Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Frjálsa fjölmiðlun ehf. af því að greiða Fjárfestingarfélaginu Dalurinn ehf., 15 milljóna króna greiðslu ásamt dráttarvöxtum, en niðurstöðunni verður áfrýjað til Landsréttar, samkvæmt upplýsingum frá Ómari R. Valdimarssyni hdl. lögmanni Dalsins.
Krafa Dalsins, sem nú er í eigu Halldórs Kristmannssonar, um greiðsluna var byggð á samningi frá septembermánuði árið 2017, tveimur mánuðum áður en Pressan ehf. fór í þrot. Þá keypti Dalurinn 45 milljóna króna kröfu Frjálsrar fjölmiðlunar gegn Pressunni ehf.
Samkvæmt samningi áttu greiðslur að fara fram annars vegar 1. september 2018 og hins vegar 1. september 2019. Fyrri greiðslan barst aldrei og byggðist krafa Dalsins á því.
Pressan ehf. er nú í slitameðferð, en Kristján Thorlacius hrl. er skiptastjóri þrotabússins.
Ríkislögmaður, fyrir hönd Tollstjóra, hefur fallist á að rifta 143 milljóna króna greiðslu í ríkissjóð, úr rekstri fjölmiðlafyrirtækisins Pressunnar ehf., sem nú er í slitameðferð eftir gjaldþrot.
Skiptastjóri hefur höfðað fjögur riftunarmál upp á samtals 393 milljónir króna. Þar af er bróðurparturinn, upp á 278 milljónir, vegna greiðslna til ríkissjóðs, sem á því mikilla hagsmuna að gæta vegna falls fjölmiðlafyrirtækisins.
Árum saman skilaði Pressan ekki launatengdum gjöldum, s.s greiðslum til ríkisins, stéttarfélaga og lífeyrissjóða, rétta leið, og er meðal annars deilt um mál sem því tengjast fyrir dómstólum þessi misserin.
Dalurinn er dag eigandi Birtíngs útgáfufélags sem gefur út Mannlíf, Gestgjafann, Vikuna og Hús og híbýli.
Eigandi Frjálsrar fjölmiðlunar er Sigurður G. Guðjónsson hrl., en það félag gefur út miðla sem áður voru í eigu Pressunnar, þar á meðal DV.
Í dómnum segir, að sýknað sé af þeirri ástæðu ekkert hafi komið fram sem styður kröfu Dalsins.
„Ljóst er að umræddur samningur var gerður í tímaþröng, í þágu kaupa stefnda á helstu rekstrareignum Pressunnar ehf., og fólust mikilvægir hagsmunir stefnda í því að stefnandi létti veðböndum af þessum eignum. Jafnframt liggur fyrir að Pressan ehf. var tekin til gjaldþrotaskipta í byrjun desember 2017 og leið því tiltölulega skammur tími frá hinu ætlaða kröfuframsali þar til félagið varð að fullu ófært um greiðslu hugsanlegra krafna sem framseldar höfðu verið stefnda.
Í ljósi þessara atvika þykir það ekki geta ráðið úrslitum í málinu að stefndi virðist engan reka hafa gert að því að kanna nánar hvaða raunverulega krafa stæði að baki umræddum samningi eða neytt heimilda til beitingar vanefndaúrræða, svo sem með yfirlýsingu um riftun. Þótt almennt gildi sú regla fjármunaréttar að sá sem heldur fram vanefnd gagnkvæms samnings, eða ógildi hans, beri sönnunarbyrðina fyrir slíkri staðhæfingu telur dómurinn að við þær aðstæður sem uppi eru í málinu verði stefnandi að bera hallann af skorti á sönnun fyrir þeirri kröfu gegn Pressunni ehf. sem hann telur sig hafa framselt stefnda með téðum samningi.
Eins og
aðilar hafa lagt málið fyrir dóminn verður því að leggja til grundvallar að sú
forsenda samningsins að stefnandi væri í reynd eigandi kröfu að fjárhæð a.m.k.
45.000.000 króna hafi brostið og væri það þar af leiðandi ósanngjarnt gagnvart
stefnda að heimila stefnanda að bera samninginn fyrir sig, sbr. 1. mgr. 36. gr.
laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, eins og lögunum
hefur síðar verið breytt. Verður fallist á kröfu stefnda um sýknu af þessum
ástæðum. Í ljósi atvika málsins og vafaatriða þess þykir rétt að
hvor aðili beri sinn kostnað af málinu,“ segir niðurstöðu kafla dómsins, en Skúli Magnússon var dómari í málinu.