunnar á Vesturlandi að embættið rannsaki hvort Hvalur hf. hafi vanrækt þá skyldu sína að skila veiðidagbókum skipstjóra til Fiskistofu. Það voru einnig samtökin Jarðarvinir sem óskuðu eftir því að skil veiðidagbóka yrðu rannsökuð.