Taívan varð í dag fyrst ríkja í Asíu til þess að heimila hjónabönd samkynhneigðra en frumvarp þess efnis var samþykkt á þingi Taívan í morgun. Stjórnarskrárdómstóll landsins hafði úrskurðað árið 2017 að fólk af sama kyni ætti rétt á að ganga í hjónaband og var þinginu gefinn tveggja ára frestur til að leiða það í lög. Frá þessu er greint á vef BBC.
Framsæknasta frumvarpið samþykkt
Í nóvember í fyrra var kosið um lögleiðingu hjónabanda fólks af sama kyni í þjóðaratkvæðagreiðsla í Taívan. Þjóðin hafnaði lögleiðingunni en atkvæðagreiðslan var þó ekki bindandi. Þrjú frumvörp voru síðan lögð fram um málefnið á þinginu, tvö frumvarpanna voru á þann veg að samkynhneigðum yrði ekki heimilað að ganga í formlegt hjónaband heldur frekar að gera sáttmála sín á milli. Á endanum var hins vegar framsæknasta frumvarpið samþykkt í þinginu.
Mörg hundruð stuðningsmenn fögnuðu niðurstöðunni fyrir utan þinghúsið í höfuðborginni Taípei í morgun en baráttufólk fyrir réttindum LGBT-fólks á eyjunni hefur barist fyrir jafnrétti þegar kemur að hjónaböndum í mörg ár.
Vonast til þess að fleiri ríki í Asíu fylgi fordæmi Taívan
Í umfjöllun BBC segir að forsvarsmenn mannréttindasamtaka vonast til þess að þessar vendingar í Taívan muni leiða til að fleiri ríki Asíu samþykki sambærileg lög en Taívan hefur lengi leitt baráttu samkynhneigðra í Asíu.
Í september í fyrra úrskurðaði Hæstiréttur Indlands að kynlíf samkynhneigðra væri ekki lengur glæpsamlegt þar í landi. Í Kína eru hjónabönd samkynhneigðra enn ólögleg en síðan 1997 hefur samkynhneigð ekki verið glæpsamleg þar í landi. Í Víetnam eru brúðkaupsveislur samkynhneigðra ekki lengur glæpsamlegar en landið hefur ekki enn lögleitt hjónabönd samkynhneigðra.