Póst- og fjarskiptastofnun hefur samþykkt umsókn Íslandspósts um framlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu vegna erlendra póstsendinga en vísaði frá umsókn félagsins vegna þriggja annarra atriða. Stofnunin komst að þeirri niðurstöðu að ófjármagnað tap Íslandspósts vegna erlendra sendinga á árunum 2013 til 2018 sé 1.463 milljónir króna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Póst- og fjarskiptastofnunar.
Krafa upp á 2,6 milljarða
Í október á síðasta ári sótti Íslandspóstur um framlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu vegna fjögurra þátta, hraða og tíðni sendinga, erlendra bréfa, dreifingar í dreifbýli og sendinga fyrir blinda. Alls hljóðaði krafa Íslandspósts upp á rúmlega 2,6 milljarða á því tímabili sem sótt var framlag fyrir. Póst- og fjarskiptastofnun féllst á umsókn félagsins varðandi erlendar póstsendingar en vísaði hinum þremur frá. Stofnunin vísar meðal annars til þess að Íslandspósti sé skylt að sinna alþjóðlegum skuldbindingum Íslands vegna aðildar ríkisins að Alþjóðapóstþjónustusambandinu.
Stofnunin komst að þeirri niðurstöðu að ófjármögnuð byrði Íslandspósts vegna erlendra sendinga sé 1.463 milljónir króna tímabilinu 30. október 2014 til 31. desember 2018 eða sem nemur 350 milljónum króna að meðaltali á ári, sem jöfnunarsjóði alþjónustu er heimilt að greiða. Íslandspóstur hafði sótt um framlag upp á 1.640 milljónir vegna erlendra bréfa en vegna fyrningar krafna og banns þess efnis að ekki sé heimilt að sækja um framlag vegna alþjónustu vegna þjónustu sem heyrir undir einkarétt. Dreifing póstsendingum erlendis frá undir 50 grömm falla undir einkarétt félagsins.
Sjóðurinn sem greiða á kostnaðinn ekki til
Í lögum um póstþjónustu er gert ráð fyrir því að til sé jöfnunarsjóður sem greiði fyrir alþjónustukostnað alþjónustuveitanda. Til að standa straum af mögulegum framlögum úr sjóðnum skal innheimta jöfnunargjald sem lagt er á rekstrarleyfishafa í hlutfalli við bókfærða veltu. Engin slíkur sjóður er hins vegar til í dag.
Í frétt Póst- og fjarskiptastofnunnar er jafnframt bent á að nú liggi fyrir á Alþingi frumvarp til nýrra laga um póstþjónustu, í því frumvarpi er lagt til að jöfnunarsjóður sé lagður niður og þess í stað kveðið á um að kostnaður vegna alþjónustu muni verða greiddur úr ríkissjóði.
Frumvarp samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, um breytingar á lögum um erlendar póstsendingar og rafrænar sendinga hefur hins vegar verið samþykkt á Alþingi. Breytingarnar heimila Íslandspósti að leggja sérstakt gjald á viðtakendur erlendra póstsendinga. Samkvæmt frumvarpinu er þetta gert til að bregðast við óbættum raunkostnaði Póstsins vegna erlendra pakkasendinga. Jafnframt verji þetta í raun stöðu ríkissjóðs til framtíðar litið og koma í veg fyrir að skattfé verði notað til að niðurgreiða kostnað vegna sendinga frá útlöndum.
Íslandspóstur hefur tilkynnt að frá og með 3. júní bætist sendingargjald við sendingar sem koma með Póstinum frá útlöndum. Sendingargjaldið verður 400 krónur fyrir sendingar frá Evrópu en 600 krónur fyrir sendingar frá löndum utan Evrópu og er því ætlað að standa undir kostnaði við dreifingu.
1,5 milljarða króna lán frá ríkinu
Íslandspóstur, sem er í eigu ríksins og sinnir alþjónustuskyldu, tapaði 293 milljónum á árinu 2018 en hagnaður fyrirtækisins var 216 milljónir árið á undan. Fjárhagsstaða Íslandspósts hefur verið varhugaverð um nokkurn tíma en í september í fyrra leitaði Íslandspóstur á náðir ríkisins og fékk 500 milljónir króna að láni til að bregðast við lausafjárskorti eftir að viðskiptabanki þess, Landsbanki Íslands, hafði lokað á frekari lánveitingar. Nokkrum mánuðum síðar, í desember, samþykkti Alþingi að lána fyrirtækinu allt að milljarð til viðbótar.
Fréttablaðið greindi frá því í mars síðastliðnum að Póst- og fjarskiptastofnun teldi að lausafjárvandi Íslandspósts væri tilkominn vegna fækkunar einkaréttarbréfa annars vegar og hins vegar mikilla fjárfestinga sem ráðist var í á sama tíma og fjármögnun þeirra var ekki tryggð. Þetta kom fram í svari stofnunarinnar við erindi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytsins þar sem óskað var eftir því að stofnunin gerði grein fyrir hvernig eftirliti stofnunarinnar með fjárhagsstöðu Íslandspósts hefði verið háttað. Jafnframt kom fram í svarinu að þessi vandi hafi ekki verið opinberaður af hálfu Íslandspóst fyrr en á síðari helmingi síðasta árs.