Alls fengu 1730 einstaklingar meira en þrjá dagskammta af ávanabindandi lyfjum í fyrra en hægt er að áætla að þeir sem taka reglulega þrjá eða fleiri ráðlagða dagskammta af ávanabindandi lyfjum séu háðir þeim. Þá fengu 40 manns í fyrra tíu eða fleiri ráðlega dagskammta ávísaða á dag af ávanabindandi lyfjum. Þetta kom fram í erindi Andrésar Magnússonar geðlæknis á fundi Læknaráðs sem fjallað er um í nýjasta tölublaði Læknablaðsins.
Mikið álag á heilbrigðiskerfið
Af OECD löndum nota Íslendingar mest af lyfjum sem verka á taugakerfið, það eru meðal annars verkjalyf, svefnlyf, þunglyndislyf og lyf við athyglisbresti með ofvirkni. Í ágúst í fyrra gaf Landlæknir út viðvörun um afleiðingar ávanabindandi lyfja vegna fjölmiðlaumfjöllunar um notkun ungmenna á slíkum lyfjum. Lyfjunum er skipt í þrjá flokka, sterk verkjalyf, róandi lyf og örvandi lyf. „Ef of stór skammtur ávanabindandi lyfja er tekinn geta afleiðingarnar verið bæði bráðar og óafturkræfar fyrir einstaklinginn,“ segir á vef Landlæknis.
Á fundi Læknaráðs sagði Andrés Magnússon geðlæknir að mikið álag væri á heilbrigðiskerfið vegna notkunar ávanabindandi lyfja. „Fyrir utan tíð andlát voru fjölmargar komur á bráðamóttökuna á síðasta ári vegna lyfjaeitrunar,“ sagði Andrés. Þær hafi verið 450 vegna lyfja almennt en vegna ávanabindandi lyfja hafi margar innlagnir verið á gjörgæslu, aragrúi innlagna vegna lyfjafíknar á Vog, fíknigeðdeild Landspítala, geðdeildir og almennar deildir, “ sagði Andrés.
Andrés sagði jafnframt í samtali við Læknablaðið að þrátt fyrir alvarlegar afleiðingar við langtímatöku ávanabindandi lyfja og lítinn ávinning, fyrir utan við skammtíma- og lífslokameðferðir, séu litlar skorður settar við ávísanir á þau. Hann sagði að þörf sé á skýrari reglum og að læknir hafi kallað eftir því að geta sagt að reglurnar bjóði ekki upp á að viðkomandi læknir skrifi upp á meiri ávanabindandi lyf.
Að hans mati er hægt að fara ýmsar leiðir til þess að aðstoða lækna við að takmarka ávísanir ávanabindandi lyfja. Til dæmis sé hægt að ákveða að ef notkun ávanabindandi lyfja fer yfir til dæmis einn ráðlagðan dagsskammt á dag alla daga ársins skuli gjöf ávanabindandi lyfja hætt. Þá bætti hann jafnframt við að ekki ætti að vera hægt að endurnýja ávanabindandi lyf í gegnum síma eða Heilsuveru.
Andrés benti þó jafnframt á að nú þegar sé verið að þrengja að notkun ákveðinni lyfja, til dæmis séu ADHD-lyf aðeins afgreidd þeim sem hafa greiningu og skírteini og ekki megi skrifa út lyfseðil með ávanabindandi lyfi ef annar slíkur lyfseðill er fyrir í lyfjagáttinni.
Lagt til að herða eftirlit með ávísunavenjum lækna
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skipaði í febrúar í fyrra starfshóp til að sporna við mis- og ofnotkun geð- og verkjalyfja. Hópurinn skilaði skýrslu til ráðherra með niðurstöðum og tillögum í maí í fyrra. Í skýrslu starfshópsins segir að ástæður mikillar lyfjanotkunar hér á landi séu margþættar. Skapast hafi væntingar og menning sem líti á lyf sem lausn margra vandamála og samhliða miklu magni af ávanabindandi lyfjum í umferð aukist hætta á of- og misnotkun.
Hópurinn lagði til tillögur til aðgerða í níu liðum en tillögurnar miðuðu að því að takmarka aðgang að ávanabindandi lyfjum og herða eftirlit með ávísunavenjum lækna. Jafnframt taldi hópurinn að gera ætti kröfur um að bætta greiningu á ADHD og bæta aðgang að öðrum úrræðum en lyfjum við meðferð á ADHD, svefnvanda, kvíðaröskunum og langvinnum verkjum.
Ekki til tölur um ávísanir lækna til nákomna
Ólafur B. Einarsson, verkefnastjóri lyfjamála, sagði í samtali við Vísi fyrr á þessu ári, að í dag séu þrjú til fjögur hundruð læknar mjög virkir í ávísunum ávanabindandi lyfja til sjúklinga. Í fyrra voru stofnuð 45 ný mál vegna eftirlits með ávísunum lækna sem voru til viðbótar við önnur eldri mál. Þá brá embættið á það í janúar að senda fimmtíu hæstu læknunum bréf.
Ólafur sagði jafnframt að fíknivanda væri þekkur atvinnusjúkdóm meðal heilbrigðisstarfsmanna en á fundi Læknaráðs kom fram að alls ávísaði 441 læknir lyfi á sjálfan sig í fyrra og 102 tannlæknar. Auk þess ávísuðu alls fimm læknir tvöföldum ráðlögum dagskammti eða meira af ávanabindandi lyfjum á sjálfan sig í fyrra. Þá kom jafnframt fram á fundinum að embætti landlæknis á ekki tölur um ávísanir lækna á nákomna.