Liðsmenn Hatara veifuðu Palestínufánum í beinni útsendingu þegar tilkynnt var um stigin úr símakosningunni í Eurovision-keppninni í kvöld. Óljóst er hvort að uppákoman eigi eftir að hafa einhverja eftirmála en á vef BBC segir að keppnin hafi lýst því yfir að afleiðingar uppákomunnar verða ræddar á stjórnarfundi Eurovison.
Hatari hafnaði í tíunda sæti í keppninni í kvöld en það var Hollendingurinn Duncan Laurence sem sigraði með lagi sínu Arcade.
Meðlimir Hatara voru ekki einu flytjendur kvöldsins sem vísuðu til Palestínu. Í lok flutnings söngkonunnar Madonnu mátti sjá tvo dansara falla í faðma en á baki þeirra voru annars vegar fáni Ísrael og hins vegar fáni Palestínu. Í kjölfarið hvíslaði Madonna orðin „wake up“ eða vaknið þið og voru orðin einnig birt á stórum skjá fyrir aftan hana.