Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata og nefndarmaður í forsætisnefnd, gagnrýnir þá ákvörðun forsætisnefndar að túlka meinta kynferðislega áreitni Ágústs Ólafs Ólafssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, ekki sem brot á siðareglum og jafnframt bóka að erindið gefi ekki tilefni til frekari athugunar. Þetta kemur fram í bókun Jón Þórs við afgreiðslu forsætisnefndar á máli Ágústs Ólafs.
Skelfileg skilaboð til að senda konum
Forsætisnefnd Alþingis hefur haft til meðferðar erindi um meint brot Ágústs Ólafs Ágústssonar, alþingismanns, á siðareglum fyrir alþingismenn vegna kynferðislegs áreiti hans gagnvart konu. Kristján Hall, sem bauð sig meðal annars fram fyrir Miðflokkinn í sveitastjórnarkosningum í fyrra, sendi erindið inn. Á mánudaginn birti forsætisnefnd niðurstöðu sína en þar kemur fram að fyrirliggjandi erindi gefi ekki tilefni til frekari athugunar af hennar hálfu.
Í forsætisnefnd sitja Steingrímur J. Sigfússon, Guðjón S. Brjánsson, Brynjar Níelsson, Þorsteinn Sæmundsson, Willum Þór Þórsson, Jón Þór Ólafsson, Bryndís Haraldsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir og Haraldur Benediktsson. Áheyrnafulltrúar í nefndinni eru Þorsetinn Víglundsson og Inga Sæland.
Jón Þór bendir á bókun sinni að þrátt fyrir að forsætisnefnd hafi komist að þeirri niðurstöðu að málavextir málsins séu óumdeildir og að Ágúst Ólafur hafi fallið á þá niðurstöðu trúnaðarnefndar Samfylkingarinnar að fella hátterni þingmanns undir kynferðislega áreitni. Þá hafi samt sem áður flestir í nefndinni ákveðið að túlka það ekki sem brot á siðareglum Í bókunni segir að betra hefði verið að forsætisnefnd hefði lokið málinu með hliðsjón af 3. mgr. 18. gr. siðareglna „með því að láta í ljós álit sitt á því [að] athafnir þingmanns brjóti í bága við meginreglur um hátterni og hátternisskyldur hans samkvæmt siðareglum“
Í bókuninni segir að Jón Þór hafi varað við þessari afgreiðslu nefndarinnar. Hann hafi ekki samþykkt hana og lagt til aðrar leiðir. Hann bendir á að þessi niðurstaða nefndarinnar kemur minna en ári eftir að Alþingi ályktaði að breyta siðareglum fyrir Alþingismenn. „Slík málsmeðferð vekur ekki traust á að forsætisnefnd ætli að virða vilja Alþingis varðandi kynferðislega áreitni sem eru skelfileg skilaboð að senda konum og þeim sem hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni.“
Betra ef Ágúst Ólafur hefði óskað eftir því að málið færi fyrir siðanefnd
Jafnframt kemur fram í bókuninni að Jón Þór þyki það gott að Ágúst Ólafur hafi svarað forsætisnefndinni þannig að hann geri ekki athugasemd við þá túlkun forsætisnefndarinnar að niðurstaða trúnaðarnefndarinnar sé alvarlegur áfellisdómur um hátterni þingmannsins. Jón Þór segir hins vegar að betri hefði verið að Ágúst Ólafur hefði óskað eftir því að málið færi fyrir siðanefnd í stað þess að óska eftir því í upphafi að því væri vísað frá.
Auk þess segir í bókuninni að betra hefði verið að siðanefnd hefði gefið skýr svör út frá þeim upplýsingum sem konan, sem hátterni þingmannsins beindist gegn, hafði þegar greint opinberlega frá. Í stað þess svaraði siðanefndin því að nefndinni væri ekki fært að leggja mat á þau álitaefni því til þess þyrfti nefndin að afla upplýsinga frá konunni. Jón Þór bendir hins vegar á að konan hefði líka lýst því yfir að: „Það er ekki hægt að gera þá kröfu til þolanda að hann ákveði afleiðingar. Það er Ágústar Ólafs, Samfylkingarinnar og eftir atvikum Alþingis að ákveða það.“ Hann bendir jafnframt á að siðanefnd Alþingis hafi haft allar þessar upplýsingar.
Að lokum segir í bókuninni að mikilvægt sé að taka það fram að Jón Þór hafi spurt við afgreiðslu málsins hvort að sú afgreiðsla sem samþykkt var af flestum í forsætisnefnd myndi á einhvern hátt takmarka rétt konunnar sem hátterni þingmannsins beindist gegn til að óska sjálf eftir því að málið færi fyrir siðanefnd Alþingis. „Skrifstofa Alþingis og forseti Alþingis svöruðu mjög skýrt að svo væri ekki. Konan getur því enn óskað eftir að málinu sé vísað til siðanefndar Alþingis,“ segir í bókuninni.