Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði, telur að að afleiðing þess að sameina Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið sé ekki víst að leiða af sér ávinning, meðal annars vegna þess að freistnivandi muni skapast hjá stjórnmálamönnum til þess að láta pólitík og persónulega hollustu ráða við val á yfirmönnum frekar en fagleg sjónarmið.
Í grein sem hann skrifaði í síðustu Vísbendingu segir hann að sá ávinningur sem stefnt sé að, og snýr meðal annars að aukinni skilvirkni, skýrleika ábyrgðar og bættri stjórnsýslu við ákvörðunartöku myndi kannski eiga verða í „fullkomnum heimi en í þeim heimi sem við búum í getur afleiðingin orðið þveröfug.“
Við sameininguna mun stjórnendum hins nýja Seðlabanka Íslands fjölga og stoðir í starfsemi hans verða þrjár: peningastefna, fjármálastöðugleika og fjármálaeftirlit.
Sá sem hreppir möndluna talin hæfastur
Gylfi telur til nokkur rök fyrir afstöðu sinni. Það sé til að mynda líklegt að að pólitísk áhrif á stjórn hins nýja seðlabanka verði meiri einfaldlega vegna þess hversu öflug stofnunin verður og hversu áhrifa hennar mun gæta víða. „Stofnun sem setur reglur á fjármálamarkaði, hefur eftirlit með hegðun fyrirtækja á markaði og getur farið inn í rekstur fjármálastofnana ef henni finnst rekstur of áhættusamur og þar að auki ákveðið vexti, bindiskyldu og haft mikil áhrif á gengi gjaldmiðils í gegnum kaup og sölu á gjaldeyri gæti þannig einfaldlega verið of stór og valdamikil til þess að stjórnmálamenn, þ.e.a.s. þeir sem eru í ríkisstjórn á hverjum tíma, geti látið fagleg sjónarmið ráða við val á yfirmönnum. Pólitísk og persónuleg hollusta mun skipta enn meira máli en áður. Sjálfstæði starfseminnar væri þá ógnað.“
Að mati Gylfa hefur hingað til verið nógu erfitt að ráða seðlabankastjóra á faglegum nótum. „Þess í stað hefur ráðningarferlið yfirleitt verið eins og möndluleikur í jólaboði þar sem t.d. 16 sækja um og einn hreppir möndluna sem húsmóðirin ein veit hvar er, umsóknir eru metnar á þann hátt að sá sem möndluna hreppir er talinn hæfastur. Stjórnmál og persónuleg tengsl ráða, stofnunin er einfaldlega, jafnvel fyrir sameiningu, of mikilvæg pólitískt til þess að reynt sé að leita uppi hæfasta fólkið í störfin þótt afleiðingar mistaka í stjórn stofnunar fyrir samfélagið geti verið og hafi stundum reynzt hörmulegar, t.d. fyrir hrun.“
Gylfi bendir á að afskipti hins nýja Seðlabanka af hegðun fjármálafyrirtækja á markaði geti valdið deilum við stjórnendur fyrirtækjanna og einnig stjórnmálaöfl. „Reyndar er næsta víst að slíkt mun gerast á einhverjum tímapunkti. Í litlu samfélagi er tilhneiging til þess að slík deilumál verði persónuleg[...]Mistök við afskipti af fjármálastofnunum og einnig óvinsælar en réttlætanlegar aðgerðir sem bitna á hagnaði fjármálastofnana geta þannig veikt þann hluta hins nýja seðlabanka sem sinnir hefðbundinni stjórn peningamála.“
Nýr seðlabankastjóri í sumar
Nýr seðlabankastjóri verður skipaður í sumar, en Már Guðmundsson lýkur seinna fimm ára skipunartímabili sínu í ágúst næstkomandi, og má samkvæmt lögum ekki sækja um aftur.
Alls sóttu 16 manns um stöðuna. Hægt er að sjá lista yfir þá umsækjendur hér.
Í vikunni skipaði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra þriggja manna hæfisnefnd til að meta hæfni þeirra umsækjenda sem sótt hafa um embætti seðlabankastjóra.
Með henni í nefndinni verða Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, tilnefndur af samstarfsnefnd háskólastigsins, og Þórunn Guðmundsdóttir, hæstaréttarlögmaður og varaformaður bankaráðs, tilnefnd af bankaráði Seðlabanka Íslands.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.