„Þess vegna voru mér það sár vonbrigði að sjá íslensk stjórnmál, fjölmiðla og réttarkerfið falla á kné þegar erlend nefnd sem ekkert umboð hefur frá sjálfstæðum Íslendingum gerði atlögu að dómskerfi okkar Íslendinga.“
Þetta segir Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokks og fyrrverandi dómsmálaráðherra, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag þar sem hún fjallar um niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu í mars síðastliðnum, um að hún og Alþingi hafi skipað fjóra dómara í Landsrétt með ólögmætum hætti. Sigríður þurfti að segja af sér embætti dómsmálaráðherra vegna málsins.
Þar segir Sigríður enn fremur að aldrei áður í sögu lýðveldisins hefðu handhafi framkvæmdavalds, handhafar löggjafarvalds og handhafar dómsvalds á Íslandi, auk forseta Íslands, fest nýja stofnun í sessi með jafn afgerandi hætti og gert var með Landsrétt. „Landsréttur og dómararnir fimmtán sem réttinn skipa hafa einstakan stuðning þeirra er málið varðar. Ég treysti því að þegar frá líður verði litið á þessa atlögu frá pólitísk kjörnum dómurum í Strassborg með sömu augum og minnihlutinn gerði. Sem umboðslaust pólitískt at.“
Áfelli yfir Sigríði og Alþingi
Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu féll þriðjudaginn 12. mars síðastliðinn. Í honum fengu bæði Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, og Alþingi á sig áfellisdóm fyrir það hvernig haldið var á skipan 15 dómara við Landsrétt í byrjun júní 2017. Sigríður fyrir að hafa brotið stjórnsýslulög með því að breyta listanum um tilnefnda dómara frá þeim lista sem hæfisnefnd hafði skilað af sér, og fært fjóra dómara af þeim lista en sett aðra fjóra inn á hann án þess að rannsaka og rökstyðja þá ákvörðun með nægjanlegum hætti.
Alþingi fyrir að hafa kosið um skipan dómaranna allra í einu, í stað þess að kjósa um hvern fyrir sig. Sigríður sagði af sér embætti daginn eftir dóminn og óvissa ríkir um starfsemi millidómstigsins vegna dómsins.
Í dag er staðan sú að þeir fjórir dómarar sem Sigríður ákvað að setja á listann yfir þá sem ætti að skipa í Landsrétt, en höfðu ekki verið metnir á meðal 15 hæfustu af hæfisnefnd, dæma ekki í nokkrum málum.
Á meðal þeirra lögmanna sem tjáð hafa sig um málið er Sigríður Rut Júlíusdóttir, lögmaður hjá Rétti.
Í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í mars sagði hún að í öllu ferlinu, alveg frá því að það var verið að skipa dómaranna í sumarbyrjun 2017, hafi viðvörunarbjöllur hringt, margir sett út á ferlið og miklar deilur. „Þegar á þeirri stundu hefði ráðherrann átt að hugsa „Heyrðu, ef að illa fer hér þá verður katastrófa. Við skulum gera allt sem við getum gert til að lagfæra ferlið ef það þarf og gea það skothelt til að katastrófan verði ekki“. Í seinasta lagi hefði ráðherrann átt, um leið og fyrir lá að dómstólinn ætlaði að dæma í málinu, og málið komið í gegnum allar þessar síur, um leið og þetta liggur fyrir þá átti ráðherrann að skipa starfshóp á núll einni. Okkar helstu og bestu sérfræðinga til þess að vera viss um hvað við ætluðum að gera daginn eftir dóm ef að katastrófan myndi gerast.“