Í nýrri áhættumatsskýrslu greiningardeildar Ríkislögreglustjóra segir að vitað sé til þess að íslenskir fíkniefnasalar stundi það sérstaklega að smygla inn sterkum verkjalyfjum frá Spáni til að selja fíklum.
Meginniðurstaða skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra er sú að áhætta vegna helstu brotaflokka skipulagðrar glæpastarfsemi á Íslandi fari enn vaxandi. Samkvæmt áhættulíkani
löggæsluáætlunar er niðurstaðan „gífurleg áhætta“ við mat á skipulagðri glæpastarfsemi, en það er efsta stig áhættu samkvæmt skilgreiningu.
Í skýrslunni segir að fyrirliggjandi upplýsingar bendi ekki til þess, að vandinn hvað varðar neyslu á sterkum verkjalyfjum, fari minnkandi. „Fyrirliggjandi upplýsingar benda ekki til þess að umfang vandans fari minnkandi á Íslandi, þvert á móti líkt og fram kemur í upplýsingum embættis landlæknis. Lögreglu er kunnugt um að umfangsmiklir íslenskir fíkniefnasalar komi að innflutningi á sterkum verkjalyfjum sem flutt eru til landsins oft frá Spáni og með löglegum hætti þ.e. einstaklingur er fenginn til að halda til útlanda í þeim tilgangi einum að kaupa sterk verkjalyf, sem viðkomandi má síðan hafa með sér í tilteknu magni til Íslands. Þegar heim er komið afhendir „ferðamaðurinn“ lyfin sem síðan eru seld á svörtum markaði,“ segir í skýrslunni.
Fjallað var ítarlega um hvernig fíknivandi hefur verið að breiða úr sér af ógnarhraða í Bandaríkjunum og Kanada, og víðar á Vesturlöndum, í fréttaskýringu á vef Kjarnans á föstudaginn.
Þróunin á Íslandi hefur um margt verið svipuð, þar sem dauðsföll ungmenna, vegna neyslu á sterkum verkjalyfjum, hafa verið tíð.
Í skýrslunni segir að sala á efnunum fari ekki síst fram á Facebook. „Neysla sterkra verkjalyfja sem innihalda ópíumafleiður hefur kostað tugi manna lífið hér á landi á síðustu árum. Borið hefur á miklu framboði á sterkum verkjalyfjum á síðustu misserum. Í lokuðum hópum á Facebook fer fram sala og dreifing á lyfseðilsskyldum lyfjum sem í hluta tilvika hefur verið ávísað af íslenskum læknum. Sumir hópanna telja þúsundir einstaklinga. Sterk verkjalyf finnast í póstsendingum. Tollstjóri leggur reglulega hald á sterk verkjalyf sem reynt er að smygla til landsins. Aukin neysla sterkra verkjalyfja er samfélagsógn sem valdið hefur hörmungum og dauða víða á Vesturlöndum. Í Bandaríkjunum og Kanada er talað um „faraldur“ í þessu samhengi og algengt er að neytendur taki að nota heróín í stað verkjalyfja sökum kostnaðar og aðgengileika. Aðgerðir og inngrip stjórnvalda til skaðaminnkunar eru stöðugt til umræðu í þessum tveimur löndum. Viðbrögð stjórnvalda á Íslandi hafa falist í takmörkunum á aðgengi og hertu eftirliti með ávísunum lyfja, skipun starfshópa og breytingum á reglugerðum,“ segir í skýrslu greiningardeildar.